Lúxus fyrir forréttindafólkið

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er orðlaus yfir styttingu leikskólans í Reykjavík og orðlaus yfir málflutningi borgarfulltrúa þar að lútandi. Að því sögðu hef ég i huga að hafa um það talsvert mörg orð,“ segir Hildur Ýr Ísberg, íslenskukennari við Menntaskólann í Hamrahlíð, í pistli á Facebook-síðu sinni: 

1. Skömmun.

Borgarfulltrúar hafa haft um það mörg orð að löngu plássin séu of vel nýtt. Þetta skammar það fólk sem þarf að nýta sér þessi pláss. Ég man eftir þessari skömmun frá því að ég var ung, einstæð móðir. Giftu konurnar sem ég vann með þá skildu ekkert í því að ég skyldi ekki, í minni 100% vinnu, vera með 6 tíma vistun eins og þær. Ég var einstæð, bjó úti á landi, mín einu laun borguðu allan okkar kostnað. Ég var líka skuldug og tók þá ákvörðun að losa mig hægar úr skuldafeninu til þess að geta verið með barninu. Ég marði, með herkjum, að vera með hana á leikskóla í 8,5 tíma en ekki 9 eins og ég hefði þurft, þetta var alltaf stress. Fólk er ekki að setja börnin sín í langar vistanir að gamni sínu, það þarf að gera það til að hafa í sig og á. Vitið þið hvað mun gerast þegar leikskólar stytta plássin? Ekki aukin samvera foreldra og barna. Hún er lúxus fyrir forréttindafólkið sem hefur efni á henni. Aukin barnagæsla og aukið púsl, aukið álag og aukinn kostnaður, fyrir þau sem minnst mega við því. Þau sem eiga ekki stuðningsnet, þau sem geta ekki bara látið vita í vinnunni að þau ætli að vinna aðeins minna. Þau sem hafa ekki bolmagn í að þrýsta á styttingu vinnuvikunnar. ÞAU eru í mörgum tilfellum ÞÆR.

Hildur Ýr Ísberg framhaldsskólakennari.
Hildur Ýr Ísberg framhaldsskólakennari. Ljósmynd/Aðsend

2. Starfsumhverfi leikskólakennara.

Sko. Leikskólakennarar hafa það skítt á hundlélegum launum. ENDA VAR NÁMIÐ ÞEIRRA LENGT án þess að þær fengju nokkra hækkun fyrir það. Ég gæti labbað inn á leikskóla og fengið deildarstjórastöðu þó nokkuð auðveldlega en það yrði skerðing í grunnlaunum fyrir mig, almennan framhaldsskólakennara, upp á meira en 150 þúsund kall. Og ég væri samt að fara í stjórnunarstöðu. Og mín laun eru ekki há, þau eru undir meðallaunum í landinu. Starfsumhverfi leikskólakennara myndi stórbatna ef þær fengju hærri laun. Það þarf peninga, ekki skertan vistunartíma. Það væri fjandans nær fyrir Reykjavíkurborg að berjast fyrir hækkuðum launum þessarar mikilvægu stéttar svo eitthvað af þessari menntun skili sér kannski inn á leikskólana.

3. Stytting vinnuvikunnar.

Ég hef séð borgarfulltrúa láta sér það um munn fara að við eigum ekki að nota börnin okkar sem barefli í baráttu okkar fyrir femínismanum. En annar borgarfulltrúi segir að stytting leikskólaplássa eigi að þrýsta á styttingu vinnuvikunnar. Hvort er það? Má nota þau í baráttu eða ekki? Mega kannski bara borgarfulltrúar gera það?
Ég á ekki börn á leikskólaaldri lengur. Gyðju sé lof. Ég þarf ekki að púsla og fá magasár yfir því að morgundagurinn sé ekki leystur og að kannski missi ég vinnuna af þvi að ég mæti stundum of seint af því að leikskólinn opnar ekki fyrr en korteri áður en ég á að mæta í vinnu í öðrum bæjarhluta.
Þetta heitir að byrja á vitlausum enda. Þetta heitir skammsýni og vitleysa og ég er reið. Ég hefði ekki mína menntun í dag ef ég hefði ekki getað fengið fullt leikskólapláss. Ég hefði ekki getað gert svona smávægilega hluti eins og borðað og gefið barninu mínu að borða og svona nokkurn veginn klætt okkur ef ég hefði ekki haft fullt leikskólapláss. Nógu andskoti fátækar vorum við samt. Er ekki svolítið skrítið að horfa dreymnum augum á FEMÍNISMA FOKKING FORTÍÐARINNAR? Hvað er að?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda