Lambahryggur með bestu sósunni

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

„Góð sósa er lykilatriði þegar bera á fram góða steik. Það er að minnsta kosti okkar skoðun hér á þessu heimil enda erum við öll sósusjúk!“ segir matarbloggarinn Berglind Hreiðarsdóttir á Gotteri.is um þessa uppskrift sem tikkar í öll box. Lambahryggur með kryddhjúp hljómar hreint ótrúlega vel og smakkast enn betur.

Lambahryggur með kryddhjúp

Fyrir um 8 manns

Lambahryggur eldun

  • Lambahryggur um 2,8 kg
  • 1 msk. Dijon sinnep
  • 1 msk. hunang
  • Bezt á lambið krydd
  • 130 g brauðraspur
  • 1 msk. saxað timian
  • 1 msk. saxað rósmarín
  • 2 hvítlauksgeirar (rifnir)
  • 60 g smjör við stofuhita
  • 500 ml vatn

Aðfeðr:

  1. Hitið ofninn í 200°C.
  2. Þerrið hrygginn og skerið í hann grunnt mynstur (á skinnið).
  3. Hrærið sinnepi og hunangi næst saman og penslið yfir allan hrygginn og kryddið síðan með vel af Bezt á lambið kryddi.
  4. Setjið brauðrasp, timian, rósmarín, hvítlauk og smjör saman í aðra skál og nuddið saman með fingrunum þar til smjörið hefur samlagast raspinu og úr verður nokkurs konar kurl.
  5. Dreifið kryddhjúpnum jafnt yfir hrygginn og þjappið aðeins, alveg niður hliðarnar.
  6. Setjið hrygginn í stóran steikarpott og inn í ofn í 15 mínútur án þess að hafa lokið á. Lækkið þá hitann niður í 160°C, hellið vatninu í botninn, setjið lokið á pottinn og eldið þannig í 75 mínútur. Sigtið soðið þá úr pottinum fyrir sósuna.
  7. Hækkið hitann að nýju í 200°C, takið lokið af og leyfið að eldast þannig í 15 mínútur. Hvílið síðan kjötið í að minnsta kosti 10 mínútur áður en þið skerið í það.

Sósa með lambahrygg

  • 50 g smjör
  • 250 g kastaníusveppir
  • Soðið úr steikarfatinu
  • 150 ml vatn
  • 250 ml rjómi
  • 1 pk. Toro sveppasósa
  • 1 pk. Toro steikarsósa
  • 1 msk. fljótandi kjötkraftur
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Skerið sveppina niður og steikið upp úr smjöri við meðalhita þar til þeir mýkjast, kryddið með salti og pipar eftir smekk.
  2. Hellið næst soði og vatni í pottinn, hrærið sósubréfin saman við og bætið rjómanum saman við í nokkrum skömmtum.
  3. Smakkið til með krafti, salti og pipar og leyfið sósunni að malla við lágan hita þar til hryggurinn er tilbúinn.

Bakaðar gulrætur

  • 500 g gulrætur
  • 3 msk. ólífuolía
  • 1 tsk. rósmarín (saxað)
  • 1 tsk. timian (saxað)
  • Salt og pipar
  • 50 g pekanhnetur (saxaðar)
  • 2 msk. sýróp

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 160°C.
  2. Flysjið gulræturnar og skerið í strimla.
  3. Veltið upp úr ólífuolíu og kryddum, raðið á ofnskúffu og bakið í um 45 mínútur fyrir ofan hrygginn í ofninum, eða þar til þær byrja að mýkjast. Snúið 1-2 x á þessum tíma.
  4. Þegar gulræturnar eru orðnar mjúkar má dreifa hnetunum yfir og baka í örfáar mínútur í viðbót.
  5. Setjið næst gulræturnar í skál og hellið smá sýrópi yfir þær áður en þeirra er notið.

Smjörsteiktar kartöflur

  • 1 kg soðnar/forsoðnar kartöflur
  • 70 g smjör
  • 1-2 tsk. Bezt á allt hvítlaukskryddið
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Bræðið smjörið á pönnu við meðalháan hita og setjið kartöflurnar saman við.
  2. Kryddið þær og veltið í að minnsta kosti 15 mínútur þar til þær eru heitar í gegn.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert