Mörg okkar komumst vart í gegnum bakstur nema með bökunarpappír við hönd – en þessi stórsniðugi pappír býr yfir ýmsum eiginleikum.
Við notum bökunarpappír á ofnskúffurnar okkar til að forðast sull og óhreinindi við matargerð - eins kemur pappírinn að góðum notum við bakstur til að fá fullkomna kanta á kökur og þannig mætti lengi telja.
Allt sem þú þarft að vita um bökunarpappír
- Bökunarpappír er framleiddur til að þola mikinn hita í ofni, en það eru nokkur atriði sem við þurfum að vera meðvituð um.
- Pappírinn er gerður til að þola allt að 220° hita, sem dugar yfirleitt í venjulegri matargerð - enda sjaldan sem við útbúum mat við hærra hitastig en það. Ef þú hitar pappírinn við hærra hitastig, er hætta á að hann skili frá sér efnum sem við viljum ekki að smitist í matinn okkar. Ef uppskriftir krefjast hærra hitastigs, er gott að sleppa bökunarpappírnum.
- Það ber að forðast að hafa bökunarpappír of nálægt hliðum ofnsins, þar sem hann getur brunnið. Eins ber að forðast að nota pappírinn á grillstillingu ofnsins.
- Bökunarpappír er fáanlegur á rúllu sem og í örkum. En einnig eru til margnota arkir úr sílikoni eða með teflon yfirborði sem eru klárlega betri fyrir umhverfið.
- Við bakstur er gott að smyrja bökunarformið áður en pappírinn er settur þar í, þannig færðu fallegri kanta á kökur og brauð.
- Eins er gott að nota umfram pappír í bökunarform til að auðvelda gripið er við tökum kökuna eða brauðið upp úr forminu.