Veitingamaðurinn Gísli Matthías Auðunsson birti pistil á facebooksíðu sinni þar sem hann lýsir dæmigerðu rekstrarumhverfi veitingastaða sem hann segir mjög erfitt.
Verðhækkanir, fjármagns- og launakostnaður séu meðal þess sem geri það nánast ómögulegt að reka veitingastaði réttum megin við núllið og undir það taka fjölmargir veitingamenn sem eru í sömu sporum.
„Nú stendur fyrir dyrum algjör krísa í veitingarekstri, kostnaður er orðinn allt of hár á öllum vígstöðvum og þótt ég sé almennt mjög lausnamiðaður þá bara sé ég ekki hvernig dæmið á að ganga upp hjá veitingastöðum. Nú er komið nýtt ár og laun hafa hækkað mikið á undanförnum misserum, öll lán komin með rosalega háa greiðslubyrði vegna hárra vaxta og maður bíður núna stressaður eftir sumrinu til þess að fara að byrja að borga af covid-láninu sem var tekið sem átti aldeilis að bjarga málunum,“ segir Gísli í póstinum og bendir á að vörur hafi aldrei verið dýrari út af ýmsum þáttum sem veitingafólk hafi enga stjórn á.
Gísli spyr hvað gera skuli. Erfitt sé að hækka verð til samræmis því þá hefðu fáir efni á að fara út að borða. Þetta sé orðið það lýjandi að hann íhugi hreinlega að leggja árar í bát og hann er vissulega ekki sá eini um borð í þeim bát því um áramótin var hinum vinsæla veitingastað CooCoo's Nest lokað, þar sem eigendur hans ákváðu að hætta rekstrinum – einmitt út af þeim aðstæðum sem Gísli lýsir.