Eftirréttapítsa Lilju Katrínar

Ljósmynd/Lilja Katrín

„Já, þið lásuð rétt! Pítsa sem tvinnar saman tveimur eftirréttum sem ég elska – kanilsnúðum og eplaköku!“ segir Lilja Katrín Gunnarsdóttir, útvarpsdrottning og meistarabakari á Blaka.is með meiru um þessa pítsu sem vekur undarlegar kenndir og óvænta tilhllökkun. 

„Og já, þetta er alveg jafn fáránlega, guðdómlega gott og það hljómar. Við erum að tala um pítsabotn út kanilsnúðadeigi sem er smurður með smá smjöri. Ofan á það koma kanilepli og síðan haframjölsmulningur. Dásamlegt nýbakað beint úr ofninum með vanilluís eða rjóma, en líka fáránlega gott kalt. Þessi pítsa allavega gufaði upp heima hjá mér og ég var bara heppin að ég náði mynd af henni!“

„Í botninn nota ég þessa uppskrift að bestu kanilsnúðum í heimi. Það þarf bara hálfa uppskrift í eina pítsu, en ég gerði heila uppskrift í fyrsta sinn sem ég bakaði þetta og gerði síðan kanilsnúða úr restinni. Þið ráðið því náttúrulega alveg sjálf hvað þið gerið, en ég mæli alveg með að hafa nokkra kanilsnúða til hliðar fyrir þá sem fíla ekki bökuð epli.

Þetta er fullkominn helgarréttur sem sómir sér vel á hvaða veisluborði sem er. Þannig að, í staðinn fyrir að smella í hnallþóru eða þriggja hæða köku í næsta heimboði – prófið þá eplaköku kanilsnúða pítsuna.“

Eplaköku kanilsnúða pítsa

Botn

  • 2 msk. volgt vatn
  • 3 msk. brætt volgt smjör
  • 1/2 pakki Royal-vanillubúðingur
  • 1 1/4 dl rjómi
  • 1 egg
  • 1/2 msk. sykur
  • 1/2 tsk. sjávarsalt
  • 250 g hveiti
  • 1/2 bréf þurrger

Eplablanda

  • 2 græn epli (afhýdd og skorin í litla bita)
  • 2 tsk. kanill
  • 3/4 dl sykur
  • 2 msk. hveiti
  • 1 msk. brætt smjör
  • Haframulningur
  • 1/2 dl púðursykur
  • 1/2 tsk. kanill
  • 1/2 dl hveiti
  • 1/2 dl haframjöl
  • smá salt
  • 3 ms.k mjúkt smjör

Leiðbeiningar

Botn

  1. Hitið rjómann. Setjið þurrger og sykur saman við og látið bíða í 5 mínútur. Setjið öll hin hráefnin sem eiga heima í snúðunum í skál og hellið rjómanum yfir. Hnoðið vel saman.
  2. Stráið hveiti yfir deigið, breiðið yfir það klút og látið það hefast þar til það hefur tvöfaldast. Setjið deigið á borðflöt sem búið er að strá hveiti á og fletjið út.

Eplablanda

  1. Hitið ofninn í 180°C. Penslið botninn með 2 matskeiðum af smjöri. Blandið eplum, sykri, kanil og hveiti vel saman í skál og dreifið yfir smjörið.

Haframulningur

  1. Blandið öllu saman í skál nema smjörinu. Notið síðan hendurnar til að vinna smjörið í blönduna þar til hún minnir á grófan sand. Stráið herlegheitunum yfir eplin.
  2. Bakið í 25 til 30 mínútur, eða þar til skorpan er gullinbrún og eplin farin að mýkjast. Reynið síðan að hemja ykkur!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert