Okkar eftirlætis Eva María hjá Sætum syndum, hélt fermingarveislu fyrir soninn nú á dögunum þar sem veisluborðið var ekki af verri endanum. Hún segir daginn hafa verið fullkominn í alla staði en viðurkenni þó að það sé ákveðinn léttir að vera búin. „Ég vissi að það yrði strembið að ná að klára allt á tíma, því auðvitað var bæði brjáluð törn í vinnunni hjá mér yfir allt fermingartímabilið og yfirleitt yfirvinna alla daga”, segir Eva María í samtali en þess má geta að Sætar syndir voru að byrja með vörur í Krónunni í Skeifunni í vikunni sem leið, svo það hefur verið í nógu að snúast sem aldrei fyrr - og nýtur Eva María þess að fá kærkomið páskafrí.
Hafði litlar skoðanir á veitingunum
„Sonurinn hafði litla sem enga skoðun á neinu tengdu veislunni, enda kannski minna um það þegar drengir eru fermdir versus þegar stelpur fermast. Ég var bara mjög ánægð að geta valið þær veitingar sem heilluðu mig og ég vissi yrðu vinsælar í mannskapinn”, segir Eva María.
„Við vorum með allskonar veitingar en ég vildi bæði hafa mat sem og kökur. Við héldum veisluna heima og vorum með opið hús milli 15-19 til að reyna dreifa fjöldanum, en að sjálfsögðu var eiginlega stútfullt hús um fjögurleytið, en það var allt í lagi. Við vorum búin að skipuleggja allt vel varðandi sæti, þannig að þrátt fyrir að vera með veisluna heima vorum við með sæti fyrir allt að 45 manns”, segir Eva María.
Súpan borin fram í litlum bollum
Eva María keypti veitingar frá Matarkompaní, en hún kynntist þeim á fermingarsýningu í Garðheimum sem haldin var fyrr á árinu og ber þeim góðar sögurnar. „Við vorum með æðislega kókos karrý fiskisúpu og ítalskt brauð ásamt smjöri og heimagerðu pestói. Súpuna bar ég fram í kaffikönnu þannig að fólk fékk sér súpu í litlum bollum og drakk úr þeim - það kom mjög skemmtilega út. Eins tókum við þrenns konar spjót, teriyaki kjúklingaspjót með teriyaki dressingu, parmaskinkuspjót með kirsuberjatómötum, mozzarellaosti og basiliku og tígrisrækjuspjót með mangó-chilli dressingu. Þetta var allt rosalega gott. Matarkompaní keyrðu veitingarnar heim og sóttu svo allt að veislu lokinni - mjög góð þjónusta”, segir Eva María sem keypti einnig mini hamborgara frá Duck & Rose og þykja afbragðsgóðir.
Sæta hornið var drekkhlaðið
Eva María er alls ekki óvön í eldhúsinu og er mikill matgæðingur - en hún fékk ómælda aðstoð frá fjölskyldunni við að útbúa heita brauðrétti, mini pítsur, ostasalat og hreindýrabollur með hvítlaukssósu. Í sæta horninu mátti finna mini marengs með hvítsúkkulaðimousse og ferskum berjum sem Eva María útbjó í Sætum Syndum. Eins Rice krispies karamellustaf og fermingarkökuna sem var súkkulaðikaka með saltkaramellu. Þar að auki var kleinuhringjastandur, nammibar, sörur, fersk ber, makkrónur og karamellubitar.
Heiða er ómetanleg í veislur
„Ég er svo heppin að Heida vinkona sem er bæði ljósmyndari og snillingur í að setja upp veisluborð kom og aðstoðaði mig. Hún tók myndir af fermingarbarninu á fimmtudag og kom svo á laugardagskvöldið heim og við vorum í nokkra klukkutíma að skreyta allt og setja upp fyrir stóra daginn. Hún aðstoðar mig við flesta viðburði sem ég er með hvort sem það er sýning fyrir Sætar Syndir, fertugsafmælið mitt eða fermingin hjá syninum. Hún á svo mikið af fallegu dóti til að gera þennan ‘WOW’-faktor á veisluborðið. Það má með sanni segja að hann hafi verið til staðar í fermingunni. Mæli með henni ef ykkur vantar aðstoð í veisluna, HÉR.
Að lokum segir Eva María okkur að Friðrik Dór hafi mætt sem óvæntur leynigestur í veisluna og sungið nokkur lög við góðar undirtektir.