Heimasíða Everst |
Aðeins sá hæsti eftir
SKEIN yfir landi sól á sumarvegi / og silfurbláan Eyjafjallatind / gullrauðum loga glæsti seint á degi." Eins og skáldið láta flestir sér nægja að líta fagran jökulinn úr fjarlægð. En til eru þeir sem sjá ögrun í hverjum tindi og vilja sigra hann, vilja klífa þar upp, finna afrekið í lúnum vöðvum og sjá vítt til allra átta. Og þegar einn er sigraður verður að vinna þann næsta og þann næsta, uns aðeins sá hæsti er eftir. Mörgum er það hulin ráðgáta hvað rekur þessa menn áfram. Félagarnir þrír úr Hjálparsveit skáta í Reykjavík og Kópavogi sem ætla að klífa Everesttind í vor segja að þeir sjálfir hafi ekki fundið svarið við þessari spurningu og því haldi þeir áfram að fara á fjöll. "En auðvitað er það líka metnaðurinn sem rekur okkur áfram," segir Einar, "það er okkur mikil áskorun að verða fyrstir Íslendinga til að fara á hæsta fjall jarðar."
Everest er 8.848 metra hátt og er nefnt eftir breska landmælingamanninum Sir George Everest (1790-1866). Fyrstir til að ná tindi fjallsins 29. maí árið 1953 voru Nýsjálendingurinn Edmund Hillary og Nepalbúinn Tenzing Norgay. Síðan hafa um 670 manns komist alla leið á toppinn en miklu fleiri þurft að játa sig sigraða fyrir honum. Á jökli Fannfergið jókst þegar komið var á jökulinn og náði upp á mið læri. Eru þetta óvenjulegar aðstæður enda miðaði okkur frekar hægt upp. Ein af hindrununum á leiðinni upp á tind Everestfjalls er hinn stórbrotni Khumbuskriðjökull sem er meira en 1.000 metra hár. Skriðjökull þessi, eða ísfall, skríður fram um einn metra á sólarhring og er því á stöðugri hreyfingu. Á þessum jökli geta leiðangursmenn átt von á að lenda í öllum hugsanlegum aðstæðum. "Við munum fara fjórar eða fimm ferðir í gegnum þennan jökul til að ferja búnað okkar í búðirnar ofar í fjallinu," segir Björn. "Khumbuísfallið breytist á hverjum degi og er því sérstaklega varasamt. Vegna stöðugs hruns í jöklinum er bannað að sofa á honum og raunar reyna menn að vera eins fljótir um hann og mögulegt er. Í fyrsta skiptið mun ferðin fram og til baka sennilega taka allan daginn, en þegar við höfum aðlagast þunna loftinu betur verðum við fljótari. Jökullinn er í 5.000 til 6.000 metra hæð."
Monsúnrigningarnar birtast sem snjóstormar þarna uppi, en þær geta hafist um miðjan maí eða um það leyti sem við ætlum okkur að verða búnir að fara á toppinn. Það getur hins vegar brostið á með úrkomu fyrr, en líkurnar til þess eru minni en ekki." Reynsla ekki síður mikilvæg en góð líkamleg
þjálfun Þegar nokkuð var liðið á daginn og bakpokinn var farinn að síga eilítið í lék mér hugur á að vita hvernig þremenningarnir hafi búið sig undir það líkamlega álag sem leiðangurinn mun kosta þá. "Það má líta á allar þær fjallaferðir sem við höfum farið í undanfarin fimmtán ár eða svo sem undirbúning fyrir þessa ferð," segir Einar. "Í þessum ferðum og í starfi okkar fyrir Hjálparsveitir skáta höfum við aflað okkur mikillar reynslu sem á eftir að nýtast okkur mjög vel á Everestfjalli. Og það er ekki síður mikilvægt að vita hvernig á að bregðast við ólíkum aðstæðum en að vera í góðu formi. Aftur á móti er líkamleg þjálfun okkar eitt af því fáa sem við getum tryggt áður en við förum. Við getum líka séð til þess að búnaðurinn verði sá besti sem fáanlegur er og við getum kynnt okkur leiðina sem við ætlum að fara og mistök sem fyrri leiðangrar hafa gert. Að öðru leyti verðum við að láta skeika að sköpuðu." "Æfingar okkar hafa verið fjölbreyttar, en fjallamennska er mikilvægur þáttur í þeim," heldur Björn áfram. "Við höfum bæði verið á fjöllum um helgar og að ganga á gönguskíðum, hlaupa, hamast á þrekstigum og lyfta lóðum fjórum, fimm sinnum í viku. Þessar æfingar miða að því að við séum