Taka á móti köttum og hundum frá Úkraínu

Eftir komu dýranna fer fram ítarleg læknisskoðun innan þriggja daga, …
Eftir komu dýranna fer fram ítarleg læknisskoðun innan þriggja daga, sýnatökur og bólusetningar eins og kveðið er á um í reglugerð. AFP

Tekið verður á móti tveimur hundum á nýrri einangrunarstöð Matvælastofnunar í dag og eru þeir fyrstu gæludýrin í eigu flóttafólks frá Úkraínu sem tekið er á móti. Von er á fleiri dýrum á komandi vikum.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, veitti undanþágu í mars til að flóttafólk frá Úkraínu gæti tekið á móti gæludýrum sínum að lokinni nauðsynlegri einangrun, bólusetningum og meðhöndlun, að því er fram kemur á vef matvælaráðuneytisins. 

Þar segir einnig, að eftir breytingar uppfylli einangrunarstöðin nú nauðsynleg skilyrði og geti tekið á móti fjórum köttum og 22 hundum. Þegar er búið að gefa út innflutningsleyfi og munu flest dýranna þurfa a.m.k. þriggja mánaða einangrun.

Eftir komu dýranna fer fram ítarleg læknisskoðun innan þriggja daga, sýnatökur og bólusetningar, eins og kveðið er á um í reglugerð.

Auk þess að sinna fóðrun, þrifum, smitvörnum og eftirliti með heilsufari er mikil áhersla lögð á að starfsfólk stöðvarinnar verji tíma með hverju dýri, segir ennfremur. 

„Það er ánægjulegt að gæludýraeigendur frá Úkraínu geti nú átt endurfundi við dýrin sín eftir þær miklu raunir sem bæði menn og dýr hafa þurft að þola,“ er haft eftir Svandísi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert