„Hér höfum við virkilega ljúffengan og einfaldan tómatpastarétt sem er einstaklega „creamy” þar sem rjómaosti er bætt út í sósuna. Það gerir svo ótrúlega mikið fyrir bragðið og áferðina, þú hreinlega verður að smakka,“ segir Linda Ben um þennan dásamlega pastarétt sem ætti að hitta í mark á öllum heimilum.
„Ef þú vilt þá getur þú bætt við kjöti út í þennan rétt, bæði nautahakki eða kjúklingabringum. Lykillinn er að setja rjómaostann í endann og toppa svo með parmesan þegar verið er að bera réttinn fram. Það er svo einnig virkilega gott að hafa ferskt salat með líka.“