Veitingastaðurinn Djúsí sushi var opnaður í Pósthúsi mathöll á dögunum og hefur hitt í mark hjá gestum ef marka má viðtökurnar.
Lúðvík Þór Leósson er einn af eigendum og yfirkokkur á Djúsí sushi.
„Hér er boðið upp á sushi, smárétti og poke-skálar. Maturinn hér er undir áhrifum frá Japan en einnig Suður-Ameríku. Þetta er samspil milli þessara menningarheima,“ segir Lúðvík og segir gesti staðarins sérstaklega sólgna í djúpsteikta rétti.
„Poke-skálarnar eru líka vinsælar, og mjög hollar, og eins fersku rúllurnar okkar,“ segir Lúðvík, en hann hefur verið sushi-kokkur í yfir áratug og kann sitt fag.
„Ég hef haft brennandi áhuga á þessu og er því enn að. Ég er ekki enn orðinn leiður á sushi,“ segir hann og brosir. Lúðvík segir staðinn hafa fengið góðar viðtökur frá því mathöllin var opnuð.
„Húsið fyllist hér öll kvöld og hér er frábær stemning.“