Það fer að bresta á með Ofurskálinni eða Super Bowl og því ekki seinna vænna að ákveða hvaða veitingar verður boðið upp á.
Hér er á ferðinni ein svaðalegasta ídýfa sem sést hefur en við erum að tala um jalapeno-ostaídýfu með BEIKONI. Það er að sjálfsögðu meistari María Gomez á Paz.is sem á heiðurinn af þessari snilld og hafi hún ævarandi þakkir fyrir. Þetta er án efa ein sú allra girnilegasta ídýfa sem sést hefur og við þökkum fyrir okkur.
Heit jalapeno-ostaídýfa með beikoni sem þú verður að prófa
- 250 g beikonkurl eða beikon smátt skorið (geymið eins og 60-80 g til að dreifa yfir réttinn)
- 200 g rjómaostur með graslauk og lauk
- 100 g sýrður rjómi með graslauk eða 10% sýrður rjómi (þessi með graslauknum er í grænu dollunum)
- 1 kúfuð msk majónes
- 1 tsk. hvítlauksduft (ath. ekki hvítlaukssalt, heldur garlic powder)
- 1 tsk. laukduft (onion powder)
- 1 tsk. þurrkaður graslaukur
- 1/2 tsk. gróft salt
- 150 g rifinn cheddarostur (Geymið 60 g af þessum 150 g til að strá yfir réttinn)
- 100 g havartíostur rifinn (Geymið 40 g til að dreifa yfir réttinn)
- 60 g rifinn parmesanostur (geymið 10 g til að dreifa yfir réttinn)
- 2 litlir eða 1 stór jalapenobelgpipar ferskur, smátt skorinn (geymið smá til hliðar til að dreifa yfir réttinn)
- smá chiliflögur (má sleppa)
- smá paprikuduft til að dreifa yfir réttinn
Aðferð
- Hitið ofninn á 180°C blástur.
- Steikið beikonkurlið á pönnu, í ofni eða airfryer þar til stökkt og smá brúnt og setjið það svo á disk með eldhúspappír á og setjið til hliðar.
- Hrærið saman rjómaost, sýrðan rjóma, majónes, hvítlauksduft, laukduft, þurrkaðan graslauk og salt.
- Bætið svo 90 g af rifnum cheddar osti út í, 60 g af rifnum havartí og 50 g af parmesan og hrærið vel saman.
- Bætið svo 170-190 g af beikonkurlinu útí og smátt skornum jalapenobelgpiparnum (fræhreinsið vel jalapenóið ef þið viljið ekki hafa réttinn sterkan, en skiljið fræ eftir ef þið viljið hafa hann sterkan. En alls ekki sleppa jalapeno, það er stjarnan í réttinum). Geymið smá til að dreifa yfir réttinn
- Hrærið allt þessu vel saman og setjið svo í eldfast mót og sléttið jafnt og vel úr í formið.
- Dreifið svo næst 60 g af cheddarosti yfir, 40 g af rifnum havartíosti og 10 g af parmesan jafnt yfir réttinn.
- Dreifið svo restinni af beikonkurlinu, jalapenopiparnum, smá chiliflögum ef þið viljið og paprikuduftinu jafnt yfir réttinn.
- Stingið þá í heitan ofninn og hitið í 15-20 mínútur eða þar til osturinn ofan á er orðinn gullinbrúnn og allt orðið heitt og vel bráðnað.
- Berið heitt fram með nýbökuðu baguettebrauði til að dýfa í, nachos, góðu kexi eða snakki sem þið elskið.