Sérstöku kastljósi er þessa dagana varpað á þá grósku sem ríkir meðal smáframleiðenda á Íslandi en nú stendur yfir Matarmarkaður smáframleiðenda í Hagkaup.
Að sögn Oddnýjar Önnu Björnsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka smáframleiðenda á Íslandi er mikil gróska meðal smáframleiðenda hér á landi og flóran afar fjölbreytt.
„Félagsmenn í Samtökum smáframleiðenda matvæla / Beint frá býli eru í dag vel á þriðja hundrað og fjölgar jafnt og þétt. Ríflega helmingur þeirra er á lögbýlum, fjórðungur á höfuðborgarsvæðinu og um 20% (fimmtungur) í bæjarfélögum hringinn í kringum landið,“ segir Oddný Anna en frumkvöðlastarf smáframleiðenda er grunnstoð flestrar nýsköpunar í matvælageiranum og því mikilvægt að hlúa að smáframleiðendum.
„Vöruúrvalið eins fjölbreytt og framleiðendurnir eru margir. Eins og ég hef margoft sagt þá lít ég svo á að matarfrumkvöðlar séu rokkstjörnur samtímans,“ segir Oddný Anna sem segir að áhugi á framleiðslu smáframleiðenda sé sífellt að aukast, bæði frá neytendum og söluaðilum.
„Stærri verslanir tilbúnari til að að gefa þeim pláss og það eru sífellt fleiri sem sérhæfa sig í vörum smáframleiðenda. Eins er auðveldara að ná beint til neytenda í gegnum eigin miðla framleiðenda. Matarfrumkvöðlar eru nauðsynlegir til að auka fjölbreytni innlendrar framleiðslu og stuðla að auknu fæðuöryggi. Vöxturinn fjölgar atvinnutækifærum, ekki síst á landsbyggðinni og stuðlar því að jákvæðri byggðaþróun og matarmenningu. Matarferðaþjónusta fer ört vaxandi sem tengist þeirri þróun að neytendur og ferðamenn vilji í ríkari mæli upplifa landið í gegnum mat og matarupplifun,“ segir Oddný Anna en bendir á að betur megi ef duga skal enda standi matarfrumkvöðlar og smáframleiðendum einnig frammi fyrir miklum hindrunum sem felist ekki síst í háum kostnaði og flóknu regluverki. „Það felst mikill kostnaður í því að vera lítill.“