Vinsælasti barinn í bænum lokar

„Við höfum gengið frá sölu á Granólabarnum – það er að segja búðinni okkar út á Granda og lokum því staðnum um mánaðamótin næstu. Kaupandinn ætlar að breyta staðnum og opna annars konar veitingastað, því erum við í raun ekki að selja uppskriftirnar og vörumerkið sem slíkt,” segir Tobba Marinósdóttir annar eigandi Granólabarsins en hún og móðir hennar Guðbjörg Birkis hafa rekið hin geysivinsæla sykurlausa bar í eitt og hálft ár.

Anna ekki eftirspurn og loka barnum

„Við önnuðum ekki eftirspurn með þessum litla stað og við gátum ekki hugsað okkur að fara að reka keðju eða opna stórt framleiðslueldhús svo ákvörðun var tekin um að losa húsnæðið og semja við okkur stærri aðila um að vinsælustu réttirnir okkar eins og kaffisjeikinn, kökurnar og nicecream skálarnar verði fáanlegar á fleiri stöðum. Við erum að skoða þá möguleika og eigum auðvitað ennþá Náttúrulega Gott sem framleiðir og selur handgert íslenskt granóla án viðbætts sykurs í öllum betri verslunum,” segir Tobba en þær mæðgur selja mörg hundruð poka af granóla á viku.

Tobba segir reksturinn hafa verið skemmtilegan og lærdómsríkan en hana hafði aldrei órað fyrir eftirspurninni en nú þegar selja fjölda mörg kaffihús kökur frá Granólabarnum, þar á meðal öll kaffihús Te og Kaffi. „Við erum svo þakklátar fyrir viðtökurnar og alla okkur dásamlegu fastakúnna. Fólk er svo mikil gargandi snilld og skemmtilegt.“

Síðustu forvöð

Nú fer hver að verða síðastur að tryggja sér gúmmelaði án viðbætts sykurs og sætuefna því senn líður að lokun.

„Snickerskakan okkar og Mintu-Bounty tertan eru gjörsamlega stórkostlegar en hver einasta sneið er handgerð og skorin og því er þetta gríðarlega mikil vinna sem við ráðum hreinlega ekki bara við lengur. Ég held ég get með sanni sagt að veislubakkarnir okkar eru þeir fallegustu á landinu og innhalda engin sætuefni, sykur eða litarefni.”

Tobba segir það að setja saman veislubakkana vera það skemmtilegasta við starfið og þeir séu aldrei eins en vinnan hafi verið mun meiri en hún sá fyrir.

Í aðgerð vegna álagsmeiðsla

„Ég hef ekki alltaf vit fyrir mér og þegar verkefnin eru skemmtileg og krefjandi er erfitt að stoppa. Það er líklega ástæðan fyrir því að ég vann yfir mig og þurfti í akút aðgerð á hendi til að reyna að losna undan varanlegum taugaskaða vegna álagsmeiðsla. Ég er jafna mig en læri kannski eitthvað á þessu. Hvað get ég sagt ég er stemningsmanneskja og það var stemming á djúsvélinni! Alveg þangað til að ég öskurgrét í sturtu nótt eftir nótt vegna handakrampa og var send heim í gipsi til að ná nætursvefni. Þeir sem hafa fengið Carpal Tunnel Syndrome vita að það er ekkert grín og ég er enn ekki komin með fulla tilfinningu í hægri höndina en það kemur vonandi. Ég sef enþá í næturspelkum og hef lært að sjá lífsgæðin í þvi að geta opnað krukku sjálf nú eða girt mig!.”

Göldróttir safakúrar og selleríhreinsanir

Tobba segir að það sé því hægt að gera góð kaup á vefnum hjá þeim á granóla.is næstu daga og tilvalið sé að kaupa kökur og frysta fyrir þá sem villja ekki borða sykur. „Svo vonandi náum við samningum við framleiðsluaðila svo vörur okkar fáist áfram á vel völdum stöðum svo ekki sé tala um okkar tryllt góðu detoxpakka og selleríhreinsanir sem eru hreinlega göldróttar. Hver hefði trúað því að sellerísafinn yrði það sem myndi mok seljast en samt er enginn annar að gera þá? Kannski því fólk vill ekki sofa í gipsi,” segir Tobba hlæjandi og hlakkar til að taka á móti viðskiptavinum næstu 10 daga áður en hún og móðir hennar taka sér kærkomið frí. 

„Við sjáum hvað ég endist lengi í því, ég mun reyna mitt besta. Mig langar reyndar að skipta út baðherberginu.” 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert