Trylltar tartalettur á jólaborðið

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Hver elskar ekki góða tartalettu? Hér er á ferðinni uppskrift úr smiðju Berglindar Hreiðarsdóttur á Gotteri.is sem hún fékk frá Þórunni vinkonu sinni. Við erum að tala um eins sparilegar tartalettur og þær gerast; með niðursoðnum aspas og þeyttu majónesi.

Svona dýrð verður seint toppuð enda vitum við öll að góð tartaletta er nauðsynleg á vel útfært jólaborð.

Humartartalettur með þeyttri kokteilsósu

20 stykki

Tartalettur uppskrift

  • 20 stk. tartalettuform
  • aspas í dós (um 400 g)
  • um 700 g skelflettur humar
  • 2 hvítlauksrif
  • 2 msk. steinselja
  • 70 g smjör
  • salt, pipar og hvítlauksduft

Aðferð:

  1. Affrystið, skolið og þerrið humarinn.
  2. Hitið ofninn í 200°C.
  3. Steikið humarinn upp úr smjöri, hvítlauk, steinselju og kryddið eftir smekk. Steikið hann við meðalháan hita í skamma stund því hann mun klára eldun í ofninum.
  4. Hrærið humri og aspas saman í skál og skiptið niður í tartalettuformin.
  5. Bakið í ofni í um 8 mínútur og útbúið kokteilsósuna á meðan.

Þeytt kokteilsósa

  • 250 g Hellmann's-majónes
  • 3 msk. tómatsósa
  • 1 msk. sætt sinnep
  • 2 msk. HP sósa
  • 250 ml þeyttur rjómi

Aðferð:

  1. Pískið allt nema þeytta rjómann saman í skál þar til vel blandað.
  2. Blandið þá þeytta rjómanum varlega saman við með sleikju.
  3. Setjið væna matskeið af kokteilsósu yfir hverja tartalettu og toppið með smá steinselju og pipar.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert