Ástalíf Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur gekk svo brösulega áður en hún kynntist Einari Friðrikssyni að hún ákvað að hefja leit að sálfræðingi og setja á blað allt sem hún vildi og vildi ekki hjá maka. Að sjálfsögðu fann hún þá Einar, enda er Ragnhildur Alda hugrökk, fylgin sér og mjög skemmtileg.
Hún er með B.Sc.-gráðu í sálfræði úr Háskóla Íslands og M.Sc. í þjónustustjórnun við sama skóla sem hún nýtir óspart í vinnunni í dag.
„Þetta var býsna strembinn vetur að því leyti að það var margt að gerast í borgarstjórn á sama tíma og kórónuveiran er búin að vera víða. Þessi yfirvofandi hætta á að lenda í sóttkví eða einangrun hefur gert manni erfiðara fyrir en ella við að sinna grasrótarstarfinu. Við sluppum að vísu alveg ótrúlega vel síðastliðin tvö ár þar til núna í janúar þegar allt heimilið lagðist undir ómíkron og varð að heljarinnar flensubæli í tæpan mánuð. Þetta var eins og boðhlaup hérna; fyrst fékk Einar vírusinn og fimm dögum síðar tók ég við keflinu og fimm dögum síðar slóst Vilhjálmur sonur minn í hóp smitaðra. Við fórum því varla út í tæpan mánuð!“
Ragnhildur Alda og Einar kynntust á gamlárskvöld fyrir nokkrum árum.
„Eins og flestir einhleypingar þekkja vel, þá er vart til verra kvöld til að kynnast einhverjum. Hann mætti í gamlárspartí til vinar míns í fylgd með öðrum sameiginlegum vinum okkar. Ég kynnti mig fyrir honum og svo töluðum við ekkert meira saman fyrr en við vorum bæði farin úr partíinu, en þá rekst ég aftur á hann á Ljómanum, sem var einu sinni árlegt áramótaball á Seltjarnarnesi. Þar var hann einhvern veginn alltaf mér í augsýn. Að lokum gaf ég mig á tal við hann, sem endar svo þannig að við dönsum og spjöllum allt kvöldið eins og aldagamlir vinir. Hann sagði mér seinna meir að þetta hefði verið hans leið til að reyna við mig, sem sagt að passa að vera alltaf nálægt mér, sem svínvirkar greinilega því ég hélt að ég hefði verið forsprakkinn að þessu öllu saman. Svo var óskað eftir mér í eftirpartí þannig að ég fór á barinn og keypti rútu af bjór til að taka með og fyrirskipaði nýja vini mínum „að passa bjórinn sama hvað!“ á meðan ég fyndi leigubíl. Hann passaði bjórinn það vel að enginn í eftirpartíinu komst í hann nema við tvö og svo tók hann jafnvel það sem var eftir af bjórrútunni heim úr partíinu. Þarna varð mér ljóst að þetta væri mjög áreiðanlegur maður.“
Annars hafði ástalífið gengið mjög brösulega hjá Ragnhildi Öldu áður en hún kynntist Einari að hennar sögn.
„Svo brösulega jafnvel að rétt fyrir þessi örlagaríku áramót fór ég í mikla naflaskoðun og settist niður til að gera tvennt: Í fyrsta lagi hefja leit að sálfræðingi til að ræða um orsakir og lausnir við þessu afleita gengi í makaleit. Í öðru lagi gera mjög hreinskilinn og raunsæjan lista um hvaða eiginleikar væru nauðsynlegir í fari maka miðað við reynslu úr fyrri samböndum sem og sambúðum með vinum og hvaða eiginleikar væru óviðunandi. Til að nefna eitthvað þótti mér til dæmis nauðsynlegt í fari maka að vera umhyggjusamur, fyndinn, með góð gildi, hundavinur og hreinlátur en taldi líka upp sértækari atriði eins og að finnast ég vera fyndin, vera ævintýragjarn og hafa gaman af sögulegum staðreyndum í ferðalögum, bíómyndum og þáttum og hámáhorfi almennt. Eiginleikar sem slógu menn af borðinu voru að vera sem dæmi öfundsjúkur, stjórnsamur, þrjóskur, hrokafullur, snobbaður eða lélegur liðsmaður. Slíkum mönnum myndi bara líða mjög illa með mér. Mikilvægast var náttúrlega að makinn myndi bæta einhverju jákvæðu við dýnamíska dúóið sem ég og Villi einkasonurinn vorum, annars væri þetta bara tilgangslaust.“
Einar uppfyllti öll framangreind skilyrði og hefur verið frábær bónusfaðir fyrir son hennar.
Parið gifti sig síðasta sumar, viku eftir að allar sóttvarnatakmarkanir voru felldar úr gildi á einum mesta sólardegi sumarsins.
Hvernig var að plana brúðkaup? „Það er þokkaleg áskorun almennt, hvað þá þegar það er engin leið að vita hvort allt fari í vaskinn vegna kórónuveirutakmarkana eða ekki.
Svo kom upp stórt verkefni hjá mér samhliða borgarstjórnarvinnunni og brúðkaupsundirbúningnum þannig að við höfðum mun naumari tíma en lagt var upp með og þá þurfti maður bara að aðlaga sig og láta af svona ónauðsynlegri kröfunum eins og að vera í mínu besta formi og fleira slíkt sem hefur meira að gera með hégómann en eitthvað bitastætt. Heilt yfir var þessi reynsla bara enn meiri sönnun þess að ég væri með réttan mann mér við hlið. Því þetta reynir klárlega á samskiptin í sambandinu, en þrátt fyrir nauman tíma, yfirvofandi takmarkanir og mikið stress unnum við mjög vel saman að þessu og allt gekk snurðulaust fyrir sig. Ég er enn í dag að furða mig á því hversu vel þetta heppnaðist, satt best að segja.“
Hvernig gengur að vera framakona, mamma og eiginkona?
„Ég myndi segja að fyrsta reglan í þessu væri að taka ófullkomnleikann í sátt, bæði í sjálfum sér og umhverfi sínu. Ég eignaðist hann Villa minn frekar ung eða tvítug og var mjög æst í að sýna öllum að þetta myndi sko ekkert hægja á mér. Ég fór í algjöran yfirsnúning til að sanna þetta, hóf fullt nám ásamt því að vinna um helgar og sinna heimilisvaktinni. Fyrir vikið var ég ekki lengi að keyra mig í kaf, sem endaði með því að ég þurfti að hætta í Háskóla Íslands og minnka mikið við mig vinnu á meðan ég náði mér á strik aftur. Þetta er ein sú mikilvægasta og besta lífsreynsla sem ég hef lent í, því þetta breytti viðhorfinu mínu alveg, en ég held því fram að því fyrr sem maður lendir í því að missa allt niður um sig á lífsleiðinni því betra. Þetta eru svo dýrmætar lexíur út í lífið.
Ég sneri alveg við blaðinu og fór að æfa mig stíft í því að sýna sjálfri mér mildi og skilning, sem og að vera meðvituð um og passa upp á jarðtenginguna. Það er svo oft þannig að við berum okkur saman við hugmyndir annarra um árangur og farsæld í þeirra lífi þegar sannleikurinn er sá að við erum öll mjög mismunandi og það starf, áhugamál eða fjölskyldumynstur sem veitir einhverjum einum lífsfyllingu er ekki endilega uppbyggilegt eða ánægjulegt fyrir mig og öfugt. Þess vegna er best að spegla sig sem minnst í öðrum heldur reyna að venja sig á að hugsa: Hvað finnst þér gefandi og skemmtilegt að taka þér fyrir hendur? Hvað telur þú vera þroskandi reynslu fyrir þitt lífsferðalag? Síðast en ekki síst: hvaða hversdagslegi hlutur eða upplifun gleður þig? Þegar maður er kominn með þetta nokkurn vegin á hreint verður verkefnalistinn aðeins einfaldari finnst mér. Af því að þá er maður að setja áherslu á sínar eigin þarfir, ekki hugmyndir okkar um það sem okkur finnst við eiga að vilja og þurfa. Það er fullkomlega ofmetið að eltast við að ná einhverjum óljósum virðingarstalli í samfélaginu og fullkomlega vanmetið að rækta tengslin við umhverfi sitt, sína nánustu og sjálfan sig. Það síðarnefnda er hornsteinn hamingjunnar ólíkt því fyrrnefnda.“
Ragnhildur er fús til þess að læra eitthvað nýtt reglulega og rannsaka erfiðar spurningar.
„Sérstaklega ef það er góður málstaður að baki. Mér finnst mjög spennandi að fá eitthvert krefjandi vandamál í hendurnar og finna sniðugar lausnir. Ég hef gaman af því að tala við fólk, kynnast því og þeirra heimsýn, en heilt yfir þykir mér bara mjög gefandi að vera fólki innan handar og styðja við það á sinni lífsleið. Hversdagslegir hlutir sem veita mér ánægju eru til dæmis göngutúrar með hundinn, eftirréttir og að elda og borða með fjölskyldunni. Þá er bara galdurinn að reyna að finna einhverja vinnu eða verkefni þar sem ég fæ að færa þetta í nyt og svo forgangsraða tíma fyrir hversdagslegu hlutina sem gleðja.“
Það skiptir hana miklu máli að láta ekki verkefnin stjórna lífinu.
„Áður fyrr var ég alltaf að skammast í sjálfri mér þegar heimilið var í einhverri óreiðu og bauð ekki fólki heim nema allt væri frágengið og hreint. Núna fær draslið mitt að safnast upp í friði fyrir mér ef ég hef ekki tíma eða orku til að gera eitthvað í því. Það er líka gott að muna að það eru gæðin en ekki magnið sem skiptir máli. Þetta á líka við samveruna með börnunum. Þegar það kemur tímabil þar sem maður er endalaust á hlaupum, þá bara passa gæði samverustundanna frekar.
Mamma kenndi mér líka helling af góðum ráðum en rauði þráðurinn í þeim er bara úthýsing. Ekki reyna að baka allt sjálf; bara kaupa köku í Krónunni fyrir skólaskemmtunina. Sleppa einhverjum stórum kostnaðarlið og kaupa frekar léttþrif í eitt skipti í staðinn. Stundum er bara best að taka allt almenna óhreina tauið, setja það í svartan ruslapoka og borga nokkra þúsundkalla fyrir þvott og fá þetta allt straujað og samanbrotið til baka. Ég hef lengst af verið í námi og því námsmannablönk og verið treg til að nýta mér þetta en núna þegar maður er kominn í vinnu geri ég þetta óspart. Annað, sem ég lærði af pabba, er um leið og maður kemur heim úr vinnunni að skipta úr betri fötunum yfir í heimafötin. Það fer betur með flíkurnar auk þess sem þær endast lengur hreinar.“
Að mati Ragnhildar Öldu erum við aldrei of oft áminnt um hvaðan virði okkar sem manneskjur kemur.
„Virði okkar verður ekki verðlagt út frá stöðu, stétt eða menntun og virði okkar er ekki bundið í þeim áföngum sem við ljúkum, plönum eða verkefnum sem við tökum að okkur eða þá hlutunum sem við umkringjum okkur með. Virði okkar stendur óháð þessu. Það er þjónusta okkar við aðra, sama hversu lítilfjörleg hún kann að vera, skilningurinn, góðmennskan og hlýjan sem reynist oft sú þúfa er veltir þyngsta hlassinu. Ég held að það sé mikilvægt að muna það.
Föðuramma mín var táknmynd þessa. Hún var heimavinnandi húsmóðir og saumakona sem var hvorki sprengmenntuð né með margra blaðsíðna ferilskrá en naut ótrúlega mikillar virðingar í bænum sínum. Flestir þekktu ömmu og áttu sínar sögur af henni. Sögurnar voru ýmist af því þegar fólk var að láta sauma eða laga einhverjar flíkur hjá henni og þótti svo vænt um tímann sinn með ömmu, en hún hafði einstakt lag á því að draga fram það besta í manni og hjálpa manni að sjá fram úr vandamálunum þegar maður hafði gert einhverja skyssu. Aðra hafði amma haft í fæði heilu sumrin eða svo gott sem tekið í fóstur í mislangan tíma, hún hafði greinilega líka hlaupið margoft til að létta undir með fólkinu í bænum þegar eitthvað kom upp á, einnig var hún þekkt fyrir að baka fyrir fjöldann allan af veislum hjá fólki. Amma hafði markverð áhrif á líf fjölda fólks með þessari umhyggjusemi sinni, sem henni fannst svo hversdagsleg, en hún var líka handviss um að þetta væri lykillinn að langlífi sínu. Allt þetta fólk og umstang. – Það og að kunna að hlæja að sjálfum sér og skyssunum sínum og alls ekki taka sig of alvarlega, þetta fannst henni mjög mikilvægt. Ég reyni að hafa þetta alltaf bak við eyrað en Alda amma er klárlega stór fyrirmynd í mínu lífi.“
Þegar málefni femínisma ber á góma og stöðu konunnar, þar sem við margar þekkjum það að vera aldar upp í miðri byltingunni, hæfar til vinnu en ekki eins góðar í hjónabandi, segist hún tengja við það.
„Ég tengi vel við þetta en mamma er gallharður femínisti og ól okkur systkinin þannig upp. Hún var sjálf alin upp af einstæðri móður sem var algjört hörkutól og var í tveimur vinnum til að sjá fyrir heimilinu. Konur af þeirra kynslóðum voru auðvitað mun háðari því að eiginmaðurinn væri ekki fífl því annars var mikil hætta á að þær sætu uppi allslausar með skuldir eiginmannanna, börnin mestmegnis á sinni könnu, minni daggæslu og tekjumöguleika. Ég held að erfiðleikar þessara kynslóða kvenna lifi enn í þjóðarsálinni því samfélagið kennir konum beint og óbeint að passa vel upp á sig ennþá og vera ekki of berskjaldaðar gagnvart makanum.
Ég held að margar konur og jafnvel karlar upplifi þetta, að eiga erfitt með að sýna makanum veika blettinn af ótta við að minnka í augum viðkomandi. Í mínum fyrri samböndum átti ég oft erfitt með að biðja um aðstoð eða sýna viðkvæmar hliðar. Mér fannst ég alltaf þurfa að vera sterk, dugleg og geta allt. Ég lærði loks með herkjum að þetta væri mjög ósjálfbært til lengdar auk þess sem þá er maður að halda makanum alltaf í ákveðinni fjarlægð og svipta sjálfan sig því tækifæri að byggja upp skilyrðislaust traust í sambandinu. Ég var því komin með allt aðra heimspeki í sambandsmálunum þegar ég kynntist Einari.
Í stuttu máli er heimspekin sú að það að stofna til sambands er í raun eins og að stofna og reka fyrirtæki saman, sem hljómar mjög órómantískt vissulega en er þó keimlíkt ef maður spáir í það. Þið ákveðið að leggja bæði tíma og vinnu í sambandið, því næst kaupið þið eign eða leigið húsnæði undir starfsemi sambandsins, þar sem þið leggið bæði fjárhagslega til heimilishaldsins, skiptið með ykkur verkefnum og takið ákvarðanir um umsvif sambandsins. Þetta er ákveðið fyrirtæki í sjálfu sér.
Fyrsta ár sambandsins er fólk svo að móta sín á milli ákveðnar upphafsleikreglur. Svo er bara að gera sameiginlega stefnu og aðgerðaáætlun og endurskoða þær þess á milli svo þær falli að markmiðum sambandsins. Það er mikilvægt að vera raunsær á það hvernig styrkleikar beggja nýtast sambandinu best og haga verkefnaskiptingunni eftir því.“
Bæði faðir Ragnhildar Öldu og afi voru duglegir að taka til hendinni heima fyrir.
„Afi var mikið útivinnandi og amma var heimavinnandi þannig að hún sá um mest heima, en alltaf þegar hann var heima þá bara gekk hann í öll þessi verk og fleiri óumbeðinn og létti undir með henni. Pabbi hefur svo alltaf verið svona aðalkokkurinn á heimilinu og mamma séð um hátíðarmatinn frekar, hann er einnig mjög iðinn við frágang og þrif heima ásamt ýmsum heimilisverkum. Ég er því alin upp við menn sem deila álagi þriðju vaktarinnar til jafns með konunum og myndi seint una öðru held ég.“
Ragnhildur Alda er ein þeirra sem barist hafa fyrir neyðarathvarfi fyrir heimilislausar konur.
„Ég lagði fram tillögu um að setja aftur á laggirnar sams konar neyðarathvarf fyrir heimilislausar konur og var komið á í fyrstu bylgju faraldursins. Þá kostaði ríkið athvarfið og Reykjavíkurborg sá um að reka það. Þetta athvarf hafði þá sérstöðu að það líktist meira stúdentagörðum með sólarhringsstuðning en hefðbundnu neyðarskýli þar sem því var ekki lokað yfir daginn og konurnar höfðu sérherbergi með sérbaðhergi. Þær gátu því ráðið hvernig þær höguðu sínum degi, þurftu ekki að óttast að einhver tæki eigur þeirra og gátu baðað sig í einrúmi. Þetta skipti sköpum fyrir konurnar en í kjölfar lokunar úrræðisins fóru þær allar áfram í varanlegt framhaldsúrræði, sem er 100% árangur! Galdurinn var fólginn í því að konurnar fengu aðlögunartíma í stuðningsríku umhverfi þar sem þær upplifðu sig við stjórnvölinn. Því miður var tillaga mín og Sjálfstæðisflokksins ekki samþykkt í borgarstjórn af meirihlutanum heldur vísað inn í velferðarnefnd og þaðan inn í stýrihópinn um endurskoðun aðgerðaáætlunar um málefni heimilislausra. Ég er þó hvergi nærri dottin af baki og held áfram að tala fyrir henni þar.“
Hvað kom á óvart í þessari vinnu?
„Það var helst tvennt sem kom mér verulega á óvart. Fyrst það hversu stórt þjónustugat er á milli ríkisins og sveitarfélaga gagnvart þessum hópi. Oft er um að ræða einstaklinga sem eru verulega andlega og líkamlega veikir ásamt því að vera í virkri fíkn. Þyngri einstaklingarnir þar af lenda svo oft í því að vera heita kartaflan sem á hvergi samastað og enginn vill taka að sér að þjónusta almennilega. Það aðgerðaleysi leiðir svo bara af sér meiri kostnað annars staðar í kerfinu, hvort sem það er þörf á dýrari læknisþjónustu en ella eða fleiri heimsóknir á bráðamóttöku eða til lögreglu.
Hitt var það sem ég myndi kalla mjög þrönga túlkun á „Húsnæði fyrst“-stefnunni sem borgin fylgir og kallast á ensku „Housing first“. Sú stefna er mjög flott og byggð á því að öruggt þak yfir höfuðið sé hornsteinn þess að fólk í virkri fíkn geti náð bata. Rannsóknir hafa stutt við þessa kennisetningu. Borgarfulltrúar meirihlutans hafa hins vegar lýst því yfir að stefna borgarinnar til langs tíma sé sú að það eigi ekki að vera nein þörf á neyðarathvörfum, það verði bara þannig að allir séu með húsnæði. Þarna finnst mér meirihlutinn vera með þröngsýna nálgun á Húsnæði fyrst því það dugar ekki eitt og sér að byggja smáhýsi eða koma fólki í félagslega íbúð, afhenda lykilinn og segja gangi þér vel. Jafnvel með reglulegu innliti frá stuðningsaðilum getur það reynst fólki sem er mjög veikt fyrir ofviða að halda eigið heimili. Sérstaklega ef viðkomandi er búinn að vera lengi á vergangi og er mjög illa á sig kominn. Fólk getur þannig lent í því að vera sett í stöðu þar sem gerðar eru of miklar kröfur til þess. Svo kannski missir það íbúðina eða húsið og sjálfsálitið brotnar í enn fleiri mola en áður og borgin er ólíklegri til að reyna aftur. Þar að auki er líka fólk í þessum hópi sem er ekki heimilislaust heldur að flýja heimili sitt vegna ofbeldis. Neyðarathvörf eru því mjög mikilvæg sem lágþröskuldaúrræði og fyrsti viðkomustaður fyrir þá sem eru ekki tilbúnir fyrir framhaldsúrræði.
Það sem tillagan mín leggur svo til er að útfæra neyðarathvörf þannig að þau bæði grípi fólk beint af götunni en virki líka til að valdefla og aðstoða fólk við að aðlagast sjálfstæðri búsetu.“