HönnunarMars fyrir matgæðinga

HönnunarMars er á næsta leiti og það er nóg um …
HönnunarMars er á næsta leiti og það er nóg um að vera fyrir matgæðinga. Sunna Ben fyrir Pítsustund með Fléttu og Ýrúarí

Hefur þú sérstakan áhuga á matargerð, óvenjulegum hráefnum og óvæntum uppskriftum? Ertu að leita að heitustu pítsunni, nýstárlegasta bjórnum eða sjaldgæfasta sveppnum? Hér að neðan eru nokkrir viðburðir sem gætu fallið fullkomlega að þínu smekk.

HönnunarMars er rétt handan við hornið en hátíðin fer fram dagana 3. til 7. maí nk. og breiðir úr sér um alla borg. Rúmlega 100 sýningar og 120 viðburðir eru á dagskrá í ár og því ættu öll að finna eitthvað við sitt hæfi. Dagskrána má finna í heild sinni HÉR

PÁSA
Pásum lífið, pásum sjálfið, pásum hraðann. Höfuðstöðvum Lady Brewery verður breytt í upplifunarbar fyrir HönnunarMarsbjórinn 2023. Náttúruleg undarlegheit og stórkostleg sirkusdýr! Komdu í pásu.
Sérstök upplifunar-pásu-bars-búninga-partý-pása fer fram laugardaginn 6. maí frá kl. 20:00 - 00:00.


Pítsustund með Fléttu og Ýrúarí
Flétta og Ýrúrarí opna pítsustað í Gallerí Port á meðan HönnunarMars stendur yfir þar sem boðið verður upp á þæfðar pítsur úr ullarafgöngum frá íslenskum ullariðnaði. Sviðsmynd viðburðarins byggist í kringum nálaþæfingarvél sem sett er í hlutverk pítsuofns en hönnuðurnir bregða sér í hlutverk bakara og afgreiðslufólks.


Uppspretta
Uppspretta er samvinnuverkefni Bjarna Sigurðsson og Áslaugar Snorradóttur í Vest. Sýningin samanstendur af grófum og mjúkum handgerðum kökudiskum og skálum á fæti úr smiðju Bjarna, sem Áslaug veitir líf á einstakan máta. Veisluáhugafólk ætti ekki að láta opnunarhóf sýningarinnar fram hjá sér fara en það verður haldið fimmtudaginn 4. maí frá kl. 16 - 19.


Varðveisla hjá Sónó
Vantar þig hið fullkomna ílát undir súrdeigsmóður þína? Varðveisla er vörulína með ílátum úr steinleir sem auðvelda matargerð með náttúrulegum aðferðum þar sem örverur eru við stjórn. Sýningin fer fram á veitingastaðnum Sónó í Norræna húsinu.


Sveppurinn fer í gang
Þér er boðið að skyggnast inn í hugarheim villisveppaveiðamannsins. Verkefnið endurspeglar lífstíl villisveppaveiðimannsins með fagurfræði íslenskra villisveppa í fyrirrúmi. Hver hlutur uppfyllir þörf villisveppaveiðimannsins til að lifa í hugarheimi sínum utan vertíðar. Sýningin fer fram í Gróðurhúsinu á Lækjartorgi.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka