Heimasíða

Leiðangursmenn

Dagbók

Greinar

Kort af leiðinni

Útbúnaður

Fjallið

Gestabók

Bréf til
leiðangursins

Ýmsar tengingar
um Everest

Styrktaraðilar

 
Fyrsti íslenski
Everest leiðangurinn


Félagarnir þrír í Landsbjörgu, þeir Björn Ólafsson og Hallgrímur Magnússon í Hjálparsveit skáta í Reykjavík og Einar K. Stefánsson í Hjálparsveit skáta í Kópavogi, sem freista þess að klífa hæsta fjall heims, lýsa aðdraganda Everest-leiðangursins, leiðarvali og skipulagi fjallgöngunnar, búnaði sem notaður verður og erfiðleikum sem við er að etja, auk annars sem viðkemur leiðangrinum.

  Við erum stödd í fjallendinu
Tíbets í byrjun október 1995. hæðin er yfir 8000 metrar og
hvert skref er átak sem krefst einbeitingar og viljastyrks. En
hvert þungt skref færir mann
feti nær takmarkinu.

Vinstri fram fyrir hægri, hægri fram fyrir vinstri, í endalausum takti: áfram, áfram!!! Áfram dragnast þrír örþreyttir hjálparsveitarmenn norðan af Íslandi síðustu metrana á hátind Cho Oyu, sjötta hæsta fjalls heims. Það er hins vegar erfitt að lýsa tilfinningunni sem blandaðist við sigurgleðina þegar markinu var loks náð og næstum öll heimsbyggðin lá fyrir fótum þeim. Ekki voru það vonbrigði, ekki eftirvænting, en augun leituðu áfram upp. Upp til Everest sem í aðeins um 30 km fjarlægð reis tæpum 600 m hærra. Fram til þessa hafði draumurinn um Everest aðeins verið barnslegur draumur sem litlar sem engar líkur voru á að gæti nokkurn tíma ræst, en sá draumur hafði nú breyst í raunhæft verkefni. Cho Oyu leiðangurinn gekk vonum framar og styrkti leiðangursmenn í þeirri trú að þeir gætu klifið hæstu fjöll heimsins. Þrátt fyrir staðfastar yfirlýsingar um annað við heimkomuna höfðu lítil fræ skotið rótum í hugskotinu. Þau tóku að vaxa og dafna er mánuðirnir liðu. Hvort sem mönnum líkaði betur eða verr þá lá í loftinu hvert næsta markmið væri. Everest, hæsta fjall jarðar.



  Landsbjörg með í undirbúningnum
Strax lá ljóst fyrir að vinna við undirbúning yrði mikil og erfiðir þröskuldar í veginum. Mikið var því unnið þegar stjórn Landsbjargar ákvað að styðja við bak leiðangursmanna með því að aðstoða við markaðsstarf og skipulagningu fjáraflana, samskipti við tryggingafélög og gerð samninga við styrktaraðila leiðangursins o.fl. Með því móti var létt mikilli vinnu af leiðangursmönnum sem gátu þar með einbeitt sér í auknum mæli að æfingum og öðrum líkamlegum undirbúningi.

Kostnaðarsamur leiðangur
Allir þeir sem hyggjast klífa Everest frá Nepal eins og raunin er í þessum leiðangri verða að greiða leyfisgjöld til nepalskra stjórnvalda. Hver leiðangursmaður þarf að greiða á aðra milljón króna til þess eins að fá leyfi til að klífa fjallið. Engar tryggingar, þjónusta eða annað slíkt er innifalið, hvað þá heldur að boðið sé upp á endurgreiðslu ef toppnum er ekki náð. Til að tryggja að leiðangurinn fari aðeins á þau fjöll sem leyfi hefur fengist fyrir er fulltrúi stjórnvalda ávallt með í för. Hann sér einnig um að útvega þá þjónustu sem leiðangurinn þarf, flutningabíla, gistingu, jakuxa o.s.fv. Í Nepal eru lögmál markaðarins nokkuð farin að ráða þegar leiðangrar kaupa sér nauðsynlega þjónustu en í Tíbet, þar sem Kínverjar undiroka tíbesku þjóðina, rennur aðeins brot af þeim peningum, sem greiddir eru fyrir þjónustuna, til innfæddra, bróðurparturinn endar hjá stjórnvöldum í Kína.

