„Matarmikil salöt hafa alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér og þetta er líklega í efstu þremur sætunum. Grísk matargerð er svo dásamleg, fersk, einföld hráefni og góð krydd. Það tekur ekki langan tíma að græja þetta salat og enn styttri tíma ef kjúklingurinn er tilbúinn í marineringunni þegar á að baka hann,“ segir Valgerður Gréta Gröndal um þetta geggjaða salat sem þið verðið að prófa.
„Ég nota gríska jógúrt bæði í marineringuna og í tzatziki sósuna og ein dós passar akkúrat í uppskriftina. Ferskt salatið ásamt bragðmiklum kjúklingnum, salatostinum, sem á rætur sínar að rekja til Grikklands og sósunni góðu gerir þetta að fullkominni blöndu.“
Grísk skál með kjúklingi, avocado og tzatziki
Fyrir fjóra
Kjúklingur og marinering
- 1 dl grísk jógúrt frá Gott í matinn
- 1⁄2 dl ólífuolía
- 1 stk. geiralaus hvítlaukur
- 1 stk. skallottlaukur, fínt saxaður
- 1 tsk. reykt paprikuduft
- 2 tsk. þurrkað oregano
- 1 tsk. sjávarsalt
- 1⁄2 tsk. nýmalaður svartur pipar
- 700 g beinlaust kjúklingakjöt skorið í bita
Avocadosalat
- 2 stk. avocado, skorin í bita
- 1⁄2 stk. agúrka, skorin í bita
- rauðlaukur skorinn þunnt, magn eftir smekk
- kokteiltómatar skornir í tvennt, magn eftir smekk
- jöklasalat, skorið í strimla
- 150 g Dala salatostur, olía síuð frá (1 lítil krukka)
Tzatziki jógúrtsósa
- 230 g grísk jógúrt frá Gott í matinn
- 1⁄2 stk. agúrka, rifin á rifjárni
- 1 msk. ferskur sítrónusafi
- 2 stk. hvítlauksrif, marin
- 1⁄2 tsk. þurrkað dill
- salt eftir smekk
Aðferð:
- Blandið saman í skál grískri jógúrt, olíu, hvítlauk, skallottlauk, reyktu paprikudufti, oregano, salti og pipar.
- Skerið kjúklinginn í bita og setjið í jógúrtmarineringuna.
- Marinerið í að minnsta kosti 30 mín.
- Á meðan kjúklingurinn marinerast er gott að útbúa tzatziki sósuna.
- Rífið agúrkuna á rifjárni, setjið í skál og stráið salti yfir.
- Setjið í sigti og látið safann renna af í ca. 15 mín.
- Hrærið saman jógúrt, sítrónusafa, hvítlauk og dilli.
- Þegar mesti safinn er runninn af agúrkunni þrýstið þá skeið ofan á og kreistið sem mest af safanum úr.
- Blandið saman við jógúrtblönduna.
- Geymið í kæli þar til salatið er borið fram.
- Hitið ofninn í 200°C. Raðið marineruðum kjúklingabitunum á bökunarplötu og bakið í 10 mín, snúið bitunum við og bakið áfram í 5 mín.
- Í lokin er gott að stilla á grillið í ofninum og brúna kjúklinginn í 1-2 mín.
- Á meðan kjúklingurinn er í ofninum er gott að skera grænmetið í salatið og raða því á bakka eða í skálar, allt eftir því hvort fólk fái sér sjálft af hverju grænmeti eins og um salatbar væri að ræða eða salatinu blandað í stóra skál og toppað með kjúklingnum og sósu.
- Njótið!
Höfundur: Valgerður Gréta Gröndal
Ljósmynd/Valgerður Gréta Gröndal