Líbanon var hluti af Ottoman heimsveldinu í rúmlega 400 ár en í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar varð það hluti af verndarsvæði Frakklands í Sýrlandi. Árið 1920 skiptu Frakkar svæðinu niður í minni svæði eftir þjóðflokkum og trúarbrögðum og var Líbanon þá skilið frá Sýrlandi. Árið 1926 stofnuðu Frakkar síðan lýðveldið Líbanon sem var sjálfstætt frá Sýrlandi en undir franskri yfirstjórn fram til ársins 1943 er bæði Sýrlendingar og Líbanar fengu sjálfstæði.
Fram til ársins 1975 var mikil velmegun í Líbanon og var landið gjarnan kallað Perla eða Sviss Miðausturlanda, vegna þeirrar hagsældar sem þar ríkti. Þá var höfuðborgin Beirút kölluð París Miðausturlanda enda var hún miðstöð viðskipta og ferðamannaiðnaðar í heimshlutanum.