Eins og áður segir er það margháttuð þjónusta sem kaupa þarf af innfæddum en tjöld, klifurbúnaður, súrefniskútar o.fl. er að mestu flutt með frá Bretlandi eða að heiman. Í heild er kostnaður við leiðangurinn um 2,7 milljónir á hvern leiðangursmann sem stefnir á toppinn.

Skipulag leiðangursins
Í leiðangrinum verða alls 7 evrópskir fjallamenn auk leiðangursstjórans, Jonathan Tinkers. Allir hafa áður stundað fjallamennsku í Himalaya. Tinker á að baki fjölmarga leiðangra til Himalaya og hefur verið einn atkvæðamesti breski háfjallaklifrarinn á síðastliðnum árum. Meðal annars hefur Tinker tekið þátt í fjórum Everest leiðöngrum, þar af einum að vetrarlagi og öðrum upp Norðausturhrygginn, sem er ein erfiðasta leiðin á fjallið. Honum hefur tekist að ná toppnum í tvígang.

Flogið verður til Katmandu, höfuðborgar Nepal, en landamæri Nepals og Tíbets liggja um Everestfjall. Eftir nokkurra daga vinnu við undirbúning, ráðningu burðarmanna o.fl. verður haldið til Lukla, sem er lítið þorp sunnan við Everest. Þaðan er gengið á viku til tíu dögum upp að Khumbu skriðjöklinum en við jaðar hans verða aðalbúðirnar settar upp í 5.300 metra hæð. Búnaður leiðangursins, sem er hvorki meira né minna en 10 tonn að þyngd, verður fluttur að stærstu leyti á jakuxum, en búast má við að milli 170 og 200 dýr þurfi til koma honum á leiðarenda. Eftir að komið er í aðalbúðir hefst vinna við að koma upp búðum á fjallinu, sem verða alls fimm talsins. Þegar talað er um búðir er ekki um að ræða neinar þjónustumiðstöðvar heldur eru þær eitt til tvö tjöld, ásamt matarbirgðum, sem eru sett upp með ákveðnu millibili. Það tekur um 6 vikur að koma upp öllum búðunum, þeim efstu í 8.000 m hæð.

Leiðin upp fjallið
Leiðin sem farin verður á fjallið er sú sama og Hillary og Tensing fóru þegar þeir klifu það fyrstir manna 1953. Þetta er einnig sú leið sem oftast hefur verið farin í gegnum árin. Fjallið hefur þó verið klifið frá öllum hliðum, og upp ótal leiðir. En önnur algengasta leiðin er Tíbetmegin frá, sú sem Bretar reyndu sem oftast við á millistríðsárunum.

Leiðin liggur upp hinn stórbrotna Khumbu skriðjökul sem væri reyndar réttara að nefna falljökul eða ísfall því hann er yfir 1000 metra hár og skríður fram um 1 metra á sólarhring og breytist því stöðugt. Það þarf því alltaf að vera að finna nýja leið í gegn um ísföllin sem myndast. Yfir miklar sprungur þarf að fara á leiðinni og eru þær brúaðar með löngum álstigum, sem glatast öðru hverju þegar þær opnast meira eða falla saman. Khumbu ísfallið er varasamur staður og menn reyna að vera eins fljótir þar í gegn og hægt er.

Ofan ísfallsins er komið í Vesturdal. Fremst í honum verða aðrar búðir, í um 6300 m hæð. Vesturdalur er rúmlega tveggja kílómetra langur og rís um 600 m inn í botn. Þarna er einhver stórkostlegasti fjallasalur á jörðinni. Þegar horft er inn dalinn er Nuptse á hægri hönd, 7861 m á hæð og 1500 m yfir dalbotninum. Innst í dalnum gnæfir Lhotse, þriðja hæsta fjall í heimi, 8501m. á hæð. En Gyðjan, móðir heimsins, sjálft Everest, lokar svo hringnum vinstra megin. Þetta er ægifögur ísveröld þar sem aldrei rignir, öll úrkoma er í föstu formi.

Leiðin liggur upp dalinn og síðan upp snarbrattar Lhotsehlíðar, huldar ís og snjó. Þriðju búðir eru efst í dalnum í um 6900 m hæð og fjórðu búðir í miðjum Lhotsehlíðum í um 7600 m hæð. Að lokum er komið upp í skarðið á milli Lhotse og Everest, það er eyðilegt veðravíti þar sem hvergi er skjól að finna. Sífellt rok og nístandi kuldi. Í Suðurskarði, eins og staðurinn er kallaður, eru fimmtu og efstu búðir í nær 8000 m hæð. Það er langt frá því að allar þessar búðir séu settar upp í einum áfanga. Til þess þarf margar ferðir upp fjallið. Bæði er það vegna þess að búnaðurinn er mikill og til að koma einu tjaldi upp í fimmtu búðum þarf eins konar píramída af mannskap og búnaði neðar á fjallinu en einnig vegna þess að langan tíma tekur fyrir líkamann að ná hæðaraðlögun. Nánar er vikið að þeim þætti síðar í greininni.

Úr Suðurskarði og upp á tindinn er aðeins um 800 metra hækkun. Ein Esja eða svo. En hæðin, kuldinn, rokið og súrefnisskorturinn gera klifrið á toppdaginn sjálfan að nær sólarhrings ferðalagi sem er endapunkturinn á 6 vikna vinnu og aðlögun neðar á fjallinu. Leiðin liggur eftir Suðausturhrygg, hvössum og bröttum. Rétt undir tindinum er hæsta torfæra í heimi, Hillary Step, erfiður kafli sem heitir eftir þeim sem sigraði hana fyrstur. Tindurinn sjálfur rúmar allmarga þó sjaldan hafi verið þröng á þingi þar uppi, í gegnum árin hafa einungis um 670 manns náð þessu æðsta takmarki fjallamanna.

Svo má ekki gleymast að hálf leiðin, niðurferðin er eftir og þreyttum mönnum er hollt að fara varlega, hvort sem er á Everest eða Esju.

  Sherparnir nauðsynlegir
Tíu Sherpar verða til aðstoðar á fjallinu við uppsetningu búða, flutning vista og annars búnaðar upp fjallið. Sherpar eru einn af hinum fjölmörgu þjóðflokkum sem byggja Nepal. Þeir eru fjallabúar sem búa bæði hátt og mjög afskekkt. Þeir Sherpar sem taka þátt í þessum leiðangri eru allir frá sama þorpinu, en þangað er um 2-4 daga ganga frá næsta akvegi. Þeir eru því aldir upp við það frá blautu barnsbeini að fara allra
sinna ferða fótgangandi í fjalllendi og því samkvæmt góðir eðli málsins Sumir þeirra hafa atvinnu af aðstoð við fjallgönguleiðangra og hafa þannig öðlast sérhæfingu sem tengist klifri og fjallamennsku. Allir hafa þeir farið í marga leiðangra með leiðangursstjóranum m.a. á Everest, ásamt því að vera til aðstoðar 1995 á Cho Oyu. Auk þessara tíu verða þrír ráðnir til að sjá um matseld og eldhús. Æðsti Sherpinn í hverjum fjallgönguleiðangri nefnist Shirdar og hefur með verkstjórn Sherpanna að gera. Shirdar leiðangursins heitir Babu og var líka með á Cho Oyu. Hann er einn sá allra besti og hefur komist á topp Everest 6 sinnum

Með umhverfismálin á hreinu
Á liðnum árum og áratugum hefur mikið af rusli safnast saman í búðum fjallgöngumanna á Everest sem og öðrum fjöllum í Himalaya. Sérstaklega á þetta þó við þau fjöll sem löng ganga er að. Verður því allur búnaður og allt sorp sem til fellur frá leiðangrinum flutt til baka og fargað á fullnægjandi hátt. Einnig er ætlunin að leggja okkar af mörkum við hreinsun fjallsins og verður í því skyni tekið eins mikið af eldri búnaðarleifum og rusli og kostur er.

Undirbúningur
Undirbúningur leiðangurs af þessu tagi tekur mörg misseri. Þar kemur margt til. Öflun búnaðar og leyfa, fjáraflanir, æfingar og fjallaferðir. En reynslunnar sem þarf til er ekki hægt að afla sér nema á mun lengri tíma. Einnig er þörf á því að kynna sér sérstaklega þær hættur sem að geta steðjað í mikilli hæð.

Með reynsluna að vopni
Háfjallamennska gerir miklar kröfur til manna, jafnt líkamlegar sem andlegar og oft hefur sannast að reynslan er besta vegarnestið. Leiðangursmenn eru allir starfandi félagar í björgunarsveitum Landsbjargar, sem er landssamband allra Hjálparsveita skáta og Flugbjörgunarsveita í landinu.

  Í starfi með sveitunum, bæði í útköllum og æfingum hefur gegnum árin safnast upp mikil reynsla af baráttu við óblíð náttúruöfl sem birtast okkur í sinni hörðustu mynd einmitt hér heima á Íslandi.

Má með nokkrum sanni segja að þar hafi íslenskir fjallamenn nokkuð fram yfir félaga sína erlendis, þar sem veður eru oft mun mildari. Til viðbótar ótölulegum fjölda fjalla og tinda á Íslandi hafa leiðangursmenn klifið fjölda fjalla erlendis á síðustu 10 árum, þ.á m. Mt. Blanc (4800 m), Matterhorn (4400 m) og fleiri fjöll í Ölpunum, Mt. McKinley (6200 m) í Alaska, Pik Lenin (7200 m) og Pik Korchenevskaya (7200 m) í Pamir fjöllunum í Tatsikistan og loks Cho Oyu (8200 m) í Tíbet. Þessi reynsla er ómetanleg og algjör forsenda þess að menn treysti sér til að ráðast í þetta verkefni.

Góður búnaður mikilvægur

  Þegar mikið er lagt undir eins og í þessum leiðangri, er lögð áhersla á að nota aðeins besta fáanlega búnað og eins léttan og mögulegt er. Reyndar er það svo, að stór hluti búnaðarins er almennur búnaður til fjallaferða sem er lítið frábrugðinn þeim sem þarf til að takast á við íslenskt veðurfar í versta ham.

Þó er hluti hans mjög sérhæfður og aðeins notaður í háfjallamennsku og í miklum kulda. Mætti þar nefna séreinangraða skó, sérhannaða dúnsvefnpoka, dúnsamfestinga og tjöld. Ekki má heldur gleyma súrefnistækjum, sem reyndar eru sjaldan notuð á fjöllum sem eru lægri en 8.000 m Vegna þess hve mikið kuldinn eykst og loftið þynnist eftir því sem ofar dregur er erfitt að finna búnað sem hentar á öllu fjallinu. Því er það oft svo að bera þarf þann búnað sem ætlaður er fyrir toppdaginn alla leið í efstu búðir án þess að hann sé nokkurn tíma notaður neðar á fjallinu, t.d. súrefnistæki og dúnsamfestinga.

Ætlunin er að hafa gervihnattasíma, fartölvu og mótald með í för sem mun gera leiðangursmönnum kleift að senda heim texta sem mun með reglulegu millibili birtast í Morgunblaðinu. Myndbandsvélarnar eru af nýjustu gerð og stafrænar þannig að unnt verður með aðstoð tölvutækninnar að senda myndefni frá aðalbúðunum gegnum gervihnattasímann. Fjallgöngumennirnir munu hafa talstöðvar þegar þeir eru á fjallinu og þannig hafa samband við félaga sína í aðalbúðum, þannig að samband við þá á ekki að rofna nema í stuttan tíma í einu og fréttir að berast jafnóðum. Þetta má bera saman við að 10 dagar liðu frá því að hátindi Cho Oyu var náð og þar til fréttirnar bárust til Íslands og þá voru nær þrjár vikur frá því að síðast heyrðist í leiðangrinum.

