Upprunamerkingar eru mikilvægar til að vernda afurðir, ábyrgjast uppruna og tengja neytendur við frumframleiðslu. Þjóðir hafa verið misgóðar í tryggja sér upprunamerkingar. Ítalir hafa til dæmis upprunamerkingu fyrir parmaskinku og parmesan ost, Grikkir fyrir fetaost og Frakkar fyrir kampavín og camembert ost. Eingöngu framleiðendur á ákveðnum svæðum sem upprunamerkingar vísa til mega merkja umbúðir sínar með heitinu.
Íslenskt lambakjöt er fyrsta íslenska afurðin sem hefur fengið íslenska upprunatilvísun og enn sem komið er eina matvaran á landinu með slíka merkingu. Var það liður í umsóknarferlinu til að fá verndaða upprunatilvísun hjá Evrópusambandinu en það tók á sjötta ár. Ferlið var langt en Markaðsstofa íslensks lambakjöts þurfti að sýna fram á sérstöðu sína, að varan hafi haldist óbreytt í 1100 ár og hvergi annars staðar í heiminum sé hægt að fá íslenskt lambakjöt.
Íslenska lambakjötið hefur nú öðlast PDO-merkingu (e. Protected designation of origin), sem er hæsta stig verndaðra upprunatilvísana í Evrópu. Íslenska lambakjötið er þar með komið í hóp með þekktum evrópskum landbúnaðarafurðum en vörur sem hafa öðlast PDO merkingu seljast að meðaltali á tvöföldu útsöluverði í löndum ESB, miðað við staðgönguvörur. Engin önnur íslensk matvara hefur öðlast PDO-merkingu.
Markmiðið með merkingunni er að vernda vörur sem eru framleiddar og unnar á tilteknu landsvæði, með því að nota viðurkennda þekkingu staðbundinna framleiðenda og hráefni frá viðkomandi svæði.
Með upprunamerkingu sinni hefur íslenskt lambakjöt sótt í reynslu sannreyndra erlenda fordæma þar sem upprunamerki standa fyrir tryggan uppruna afurða og úrvinnslu þeirra, frumframleiðendum og neytendum til heilla. Upprunaverndin er einnig talin til hugverka, sem hefur mikið vægi í baráttu gegn matvælasvindli.
Fyrirmynd evrópskrar upprunaverndar er elsta verndarkerfi heims, „appellation d’origine contrôlée (AOC)“, sem komið var á fót í Frakklandi til aðgreiningar og verndunar á víni. Vernd á frönskum matvörum nær allt aftur til ársins 1411, þegar stjórnvöld hlutuðust til um vernd Roquefort ostsins. Framleiðendur í öllum heimsálfum hafa nýtt tækifæri innan evrópsku verndarinnar og um 3.500 skráningar eru nú í kerfinu, sem hefur löngu sannað sig sem sterkasta verndin fyrir vörur með sannarlega sérstöðu.
„Ég er ekki í nokkrum vafa um að PDO-merking muni auka virði íslenska lambakjötsins, bæði á innanlandsmarkaði og erlendis. Reynsla Evrópuþjóða hefur sýnt að vörur sem hafa PDO-merkingu seljast að meðaltali á tvöföldu útsöluverði í löndum ESB, samanborið við staðgönguvörur. Íslenski sauðfjárstofninn hefur haldist án blöndunar við önnur kyn frá landnámsöld. Dýrin búa við mikið frelsi og rými, geta valið sér beit í grasi, villtar jurtir og ber og hafa nægt aðgengi að hreinu vatni. Bragðgæði og meyrni íslensks lambakjöts skorar hátt hjá matgæðingum í alþjóðlegum samanburðarrannsóknum. Það er því mjög mikilvægt að íslenskt lambakjöt sé merkt upprunamerkingu, bæði hér á landi og erlendis. Síðan við hófum íslenska upprunamerkingu árið 2017 hefur orðið 15% aukning á neyslu ferðamanna á lambakjöti á árunum 2017-2021. Aukningin verður vonandi enn meiri þegar við getum nú hafið evrópska upprunamerkingu,“ segir Hafliði Halldórsson, framkvæmdastjóri markaðsstofunnar íslenskt lambakjöt.
Upprunamerking auðveldar neytendum að velja íslenskt en neytendur gera nú meiri kröfur um skýrar upplýsingar um uppruna matvöru.
Samkvæmt neyslukönnun Gallup borðuðu 70% ferðamanna lambakjöt í heimsókn sinni árið 2021. Þeir sem þekktu merki íslenska lambakjötsins og skildu merkingu þess voru mun líklegri til að neyta lambakjöts oftar en einu sinni sem má telja viðurkenningu á gagnsemi markaðssetningar íslensks lambakjöts og ekki síður á gæðum afurðanna. Á tímabilinu 2017-2019 var lambakjöt sú íslenska afurð sem flestir ferðamenn neyttu en næst á eftir var þorskur, lax og skyr fyrir valinu, að því að fram kemur í fréttatilkynningu.