Frá Nýja Álasundi |
Lögsaga Svalbarða er 200 mílur nema þar sem fjarlægðin gagnvart Noregi, Rússlandi og Grænlandi leyfir það ekki. Hið sama á við um landgrunn Svalbarða en það nær þó lengra en 200 mílur til norðurs.
Með samningnum átti að tryggja rétt annarra ríkja til auðlindanýtingar. Þrátt fyrir það lýsti Noregur árið 1977 yfir 200 sjómílna fiskverndarsvæði umhverfis Svalbarða með konunglegri tilskipun. Ein gjöfulustu fiskimið í Barentshafi komust þá í forsjá norska ríkisins. Mörg ríki mótmæltu, m.a. Sovétríkin og Ísland, og sögðu Norðmenn ekki geta byggt rétt sinn á eigin löggjöf heldur þyrfti hún að byggjast á Svalbarðasamningnum.
Svalbarðadeila Íslendinga og Norðmanna
Fiskveiðar
Deilan um Svalbarða hefur fyrst og fremst snúist um aðgang að fiskimiðum. Íslensk stjórnvöld líta svo á að Norðmenn hafi brotið gegn ákvæðum Svalbarðasamningsins með einhliða ákvörðunum um úthlutun kvóta, án þess að virða ákvæði samningsins og jafnræðisreglu hans.
Jonas Gåhr Støre (t.h.), utanríkisráaðherra Noregs á Svalbarða |
Árið 2004 lýsti þáverandi utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, því yfir á vorþingi Alþingis að Norðmenn hefðu engan rétt á grundvelli Svalbarðasamningsins til þess að takmarka síldveiðar á Svalbarðasvæðinu. Verulega hafði dregið úr veiðum íslenskra skipa á svæðinu og hættu útgerðir ekki á að senda skip á svæðið af ótta við að þau yrðu gerð upptæk.
Íslenska ríkisstjórnin ákvað í ágúst 2004 að hefja undirbúning málsóknar gegn Noregi fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag og vísaði þá til þess að Norðmenn hefðu ítrekað brotið gegn ákvæðum Svalbarðasamningsins og réttindum Íslendinga til veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum innan lögsögu Svalbarða. Íslensk stjórnvöld hafa síðan aflað sér ítarlegrar greinargerðar erlends sérfræðings í þessu skyni. Enn fremur hafa verið haldnir tvíhliða og marghliða samráðsfundir með fjölda aðildarríkja Svalbarðasamningsins og gert er ráð fyrir að framhald verði þar á.
Samningar náðust loks í janúar síðasliðinn milli Íslands, Noregs, Rússlands, Færeyja og Evrópusambandsins um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á þessu ári.
Landgrunnið
Að því er varðar landgrunnið umhverfis Svalbarða líta íslensk stjórnvöld svo á að það tilheyri Svalbarða og ekki meginlandi Noregs eins og norsk stjórnvöld hafa haldið fram. Nýting olíu, gass og annarra hugsanlegra auðlinda landgrunnsins umhverfis Svalbarða sé því háð ákvæðum Svalbarðasamningsins og jafnræðisreglu hans.