Vatnsdeigsbollur með matarolíu

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

„Hér ákvað ég að prófa að nota matarolíu í stað smjörs í deigið og var alls ekki viss um hvernig myndi takast til. Þær urðu hins vegar alveg fullkomnar, léttar, fallegar og góðar svo ykkur er sannarlega óhætt að prófa þessa útfærslu,“ segir Berglind Hreiðars á Gotteri.is um þessar bollur sem heppnuðust fullkomlega!

Vatnsdeigsbollur með matarolíu

Um 10-12 stykki (stórar)

Vatnsdeigsbollur uppskrift

  • 310 ml vatn
  • 150 ml Isio 4 matarolía
  • 190 g hveiti
  • 1 tsk. lyftiduft
  • ½ tsk. salt
  • 4 egg (360 g) pískuð

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 190°C og takið til tvær ofnskúffur og klæðið með bökunarpappír.
  2. Hitið vatn og matarolíu saman í potti og leyfið suðunni að koma upp.
  3. Slökkvið þá á hellunni og blandið hveiti, lyftidufti og salti saman í skál og hellið í pottinn, vefjið saman við vatnsblönduna með sleikju þar til kekkjalaust.
  4. Færið blönduna yfir í hrærivélarskálina og notið K-ið til að hræra á lægstu stillingu í smá stund svo hitinn rjúki úr deiginu.
  5. Bætið næst eggjablöndunni saman við í nokkrum skömmtum, skafið niður á milli.
  6. Notið ísskeið (um 2 kúfaðar matskeiðar) til að skammta bollur á plöturnar og munið að hafa gott bil á milli þeirra.
  7. Bakið í 30-35 mínútur, ekki opna ofninn fyrr en í fyrsta lagi eftir 27 mínútur samt til að taka stöðuna. Bollurnar mega verða vel gylltar, kælið þær síðan, fyllið og setjið glassúr yfir.

Fylling í bollur

  • 500 ml rjómi
  • 1 tsk. vanillusykur
  • Bonne Maman bláberjasulta (5-6 msk.)
  • Bonne Maman blönduð berjasulta (5-6 msk.)
  • Jarðarberjasneiðar
  • Bláber

Aðferð:

  1. Þeytið saman rjóma og vanillusykur.
  2. Smyrjið um einni matskeið af sultu á neðri hlutann á hverri bollu.
  3. Sprautið næst rjóma á hverja bollu og raðið bláberjum, jarðarberjum eða öðrum berjum ofan á rjómann áður en þið setjið „lokið“ á.
  4. Smyrjið næst glassúr á bollurnar og skreytið.

Glassúr og skraut

  • 100 g brætt smjör
  • 210 g flórsykur
  • 3 msk. bökunarkakó
  • 2 tsk. vanilludropar
  • 2 msk. kaffi (uppáhellt)
  • Karamellukúlur og brúðarslör til skrauts

Aðferð:

  1. Pískið saman smjör, flórsykur, kakó, vanilludropa og kaffi, smyrjið um einni matskeið af glassúr yfir hverja bollu.
  2. Skreytið með karamellukúlum og brúðarslöri.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert