Halldóra Sif Guðlaugsdóttir tískhönnuður býr ásamt eiginmanni sínum, Kristini Péturssyni og börnum þeirra þremur í fallegu raðhúsi í Mosfellsbæ. Þau féllu fyrir húsinu sem var tilbúið til innréttinga. Hún er eigandi tískuhússins Sif Benedicta en það stofnaði hún eftir að hafa lært fatahönnun í Listaháskóla Íslands og unnið fyrir fræg tískuhús eins og Alexander McQueen.
„Ég féll fyrir útsýninu,“ segir Halldóra Sif en þegar þau skoðuðu húsið var mikið af börnum úti að leika. Hún gekk með þeirra þriðja barn og fannst þetta heillandi.
Þegar hún er spurð að því hvort þau hjónin hafi verið sammála um hvernig heimilið ætti að líta út játar hún að hennar skoðanir hafi verið ríkjandi. Hún segir að það sé ekki ólíkt að hanna heimili og að hanna fatalínu. Og því gerði hún moodboard svo að heimilið yrði sem skemmtilegast.
Halldóra Sif og Kristinn létu stækka eldhúsið svo þau kæmu fyrir stórri eyju. Á eyjunni er fallegur steinn sem gefur eldhúsinu höfðinglegt yfirbragð. Eldhúsið er opið inn í stofu. Þar er borðstofuborð við eldhúsið og svo stofa og sjónvarpsstofa fyrir innan.
„Ég nenni ekki að eiga hluti sem hafa ekki tilgang,“ segir Halldóra Sif og bendir á garðbekkinn sem nú er við borðstofuborðið. Hann er geymdur inni á veturna en fær að vera í garðinum á sumrin.
Húsgögnin koma úr ýmsum áttum. Þar er til dæmis tekkborð sem þau keyptu í Góða hirðinum þegar þau byrjuðu að búa og stólar sem merktir eru hjúkrunarheimilinu Grund. Þeir voru keyptir í Góða hirðinum á sínum tíma. Við þetta blandast heimsfræg hönnun, kristalsmunir úr Snúrunni og fleira fallegt sem gerir heimilið heillandi.