Sameinuðu þjóðirnar tilnefndu 22. apríl formlega sem alþjóðlegan DAG JARÐAR árið 1990, en hreyfing í Bandaríkjunum hafði þá þegar staðið fyrir DEGI JARÐAR þann mánaðardag frá árinu 1970. Í fjörutíu og átta ár hefur fólk því í litlum eða stórum hópum með ýmsum átökum vakið athygli á því að eitthvað þurfi að gera fyrir Jörðina til að mannlíf og dýralíf geti þrifist þar áfram. Hið alþjóðlega átak þetta árið er að draga úr plastmengun.
PLASTMENGUN
Meginmarkmið samtakanna Earth Day Network nú er að breyta viðhorfi fólks og hegðun gangvart plastnotkun og stuðla að marktækri minnkun á mengun frá plasti. Áætlun samtakanna um að enda plastmengun byggist á eftirfarandi:
Earth Day Network stuðlar að þessari vinnu í kringum Dag Jarðar 22. apríl 2018 jafnframt því sem unnið er að því að þetta markmið náist fyrir árið 2020, þegar fagnað verður 50 árum frá fyrsta Degi Jarðar. Unnið verður með áhrifavöldum að því að fræða neytendur á öllum aldri um umhverfisáhrif, loftslagsáhrif og afleiðingar þess að nota plast.
ALMENN UMHVERFISVITUND ER LENGI AÐ FÆÐAST
Sjálf hef ég undanfarin tuttugu og sjö ár unnið að því með ýmsum hætti að styrkja og efla umhverfisvitund mína og annarra og hvetja fólk til aðgerða. Ég hef gefið út tímarit, haldið ráðstefnur og sýningar, skrifað greinar og bókina Konur geta breytt heiminum, átt fyrsta umhverfisvottaða ferðaþjónustufyrirtæki á landinu og verið ein af þeim sem stóð fyrir verkefninu GRÆNN APRÍL, sem var fimm ára átaksverkefni sem ætlað var að hvetja fyrirtæki til að fræða fólk um þær umhverfisvænu vörur sem þau bjóða uppá.
Stundum finnst mér að lítið hafi áorkast með þessu brölti, en hef þó alltaf trúað því að dropinn holi steininn og að mitt persónulega framlag skipti máli. Þegar allt kemur til alls er mikilvægast að allir geri sér grein fyrir því að þeirra framlag skiptir máli, hversu lítið sem það er.
ÉG Á MÉR DRAUM
Líkt og Dr. Martin Luther King á ég mér draum. Draum um að Ísland verði fyrsta landið í heiminum þar sem öll sveitarfélög á landinu eru umhverfisvottuð. Þessi draumur fæddist þegar sveitarfélögin á Snæfellsnesi og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull urðu fyrstu umhverfisvottuðu sveitarfélög hér á landi, sem og á norðurhveli Jarðar, árið 2008. Sú breyting sem varð á umhverfisvitund íbúa og stefnu bæjarstjórna á Snæfellsnesi eftir vottun, er lýsandi dæmi um það hversu mikil fyrirmynd Ísland gæti orðið heiminum ef fleiri sveitarfélög fylgdu fordæmi þeirra.
Í framhaldi af vottun umhverfisvottunarsamtakanna EarthCheck á Snæfellsnesi, varði ég miklu af mínum eigin tíma í að funda með forsvarsmönnum annarra sveitarfélaga og hvetja þau til að gera slíkt hið sama. Ég sá fyrir mér að landið allt gæti orðið fyrsta land í heiminum þar sem öll sveitarfélög landsins væru umhverfisvottuð.
Ég talaði hins vegar fyrir daufum eyrum þeirra sem ég ræddi við, jafnvel í Reykjavík, sem enn á tækifæri á að verða fyrsta umhverfisvottaða höfuðborg í heimi. Flestir settu fyrir sig hlægilega lítinn kostnað og sáu ekki ávinninginn sem honum myndi fylgja.
NÚNA gæti verið góður tími til að skipta um skoðun.
Til hamingju með DAG JARÐAR 2018.
MYND: Can Stock Photo/Alexmillos
www.gudrunbergmann.is