BAKAÐ: Jóla-pavlovan er einfaldari en þú heldur

Elenora Rós er löngu orðin einn þekktasti bakari landsins. Hún var aðeins 19 ára þegar hún gaf út sína fyrstu bók, Bakað, sem naut gríðarlegra vinsælda. 

Í ár kom út ný bók eftir Elenoru Rós, Bakað meira, þar sem finna má fjölbreyttar uppskriftir í sex köflum; sunnudagskaffi, formkökur, brauðtertur, smátertur, veislur og eftirréttir. 

Í þessum fyrsta þætti af Bakað sýnir Elenora Rós Karítas Ríkharðsdóttur hvernig galdra má fram jóla-pavlovu á einfaldan hátt, nokkuð sem Karítas hélt áður að væri ekki einfalt. 

Elenora fer einnig yfir ráðleggingar um marengsgerð og hvað ber að varast. 

Í stuttu máli er alls ekki svo mikið mál að gera gullfallega pavlovu til að bjóða upp á í eftirrétt um jólahátíðina.

mbl.is/Kristófer Liljar Fannarsson

Uppskrift

Þetta er fallegri útgáfan af marengsinum sem við þekkjum öll. Hér er hægt að leika sér gríðarlega. Setja nammi í botninn, lemon curd (sítrónuysting) eða jafnvel karamellu. Þetta er kaka sem er konfekt fyrir auga og fjársjóður fyrir braglaukana. Hún er auðveld ef hún er gerð rétt og auðvelt að baka pavlovuna sjálfa með smá fyrirvar, sem getur of verið hentugt. 

Þú þarft: 

  • 180g eggjahvítur
  • 300 g sykur 
  • 250 ml rjóma 
  • 5-10 g vanillumauk (ef vill)
  • Ber að eigin vali

Aðferð:

  • Forhitið ofninn í 150°C og passið að stilla á blástur. 
  • Teiknið 20 cm hring á bökunarpappír og leggið til hliðar. 
  • Áður en þið byrjið að þeyta eggjahvíturnar er mjög mikilvægt að skálin sé tandurhrein, því annars ná eggjahvíturnar ekki að þeytast. 
  • Setjið eggjahvíturnar í skál og byrjið að þeyta á vægum hraða. Þegar eggjahvíturnar byrjað að freyða er bætt í hraðann þar til marengsinn fer að taka á sig mynd og eggjahvíturnar eru vel þeyttar. Þetta ferli tekur um 10 mínútur. 
  • Hækkið núna hraðann og bætið sykrinum við hægt og rólega, u.þ.b. 1 tsk í einu, og þeytið þar til marengsinn verður stífur og heldur sér vel og sykurinn er alveg uppleystur.
  • Setjið litla doppu af marengsinum á hornin á pappírnum svo að pappírinn festist við plötuna.
  • Setjið marengsinn á hringinn sem þið voruð búin að teikna á pappírinn í skerfi tvö en passið að nota hliðina sem þið teiknuðuð ekki á svo að blekið fari ekki í marengsinn. 
  • Notið skeið eða spaða til að dreifa úr marengsinum í hring. Reynið að hafa hringinn frekar háan og búa til smá holu svo að þetta verði eins og skál í miðjunni en þar ofan í kemur fyllingin eftir bakstur. 
  • Setjið í forhitaða ofninn og bakið í u.þ.b. klukkutíma. 
  • Slökkvið á ofninum, leifið pavlovunni að kólna alveg inni í ofninum og hafið hann lokaðan á meðan. Þetta tryggir að hún falli ekki eftir bakstur.
  • Þeytið rjóma og vanillu saman þar til rjóminner léttþeyttur.
  • Skerið berin niður í hæfilega stærð. 
  • Setjið rjómann og berin ofan í holuna á pavlovunni og berið fram.
mbl.is/Kristófer Liljar Fannarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert