Hver var Rafiq Hariri?

Rafiq Hariri.
 AP
Mikil umskipti urðu í líbönskum stjórnmálum eftir að Rafiq Hariri, forsætisráðherra landsins var myrtur í sprengjutilræði þann 14. febrúar árið 2005 en í kjölfar þess unnu andstæðingar sýrlenskra áhrifa meirihluta þingsæta.

Rafiq Hariri var einn áhrifamesti stjórnmálamaður Líbanons frá lokum borgarastyrjaldarinnar og þar til hann var ráðinn af dögum. Á þessum tíma leiddi hann fimm ríkisstjórnir og fór fyrir uppbyggingu Líbanons.

Hariri, sem var súnní-múslími, fæddist í Sidon í Líbanon árið 1944. Hann nam viðskiptafræði í Arabíska háskólanum Beirút og flutti til Sádi-Arabíu árið 1965 þar sem hann byggði upp vel stætt fyrirtæki. Á þessum tíma þjónaði hann einnig sem samningamaður í deilum stríðandi fylkinga í Líbanon og árið 1989 átti hann stóran þátt í því að koma á Taef samningnum sem markaði endalok borgarastyrjaldarinnar.

Árið 1992 flutti Hariri aftur til Líbanon til að taka þar við embætti forsætisráðherra. Í forsætisráðherratíð sinni lagði hann mikla áherslu á að stuðla að sáttum ólíkra trúarhópa í landinu. Þá var hann í nánu samstarfi við yfirvöld í Sýrlandi og árið 2001 neitaði hann kröfu Bandaríkjastjórnarum að framselja liðsmenn Hizbollah samtakanna. Sagði hann samtökin vera framvarðarsveit Líbana gegn yfirgangi Ísraela.

Árið 2004 lagðist hann gegn fyrirætlunum sýrlenskra yfirvalda um að framlengja kjörtímabil Lahoud forseta og í kjölfarið sagði hann af sér. Nokkrum mánuðum síðar var hann myrtur.

Til baka á upphafssíðu | << Fyrri