Þunna loftið veldur erfiðleikum
Styrkur súrefnis í andrúmsloftinu fellur hratt með aukinni hæð yfir sjávarmáli, en gróflega má reikna með því að styrkur súrefnis á toppi Everest sé um 30% af því sem hann er í Reykjavík. Vel þjálfaður maður mæðist við það eitt að draga andann. Til dæmis myndi hjarta kyrrsetumanns sem án hæðaraðlögunar væri fluttur í hægindastól sínum á topp Everest slá upp undir 200 slög á mínútu og springa, þó svo hann sæti grafkyrr í stólnum. Algengt er að hvíldarpúls fari í um og yfir 120 slög á mínútu, þrátt fyrir að rétt sé staðið að hæðaraðlögun, og öndunartíðnin allt að tvöfaldast. Það er því ljóst að klifur á hæstu fjöll heims er gríðarlegt álag á líkamann. Til að setja þessa miklu hæð í samhengi má geta þess að Everest er 8.848 m á hæð eða 29.029 fet, sem er ekki mikið undir flughæð flugvéla í millilandaflugi. Sú hæð jafngildir tífaldri hæð Esjunnar..

Hæðarveikin lúmsk
Einn fylgifiska þess að stunda háfjallaklifur er hættan á hæðarveiki. Við minni styrk súrefnis í andrúmsloftinu bregst líkaminn við með því að auka öndunartíðni og hjartslátt og fjölga rauðum blóðkornum. Fjölgun rauðra blóðkorna og vökvatap við örari öndun veldur því að blóð þykknar og blóðflæði til húðar verður lélegra, sem eykur hættu á kali. Aukin öndunartíðni leiðir einnig til þess að líkaminn tapar meiri koltvísýringi en við eðlilegar aðstæður og við það raskast sýru/basa jafnvægi líkamans. Það hefur í för með sér vökvasöfnun í frumum, eða það sem oft er kallað bjúgmyndun. Í vægustu mynd veikinnar verðum við vör við höfuðverk, en alvarlegra ástand er hin eiginlega hæðarveiki sem er lungna- eða heilabjúgur, sem hvort tveggja er banvænt. Oft hefur hæðarveikin einhvern aðdraganda og þeir sem til þekkja geta þá þekkt einkennin, sérstaklega ef um annan en þá sjálfa er að ræða. Hafi menn vissu fyrir því að hæðarveiki sé á ferðinni og jafnvel þó aðeins sé um grun að ræða, verður skilyrðislaust að koma viðkomandi niður samstundis, sé þess nokkur kostur. Til eru ýmis ráð til að bæta ástandið og er þeim hiklaust beitt samhliða niðurflutningi. Mætti þar nefna súrefnis- og lyfjagjöf eða að koma viðkomandi fyrir í léttum uppblásanlegum þrýstiklefa sem margir leiðangrar eru með.

Upp og niður
Eitt af því sem fólk sem ekki þekkir til háfjallamennsku undrast hvað mest þegar verið er að lýsa gangi leiðangra af þessu tagi, eru hinar síendurteknu ferðir upp og niður fjallið. Þarna er um hæðaraðlögun að ræða. Áreynslan á líkamann er svo mikil að jafnvel þó ekkert sé aðhafst nema að borða og sofa, þá er gengið smátt og smátt á orkubirgðirnar og viðkomandi veslast upp. Það er því ekki hægt að hækka sig jafnt og þétt upp fjallið heldur verður alltaf að fara nægilega langt niður á milli til að gefa líkamanum tækifæri til þess að hvílast eðlilega og ná upp orku fyrir næsta áfanga. Vandinn er að þekkja hve mikið má leggja á sig í hverri ferð. Því miður er ekki hægt að gefa neina einfalda almenna reglu sem menn geta farið eftir, því hæðaraðlögun er í raun lífeðlisfræðileg breyting í líkamanum og afar breytilegt er milli einstaklinga hversu hratt hún gengur fyrir sig. Hefur það ferli ekkert með líkamlegt atgervi að gera og menn geta ekki þróað með sér hæfileikann að neinu leyti. Einnig tapast hæðaraðlögun fljótt. Menn verða því að læra af reynslunni hvernig þeir aðlagast hæð og þess vegna er mikilvægt að hafa þolinmæði til þess að byrja á lágum fjöllum fyrst og hækka sig svo jafnt og þétt. Súrefnistækin eru notuð þegar komið er yfir 8000 m hæð. Þau eru fyrst og fremst til að létta undir á lokadaginn og til nota í neyðartilfellum en ekki er hægt að treysta á þau fullkomlega. Búnaðurinn er þungur og einungis er hægt að hafa með í för takmarkað magn súrefnis. Hæðaraðlögun verður því að vera eins góð og kostur er.

Toppurinn
Þó svo allur undirbúningur miðist við það að toppnum verði náð um miðjan maí, er margt sem getur komið í veg fyrir að settu marki verði náð. Veður geta verið mjög slæm og komið hefur fyrir að enginn leiðangur hafi komið manni á toppinn í heilt ár. Tölfræðin segir að aðeins 30-40% leiðangra koma einhverjum leiðangursmanna á toppinn og þá sitja samt einhverjir eftir með sárt ennið. Það er því ekki sjálfgefið að toppnum verði náð.

Engin óþarfa áhætta
Margir af vinum okkar og ættingjum hafa áhyggjur af því að verið sé að bjóða hættunni heim þegar lagt er upp í leiðangra erlendis, enda er það ekkert óeðlilegt því menn óttast jú oft það sem þeir þekkja ekki. Það er rétt að háfjallamennska er í eðli sínu ekki hættulaus og menn eru að reyna sig á mörkum þess sem líkaminn þolir. Staðreyndin er hins vegar sú að með góðum búnaði, réttu viðhorfi og mikilli reynslu er hægt að lágmarka hættuna. Stór hluti reynslunnar snýst um það að þekkja takmörk sín og sem flestar hliðar á duttlungum náttúrunnar. Smátt og smátt verða viðbrögð við óvæntum atvikum ósjálfráð og eðlislæg. Hve langt á að ganga verður hver og einn að skilgreina fyrir sig og til þess er enginn hæfari en hann sjálfur. Hæfileikinn til þess að meta aðstæður rétt og geta snúið við skiptir öllu máli. Það að snúa við er alltaf sárt, sérstaklega þegar toppurinn er nærri, en það er hlutur sem við höfum upplifað og myndum ekki hika við að endurtaka ef okkur litist svo á. Þó svo að leiðangursmenn muni gera allt hvað þeir geta til þess að ná settu marki er aðalmarkmiðið alltaf að koma heilir heim.

Leiðangursmenn
Þeir Björn Ólafsson, Hallgrímur Magnússon og Einar K. Stefánsson leggja í leiðangurinn í lok mars og gera ráð fyrir að koma aftur til landsins í byrjun júni. Áður hafa þeir félagar klifið mörg háfjöll, og m.a. náðu þeir lengst íslenskra fjallamanna þegar þeir klifu sjötta hæsta fjall jarðar, Cho Oyu, haustið 1995. Alls eru íslensku leiðangursmennirnir fimm. Auk fjallgöngumannanna verða með í för Jón Þór Víglundsson, myndatökumaður sjónvarpsins, og Hörður Magnússon, bróðir Hallgríms, en hann verður fjallgöngumönnunum og Jóni til aðstoðar.

Efst

 

© 1997 Morgunblaðið
Allur réttur áskilinn