Gerður Arinbjarnardóttir, eigandi hjálpatækjaverslunarinnar Blush.is, fór í brjóstaminnkun í gær. Lesendur Smartlands Mörtu Maríu ættu að þekkja Gerði en hún tók saman lista á dögunum um 10 vinsælustu kynlífstækin 2015.
Ágúst Birgisson lýtalæknir framkvæmir aðgerðina, sem er engin skyndiákvörðun. Áður en Gerður fór í aðgerðina náði ég tali af henni og spurði hana hvers vegna hún ætlaði að leggjast undir hnífinn.
„Þetta er að hluta til gert til að bæta útlit og laga það sem ég er óánægð með en stærsti parturinn fyrir því að ég er að fara í aðgerðina er til að bæta lífsgæðin og létta á bakinu á mér. Síðustu árin er ég farin að finna meira og meira fyrir því hvað þetta hefur mikil áhrif á axlirnar og bakið. Ég er mjög oft þreytt í bakinu og það fylgir þessu höfuðverkur,“ segir Gerður.
Það að fara í brjóstaminnkun er innilega ekki skyndiákvörðun hjá Gerði.
„Ég fór í mitt fyrsta viðtal fyrir rúmlega 4 árum. Eftir að ég átti strákinn minn þá breyttust brjóstin á mér rosalega og stækkuðu mikið. Þegar ég fór í fyrsta viðtalið var ég skoðuð og mér sagt að best væri ef ég léttist fyrir aðgerðina þar sem að ég var 20 kg of þung. Ég fór heim með megrunar- og fjárhagsplan í kollinum þar sem aðgerðin er kostnaðarsöm og ætlaði heldur betur að rífa af mér auka kílóin og safna peningum, en það var hægara sagt en gert,“ segir Gerður og bætir við.
„Ég setti þetta því á hilluna í smá stund, en hætti þó aldrei að hugsa um þetta. Nú loksins fyrir um ári fór ég af stað aftur í viðtal og setti mér markmið að safna fyrir aðgerðinni. Ég hinsvegar hef ekki létt mig mikið, kannski 5 kg en ég er mjög sátt við mig eins og ég er í dag og það er held ég það sem skiptir mestu máli. Síðan ég fór að tala opinberlega um þessa aðgerð og í kjölfarið fór ég að fá pósta frá konum sem hafa farið i svona eða dreymir um að fara í brjóstaminnkun. Mig hefði aldrei grunað að þetta væri svona algengt vandamál. Það er því alveg ljóst að ég er ekki eina konan sem er að ganga í gegnum þetta,“ segir Gerður.
Þegar ég spyr Gerði hvað hún haldi að aðgerðin muni gera fyrir hana segist hún trúa því að lífið verði mun léttara.
„Þetta mun að sjálfsögðu létta mjög á bakinu og öxlunum á mér. Ég finn það daglega hvað þetta reynir á líkamann og bara almenna líkamsstöðu. En fyrir utan það þá mun þetta pottþétt bæta sjálfsöryggið mitt líka. Það er orðið mjög erfitt að finna brjóstahaldara og að fara í sund er eitthvað sem ég er farin að forðast. Ég er 26 ára með sigin brjóst, missigin meira að segja. Annað brjóstið er skálastærð stærra og geirvörturnar vísa í átt að suðurpólnum. Það hefur bara því miður áhrif á sjálfstraustið,“ segir hún.
Heldur þú að lífið muni breytast eitthvað eftir að þú ferð í aðgerðina?
„Það mun líklega ekki breytast en eins og að kaupa sér föt og brjóstahaldara verður mun auðveldara. Það að auki vonast ég til að bakverkir minnki svo að daglegar athafnir verði auðveldari. Ég hef sett mér markmið að hlaupa 10 km næsta sumar. En ég hef ekki getað hlaupið síðustu árin, einfaldlega af því ég get það ekki út af brjóstunum.“
Áður en Gerður fór í aðgerðina spurði ég hana hvort hún óttaðist ekkert að leggjast undir hnífinn.
„Jú, ég er mjög stressuð. Það er líklega ástæðan fyrir því að ég er ekki löngu búin að fara. En það er svo sannarlega búið að vera hnútur í maganum og minna um svefn svona þegar að fer að líða að aðgerðinni. Ég er hinsvegar sannfærð um að þetta verði minna mál heldur en ég held að þetta sé. Ég er búin að undirbúa mig vel fyrir það að þetta verði erfitt og sársaukafullt en meira get ég ekki gert. Þetta verður svo bara allt að koma í ljós.“