Þetta verður nýárseftirrétturinn hans Finns

Bakarinn knái ætlar að bjóða upp á dýrðlegan eftirrétt þegar …
Bakarinn knái ætlar að bjóða upp á dýrðlegan eftirrétt þegar nýja árinu er fagnað. Rétturinn ber enska heitið „Baked Alaska“ og er í raun eins og eldur og ís. mbl.is/Eyþór

Finnur Prigge bakari ætlar að bjóða upp á þennan himneska eftirrétt um áramótin eða á nýársdag og mun án efa bera hann fram með stjörnuljósum. Rétturinn ber enska heitið „Baked Alaska“ sem er viðeigandi á þessum tímamótum. Eldur og ís í forgrunni.

Þessi eftirréttur er guðdómlega fallegur.
Þessi eftirréttur er guðdómlega fallegur. Ljósmynd/Finnur Prigge

Finnur er meðlimur í landsliði íslenskra bakara og er einstaklega hæfileikaríkur bakari. Hann hefur verið iðinn við að þróa sínar eigin uppskriftir og deila með lesendum á árinu sem er að líða. Sjáið handbragðið hér fyrir neðan:

@finnur_prigge Áramóta eftirétturinn í ár er “baked alaska”#🎆 #fyrirþig #forupage #newyear #fyp #iceland #islenskt ♬ New Year - Kidmada
Það er eins og halastjarnan sé mætt á diskinn.
Það er eins og halastjarnan sé mætt á diskinn. Ljósmynd/Finnur Prigge

„Baked Alaska“

Hindberjagel

  • 450 g frosin hindber
  • 100 g sykur
  • 3 blöð matarlím

Aðferð:

  1. Þíðið hindberin.
  2. Leggið matarlímið í ískalt vatn og setjið til hliðar.
  3. Setjið hindberin og sykur í pott og hitið að suðu.
  4. Kreistið matarlím í skál, sigtið hindberjablönduna og blandið saman.
  5. Setjið í kæli í að minnsta kosti 4 klukkustundir.
  6. Setjið í blandara eða notið töfrasprota til að mýkja upp gelið.

Möndlu-svampbotnar

  • 4 egg
  • 150 g sykur
  • 120 g hveiti
  • 15 g lyftiduft
  • 15 g kakó
  • 40 g hakkaðar möndlur

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 220°C og stillið á blástur.
  2. Þeytið egg og sykur þar til létt og ljóst.
  3. Hrærið þurrefnin saman í skál og blandið varlega við eggjablönduna.
  4. Smyrjið deiginu varlega á smjörpappír.
  5. Bakið í 8-12 mínútur (best að pota í botninn og sjá hvort hann komi upp til baka).

Einfaldasti vanilluísinn

  • 500 ml rjómi
  • 1 dós niðursoðin mjólk, ( 400 g)
  • Vanillu-paste eftir smekk

Aðferð:

  1. Léttþeytið rjómann.
  2. Blandið vanilluni og niðursoðnu mjólkinni saman við rjómann í nokkrum hlutum og þeytið.

Ítalskur marens

  • 180 g sykur
  • 60 g vatn
  • 3 eggjahvítur

Aðferð:

  1. Setjið sykur og vatn í pott og á hellu.
  2. Þegar suðan kemur upp setjið þið eggjahvíturnar í hrærivél og þeytið.
  3. Þegar eggjahvíturnar eru orðnar aðeins stífari en raksápa hellið þið sykurvatninu sjóðandi heitu út í í mjórri bunu, á miðlungshraða.
  4. Þeytið þar til hrærivélarskálin er ekki lengur heit.

Samsetning:

  1. Setjið matarfilmu í litlar skálar svo auðveldara sé að losa ísinn úr.
  2. Sprautið ísblöndunni í 2/3 af skálinni.
  3. Sprautið hindberjageli eftir smekk.
  4. Skerið út hringi í svampbotninn og þrýstið þeim ofan í ísinn.
  5. Frystið yfir nótt.
  6. Gerið ítalskan marens.
  7. Takið ísinn úr skálunum með því að hvolfa honum á disk.
  8. Sprautið eða smyrjið ítalska marengnum utan á og brennið með öflugum kveikjara eða gasbrennara.
  9. Skreytið diskinn með hindberjagelinu.
  10. Geymið við stofuhita í 10 mínútur áður en þið berið fram.
  11. Njótið vel og berið jafnvel fram með stjörnuljósi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert