Mikið er um dýrðir ár hvert þegar úrslitin eru kunngjörð í keppninni um Köku ársins. Að þessu sinni var sigurvegarinn Guðrún Erla Guðjónsdóttir, bakari og nemi í kondítor hjá Mosfellsbakarí.
Kakan þótti einstaklega metnaðarfull og bragðgóð en að sögn Guðrúnar er botninn gerður úr léttum marengs með heslihnetum, og ofan á hann fer stökkt crumble sem er búið til úr kex kurli og mjólkursúkkulaði. Síðan kemur frískandi ástaraldin krem, og ofan á það kemur karamellu súkkulaði ganache með ástaraldin. Doré karamellumúsin er svo utan um alt þetta, og að lokum er kakan hjúpuð með gull glaze sem gefur kökunni gyllta áferð.
Guðrún Erla er 22 ára gömul og er kondítor nemi hjá Mosfellsbakarí en hún segir að sigurinn hafi komið virkulega á óvart og en hún varð í öðru sæti í keppninni í fyrra þegar samstarfsmaður hennar, Rúnar Fel, bar sigur úr bítum.
Guðrún segir að áhugi hennar á kökuskreytingum og fínlegri vinnubrögðum hafi orðið til þess að hún ákvað að bæta kondítornum við sig eftir að hún útskrifaðist sem bakari. Einungis sé hægt að læra kondítorinn í Danmörku og því hafi það stytt námið umtalsvert að klára bakaranámið hér heima fyrst.
Hugmyndin á bak við kökuna var að hennar sögn ekki flókin. „Mig langaði að gera ferska og góða köku til að vinna með Doré súkkulaðinu frá Nóa Síríus,“ segir hún en áhugi hennar á kökuskreytingum kviknaði við að horfa á kökugerðarþætti og prófa sig áfram sjálf inn í eldhúsi.
Kakan er komin í sölu í helstu bakaríum landsins og við mælum heilshugar með því að fólk geri vel við sig, nú ekki síst þegar Valentínusar- og konudagurinn eru framundan.