Rússneskt rannsóknarskip í Norður-Íshafi |
Ís kann því að hverfa á sumrin af stórum hafsvæðum í Norður-Íshafinu innan nokkurra áratuga. Hann gæti minnkað um allt frá 15% hið minnsta upp í 40% árið 2050 og ísinn þynnst um 30% að meðaltali á tímabilinu. Eftir sem áður mun þó leggja þar ís á vetrum, en ísinn verður þó væntanlega ekki þykkari en svo að ísstyrkt skip geti siglt í gegnum hann.
Ný siglingaleið um Norður-Íshafið (Smellið til að skoða stærra kort) |
Umfangsmiklar rannsóknir og nýting náttúruauðlinda á norðurskautssvæðinu munu aukast á næstu árum og aðrar atvinnugreinar, t.d. vinnsla jarðefna, fiskveiðar og ferðaþjónusta, munu auka umsvif sín á siglingaleiðum um Norður-Íshafið.
Það er tvennt sem kemur til. Annars vegar ný tækni sem gerir skipum kleift að sigla í gegnum ís, hins vegar bráðnun íss. Umferð eftir norðursiglingaleiðinni austanverðri gæti fylgt í kjölfarið og næsta kynslóð vöruflytjenda gæti litið til Norður-Íshafsins fyrir árstíðabundnar sjóferðir yfir norðurheimskautið.
Umskipunarhafnir nýr atvinnuvegur á Íslandi
Miðlægar umskipunarhafnir gegna vaxandi hlutverki í flutningakerfi samtímans og eru nálægð við siglingaleiðir og góð hafnarstæði mikilvæg skilyrði fyrir þeim. Lega Íslands á norðanverðu Norður-Atlantshafi, miðsvæðis milli Norður-Evrópu og austurstrandar Norður-Ameríku, hentar vel fyrir slíka höfn.
Staðir líkt og Eyjafjörður, Hvalfjörður og Austfirðir hafa verið nefndir sem mögulegar umskipunarhafnir. Slík starfsemi er atvinnuskapandi ef vel tekst til, en til þess þarf að koma höfnunum inn á kort stórra skipafélaga.
Umhverfi og öryggi Íslands
Helsta áhyggjuefni Íslendinga vegna siglinga eftir norðausturleiðinni tengist bráðamengun vegna sjóslysa frekar en reglulegri skipaumferð. Meta þarf slysahættu og undirbúa viðbrögð gegn henni. Aftur á móti dregur stytting leiðarinnar milli Evrópu og Asíu úr eldsneytisbrennslu og útstreymi gróðurhúsaloftegunda.
Þá hefur opnun nýrra siglingaleiða á norðurslóðum það í för með sér að huga verður að aðstæðum sem kynnu að skapast á sviði öryggis- og varnarmála. Leiða má að því líkur að nýjar siglingaleiðir við Íslandsstrendur krefjist aukinnar viðveru, meiri framfylgdar, umhverfisvöktunar og aukins samstarfs ríkjanna við Norðurskautið.