Stjórnskipan

Fuad Saniora, forsætisráðherra Líbanons, situr undir mynd af Emile Lahoud forseta landsins.
 AP
Er Lýðveldið Líbanon var stofnað voru kristnir menn í meirihluta í landinu en þó voru múslímar og drúsar í meirihluta í ákveðnum hlutum landsins. Síðan hefur hlutfall kristinna manna lækkað m.a. vegna brottflutnings kristinna og hærri fæðingartíðni meðal múslíma. Við stofnun lýðveldisins gerðu forseti og forsætisráðherra landsins með sér samkomulag sem ætlað var að tryggja valdajafnvægið í landinu. Hétu kristnir menn því m.a. að sætta sig við arabískt yfirbragð landsins og að leita ekki stuðnings Frakka kæmi til í valdabaráttu. Múslímar hétu því hins vegar að virða sjálfstæði landsins og landamæri og að leita ekki eftir sameiningu við Sýrland.

Þá var ákveðið að kristinn maður skyldi ætíð sitja á forsetastóli en múslími fara með embætti forsætisráðherra. Síðar var ákveðið að forsætisráðherrann skyldi vera súnní-múslími og forseti þingsins skyldi vera sjíti.

Til stóð að samkomulag yrði tímabundið en það festist í sessi og var sett inn í stjórnarskrá landsins árið 1990. Samkvæmt samkomulaginu var þingsætum einnig úthlutað á grundvelli landsvæða og trúarbragða. Fram til ársins 1990 sátu sex kristnir þingmenn á þinginu fyrir hverja fimm múslíma og var það byggt á manntali frá árinu 1932. Með Taif samkomulaginu var þessum hlutföllunum hins vegar breytt og skal nú helmingur þingmanna vera kristinn og helmingur múslímar. Þá er kveðið á um það í stjórnarskránni að kristnir menn, súnnítar og sjítar eigi allir að eiga fulltrúa í ríkisstjórn landsins. Var það byggt á hlutföllum íbúa samkvæmt manntali frá árinu 1932.

Til baka á upphafssíðu | << Fyrri | Næsta >>