Hver elskar ekki góða tartalettu? Hér er á ferðinni uppskrift úr smiðju Berglindar Hreiðarsdóttur á Gotteri.is sem hún fékk frá Þórunni vinkonu sinni. Við erum að tala um eins sparilegar tartalettur og þær gerast; með niðursoðnum aspas og þeyttu majónesi.
Svona dýrð verður seint toppuð enda vitum við öll að góð tartaletta er nauðsynleg á vel útfært jólaborð.
Humartartalettur með þeyttri kokteilsósu
20 stykki
Tartalettur uppskrift
- 20 stk. tartalettuform
- aspas í dós (um 400 g)
- um 700 g skelflettur humar
- 2 hvítlauksrif
- 2 msk. steinselja
- 70 g smjör
- salt, pipar og hvítlauksduft
Aðferð:
- Affrystið, skolið og þerrið humarinn.
- Hitið ofninn í 200°C.
- Steikið humarinn upp úr smjöri, hvítlauk, steinselju og kryddið eftir smekk. Steikið hann við meðalháan hita í skamma stund því hann mun klára eldun í ofninum.
- Hrærið humri og aspas saman í skál og skiptið niður í tartalettuformin.
- Bakið í ofni í um 8 mínútur og útbúið kokteilsósuna á meðan.
Þeytt kokteilsósa
- 250 g Hellmann's-majónes
- 3 msk. tómatsósa
- 1 msk. sætt sinnep
- 2 msk. HP sósa
- 250 ml þeyttur rjómi
Aðferð:
- Pískið allt nema þeytta rjómann saman í skál þar til vel blandað.
- Blandið þá þeytta rjómanum varlega saman við með sleikju.
- Setjið væna matskeið af kokteilsósu yfir hverja tartalettu og toppið með smá steinselju og pipar.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir