Baðhúsið og fasteignafélagið Reginn hafa gert með sér samning sem felur í sér að Baðhúsið flytur í húsnæði í Smáralind í Kópavogi í lok ársins. Baðhúsið, sem nú er á sínu tuttugasta starfsári, hefur verið starfrækt í Brautarholti um árabil en starfsemin hefur vaxið og dafnað þannig að það húsnæði er nú hreinlega orðið of lítið.
„Baðhúsið hefur verið minn draumur en ég hef bara getað uppfyllt hluta hans í Brautarholtinu. Í húsnæðinu í Smáralind næ ég loksins að uppfylla hann að fullu,“ segir Linda Pétursdóttir, eigandi Baðhússins.
Baðhúsið verður í stórglæsilegu og rúmgóðu húsnæði í vesturenda Smáralindar og er áætlað að starfsemin þar hefjist 1. desember.
„Viðskiptavinir Baðhússins hafa sýnt okkur tryggð í gegnum tíðina og ég veit að konurnar okkar verða himinlifandi með aðstöðuna í Smáralind, sem verður sérsniðin fyrir þær.“
Samningurinn við Regin, sem metinn er á um 450 milljónir króna, var undirritaður í vikunni og segir Linda að hann hafi komið á hárréttum tíma.
„Okkur hefur liðið vel í Brautarholtinu en okkur langaði til að sjá Baðhúsið blómstra að fullu og taka þetta næsta skref. Nú er sá draumur að rætast og við verðum nær miðju höfuðborgarsvæðisins, með næg bílastæði og góða aðkomu. Við hlökkum til að sjá Baðhúsið springa út í Smáralind,“ segir Linda.