Þessar sörur eru sagðar í algjörum sérflokki og við efumst ekki um það eina mínútu. Það er löngu þekkt að lakkrís gerir allt betra – þá sérstaklega bakstur.
Þessi uppskrift kemur frá Lindu Ben og á heima í nýjasta kökubæklingi Nóa Síríusar.
Linda klikkar ekki fremur en fyrri daginn og við lofum að þið verðið ekki fyrir vonbrigðum með þessar sörur.
Eitt Sett Sörur
Krem
- 3 eggjarauður
- 100 g vatn
- 100 g sykur
- 300 g Eitt Sett rjómasúkkulaði
- 100 g mjúkt smjör
Botnar
- 3 eggjahvítur
- 1/3 tsk. salt
- 1/3 tsk. cream of tartar
- 50 g sykur
- 200 g flórsykur
- 200 g möndlumjöl
Hjúpur
- 400 g 56% Síríus barón súkkulaði
Aðferð:
- Byrjið á því að útbúa kremið.
Þeytið eggjarauður í hrærivél þar til blandan er orðin létt og ljós. Hitið vatn og sykur í potti í um 3 mínútur eða þar til sykurinn hefur náð að leysast upp í vatninu. Hellið sykurvatninu saman við eggjarauðurnar í mjórri bunu og hrærið rólega á meðan. Þeytið þar til blandan er loftmikil og nánast hvít að lit.
- Bræðið Eitt Sett súkkulaðið. Hellið því næst súkkulaðibráðinni saman við eggjablönduna í mjórri bunu og hrærið rólega á meðan. Stoppið reglulega og skafið hliðar skálarinnar með sleikju svo allt blandist vel saman. Skerið mjúka smjörið í litla bita og þeytið það saman við.
- Geymið kremið inni í ísskáp í um klukkutíma eða á meðan verið er að útbúa botnana.
- Kveikið á ofninum og stillið á 175°C með yfir- og undirhita.
- Setjið eggjahvítur í skál ásamt salti og cream of tartar, þeytið þar til blandan freyðir og bætið þá sykrinum út í. Þeytið þar til stífir toppar myndast.
- Blandið saman flórsykri og möndlumjöli. Bætið út í eggjahvítublönduna og veltið varlega saman við með sleikju þar til samlagað.
- Hellið deiginu ofan í sprautupoka með hringlaga stút.
- Sprautið á smjörpappírsklæddar ofnplötur þannig að hver kaka sé u.þ.b. 4 cm í þvermál, passið að hafa u.þ.b. 2-3 cm bil á milli þeirra svo að þær klessist ekki saman í ofninum.
- Bakið í u.þ.b. 12 mín. Leyfið kökunum að kólna.
- Smyrjið kremi á hverja köku svo það sé kúpt í miðjunni en þynnist út að köntunum.
- Kælið kökurnar í stutta stund.
- Bræðið loks súkkulaði yfir vatnsbaði og hjúpið hverja köku með því að dýfa kreminu ofan í súkkulaðið. Leggið kökurnar á grind á meðan súkkulaðið storknar.