Þegar ísinn í Norður-Íshafi tekur að bráðna hluta úr ári og íshellan þynnist reynir á réttindi til fiskveiða. Samkvæmt hafréttarsamningnum gilda mismunandi reglur um fiskveiðar á ólíkum hafsvæðum. Strandríki hefur einkarétt til fiskveiða í 200 mílna efnahagslögsögu sinni. Á úthöfunum gildir hins vegar meginreglan um frelsi til fiskveiða með ákveðnum takmörkunum. Þetta gildir um Norður-Íshafið eins og annars staðar og hér geta skapast sóknartækifæri fyrir fiskveiðiþjóðina Íslendinga.

Fiskigengd gæti breyst

Í kjölfar loftslagsbreytinga gætu orðið breytingar á fiskigengd og þá veitir aðild að Svalbarðasamningnum íslenskum skipum rétt til að nýta hugsanlegar jákvæðar breytingar sem verða. Enn er þó óútséð um hvernig breytingar verða, hvort þær leiði til hugsanlegs hruns fiskistofna eða fleiri nýjar tegundir komi inn.

Í rannsókn sem fór fram ágúst síðastliðinn á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar kemur fram að núverandi útbreiðsla kolmunna, síldar og þorskseiða í Íslandshafi gefi til kynna stórfellda breytingu frá því í júlí 2006, þegar þessar fisktegundir fundust alls ekki á þessum slóðum. Líklegt er að hér sé um að ræða viðbrögð þessara fiskstofna við hlýnun Íslandshafs á undanförnum árum og jafnvel áratugum.

< Fyrri síða   |   Upphafssíða    |   Næsta síða >