Þegar maður er sex ára, þá er manni margt til lista lagt - svo lengi sem maður hefur síma í höndunum.
Maður að nafni Keith Stonehouse, leyfði syni sínum Mason að hafa símann sinn rétt fyrir háttatíma sem kostaði hann krónurnar og gott betur en það. Það leið ekki á löngu þar til bankað var upp á með matarsendingar - en Keith hélt í fyrstu að hér væru sendingar að koma inn þar sem konan hans rekur bakarí. En svo reyndist ekki vera! Þegar sendlar frá hinum ýmsu veitingastöðum komu trekk í trekk og hringdu bjöllunni, þá fóru að renna á hann tvær grímur. Hann greip símann og sá ýmsar staðfestingar um að matur væri á leiðinni og horfði á hvernig bankareikningurinn hans tæmdist hratt í leiðinni.
Hann fékk til að mynda neitun frá bankanum á pöntun upp á ríflega 65 þúsund frá einu pítsafyrirtæki. Risarækjur, kjúklingapítur, chili franskar og meira til, náði þó í gegn og var afgreitt heim að dyrum sem kostaði hátt í 150 þúsund krónur samanlagt. Fjölskyldan endaði með að frysta eitthvað af matnum og eins buðu þau nágrönnum til óvæntrar veislu. Þegar Keith reyndi að útskýra fyrir syni sínum að þetta væri ekki í lagi að gera - þá lyfti barnið bara upp höndum og spurði hvort pepperóní pítsan væri komin.