í sem bestri þjálfun þegar við leggjum í hann. Við höfum farið í mjólkursýrumælingar og í rannsóknir á Reykjalundi til að sjá hver staða okkar er. Við höfum fengið ráðgjöf í sambandi við þjálfun og mataræði. Annars fer það mikið eftir því hvernig menn aðlagast þunna loftinu hvort þeim gengur vel eða illa að fara upp á fjallið. Menn sem eru í mjög góðri þjálfun þurfa ekki endilega að aðlagst því betur; sumir eru einfaldlega fljótari að aðlagast en aðrir og sumt fólk þolir þunna loftið alls ekki." Einar bendir á að reynslan kenni mönnum að þekkja takmörk sín. "Og hún hefur líka kennt manni hversu langt maður getur farið, hversu mikið maður þolir. Hún hefur kennt manni að gefast ekki upp um leið og þreyta fer að segja til sín. Þetta er spurning um að vera vanur þreytu og kunna að bregðast við henni, yfirvinna hana með viljastyrknum án þess þó að ofgera sér." Þurfa að beita sig hörðu til að borða Vistin í íshellinum var frekar blaut og köld, þótt ekki væri mikið kvartað. Frost var að vísu ekki mikið en sumir hins vegar sveittir og blautir inn að skinni og því stutt í kuldaskjálftann þegar göngunni var hætt. Strax var drifið í að bræða snjó í súpu og kaffi svo að einhver ylur héldist í kroppnum þar til lambalærið, sem var með í för, hefði grillast í skaflinum fyrir utan hellin. Vafalaust verður ekkert lambalæri með í för upp á Everest en harðfiskurinn og hákarlinn mega hins vegar ekki missa sín. "Það er meira til gamans gert að taka með eilítið af ekta íslenskum mat," segir Einar. "Að öðru leyti reynum við að borða nokkurn veginn sama mat og við gerum hér heima. Við kaupum allan mat í Bretlandi. Við verðum ekki með frostþurrkaðan mat, sem þekkist hér og er frekar orkusnauður, heldur mat sem hefur verið hannaður sérstaklega fyrir breska herinn. Mataræðið breytist þó þegar við förum að klifra í fjallinu sjálfu auk þess sem matarlystin minnkar vegna þunna loftsins, jafnvel svo að menn þurfa að beita sig hörðu til að borða eitthvað. Við munum fara að finna fyrir þessu vandamáli strax í grunnbúðunum, sem eru í 5.300 metra hæð. Við innbyrðum aðallega vökva, en þeir prótein- og orkudrykkir sem við höfum með okkur eiga að fullnægja næringar- og orkuþörf líkamans. Drykkirnir miðast við það að við brennum þeim en ekki vöðvamassa líkamans sem annars gengur mjög hratt á í svona mikilli hæð." "Besti orkugjafinn er auðvitað fita," segir Björn, "en í svona þunnu lofti getum við ekki nýtt hana, því til að brjóta hana niður þarf líkaminn mikið súrefni." Andinn verður að vera góður "Það eru til mjög dramatískar sögur um leiðangra sem hafa sundrast vegna þess að það slettist upp á vinskapinn í hópnum," segir Einar. "Við njótum þess að vera mjög meðvitaðir um þetta vandamál og vörumst það sérstaklega, auk þess sem við þekkjum hver annan mjög vel. Við þekkjum bæði verstu og bestu hliðar hver annars og vitum hvernig á að bregðast við þegar hleypur fýla eða illska í einhvern." Það er engin fýla eða illska í hópnum þegar
við leggjumst til hvílu seint að kveldi á Gígjökli.
Hlýir dúnpokarnir bræða skjálftann fljótt úr
búknum. Manni verður hugsað til þess þegar
þremenningarnir verða komnir í efstu búðirnar á
Everestfjalli í 7.950 metra hæð og reyna við
síðasta hlutann af leiðinni upp á tindinn. Í þeirri
hæð nær líkaminn lítt að hvílast þótt legið sé
fyrir, það tapast orka bara við það að draga
andann, auk þess sem líkaminn nærist illa eins og
áður sagði. Þarna geta þeir því í mesta lagi
dvalið í þrjá sólarhringa. Og aðeins verður reynt
einu sinni við síðustu 900 metrana, eftir eina tilraun
er orkan búin og snúa verður niður aftur.
Þremenningarnir eru hins vegar vongóðir um að þeir
muni standa á hæsta stað jarðar um miðjan maí. |
© 1997 Morgunblaðið