Banna börn undir tíu ára aldri

Ljósmynd/Colourbox

Veitingastaðurinn og lúxus-spaghettibúllan Nettie’s House of Spaghetti sendi á dögunum frá sér tilkynningu um að frá og með 8. mars væru börn undir tíu ára aldri ekki lengur velkomin á veitingastaðinn.

Í tilkynningunni kemur fram að ekki sé lengur hægt að bjóða öðrum gestum upp á hlaupandi krakka um allan staðinn auk þess sem sóðaskapurinn sem fylgi þeim sé það mikill að starfsfólk hafi ekki undan. Ekki sé heldur pláss fyrir kerrur og háa stóla.

Ákvörðunin hafi ekki verið auðveld og eflaust verði margir ósáttir við hana en þetta sé gert í þeirri trú að þetta sé betra fyrir veitingastaðinn til langs tíma litið.

Tilkynningin hefur farið eins og eldur í sinu um netheima og eru skiptar skoðanir um ágæti hennar en þegar öllu er á botninn hvolft hefur veitingastaðurinn sjálfsákvörðunarrétt og ljóst er að vandræðin hafa verið umtalsverð til að réttlæta svo stóra ákvörðun. Flestir virðast þó fagna ákvörðun veitingastaðarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert