Æfir sex daga vikunnar

Kristbjörg Jónasdóttir fitnessdrottning tekur vel á því í ræktinni.
Kristbjörg Jónasdóttir fitnessdrottning tekur vel á því í ræktinni. mbl.is/Árni Sæberg

Kristbjörg Jónasdóttir, einkaþjálfari og fitness-drottning, segir að það skipti hana miklu máli að vera í góðu formi. Hún æfir sex daga vikunnar og gætir þess vel að hafa aldrei nammidaga marga daga í röð. Hún játar að hún sé alger nammigrís. 

Sjónvarpið er áhrifavaldur í lífi Kristbjargar en eftir að hún sá keppnina IceFitness í sjónvarpinu ákvað hún að þetta væri eitthvað fyrir hana og ekki var aftur snúið.

„Það var eitthvað við þetta sem höfðaði til mín og þarna var ég skyndilega komin með eitthvað til að stefna að,“ segir Kristbjörg.

Hún heillaðist af því að geta blandað saman styrk og fegurð.

„Að vera sterk en líta samt vel út. Það er eitthvað við þá samsetningu sem mér finnst bara svo rétt,“ segir hún.

Spurð að því hvort allir geti náð árangri í fitness segir hún svo vera.

„Það eru til ótal dæmi um fólk sem var í lélegu formi sem reif sig í gang og náði mjög góðum árangri,“ segir hún.

Þegar ég spyr Kristbjörgu um hennar bakgrunn í íþróttum kemur í ljós að hún var fótboltastelpa þegar hún var lítil.

„Ég æfði fótbolta upp alla yngri flokkana og það var sú íþrótt sem átti hug minn og hjarta þó svo að ég hafi prófað að æfa ýmislegt annað. Svo þegar nálgast fór tvítugt þá tók ræktin við. Ég er ein af þeim sem finnst bara alveg ógeðslega gaman að æfa. Að prófa nýjar æfingar og ýta sjálfri mér út fyrir þægindarammann drífur mig áfram,“ segir hún.

Kristbjörg keppti í fitness um tíma en það eru komin þrjú ár síðan hún steig síðast á svið.

„Ég keppti síðast á Amateur Olympia-mótinu sem haldið var í Prag í júní 2014. Tveim vikum seinna komst ég að því að ég var orðin ólétt og þá ákvað ég að taka mér hlé frá fitness-keppnum þó svo að ég hafi æft alveg fram að fæðingu,“ segir hún.

Sonurinn Óliver Breki kom í heiminn í mars 2015, en soninn á Kristbjörg með Aroni Einari Gunnarssyni eiginmanni sínum. Hjónin gengu í hjónaband í byrjun sumars í Hallgrímskirkju og vakti brúðkaup þeirra mikla athygli. Í dag búa hjónin í Wales, þar sem Kristbjörg starfar sem einkaþjálfari.

„Áður en við fluttum út vann ég í World Class sem einkaþjálfari og var með einstaklinga eða litla hópa í þjálfun hjá mér. Síðan ég flutti til Wales þá hef ég verið að þróa einkaþjálfunarprógramm sem heitir „Stronger“ sem er ekki enn komið í gang þó svo að forskráning í það sé hafin. Stefnan er sett á að hefja það 1. október og þá er hægt að skrá sig í það á heimasíðunni minni www.krisj.is. Ég er búin að leggja gríðarlega mikla vinnu í þetta verkefni og er búin að fá til liðs við mig kvikmyndagerðarmenn, hönnuði, forritara og alls konar annað fólk til að aðstoða svo þetta prógramm verði eins vel heppnað og völ er á. Ég hlakka ótrúlega mikið til að setja þetta í gang,“ segir hún.

Hvað gefur vinnan þér?

„Hún veitir mér hamingju. Að geta aðstoðað aðra við að ná markmiðum sínum og geta nýtt mína reynslu og þekkingu og sjá aðra njóta góðs af. Það er frábær tilfinning og nokkuð sem mig langar að starfa við í framtíðinni,“ segir hún.

Þegar ég spyr Kristbjörgu hvers vegna það skipti máli að vera í formi segir hún að það hafi mikil áhrif á sjálfstraustið.

„Að líða vel í eigin skinni er ein af undirstöðum sjálfstrausts. Hluti af því hjá mér að líða vel er að vera í góðu formi. Mín skilgreining á góðu formi er að vera sterk, lipur og fær um að gera alls konar hluti án þess að þurfa að erfiða við það. Að líða þannig að ekkert sé ómögulegt og finnast bara áskorunin við það að gera eitthvað sem flestum þykir erfitt að gera spennandi. Það er í raun bara skemmtileg aukaverkun að því betur sem maður er á sig kominn, því betur lítur maður út í speglinum.“

Í dag er Kristbjörg vel á sig komin líkamlega, stælt og sterk. Hún játar að hún hafi ekki alltaf verið í góðu formi.

„Ég hef alls ekki alltaf verið í góðu formi. Í kringum tvítugt var ég meira að segja farin að vera ansi slöpp. Þá var ég ekkert að æfa af viti og var með fókusinn á einhverju öðru. En eftir að ég fór í fitness-bransann þá er ég búin að vera í nokkuð góðu formi 365 daga á ári.“

Hvernig ertu að æfa núna?

„Ég er alltaf að prófa eitthvað nýtt. Hef til dæmis bæði bætt við mig hnefaleikaþjálfun og crossfit-æfingum að undanförnu og ég elska hvort tveggja. Annars þá finnst mér bara gaman að brjóta þetta upp og hafa æfingarútínuna sem mest blandaða. Ég vil bara hafa æfingarnar skemmtilegar. Það er algjört aðalatriði,“ segir Kristbjörg, sem er ekkert að slaka neitt á. Hún æfir sex daga vikunnar.

Skiptir máli að æfa daglega til að ná árangri?

„Að mínu mati þá finnur hver bara sinn takt. Reglulegar æfingar eru þarfar. En það hefur hver sinn hátt á. Þetta veltur líka á því hvernig fólk æfir. En hvað mig varðar þá er þetta ákveðin útrás sem fylgir því að æfa og vellíðanin sem fylgir er svo mikil að ég verð hálf óróleg ef ég æfi ekki reglulega.“

Hvernig er mataræði þínu háttað?

„Ég var mjög ströng við mig og var það mjög lengi. Ég hef meira jafnvægi á hlutunum núna og skammast mín ekki fyrir það að fá mér af og til eitthvað óhollt. Hins vegar þá reyni ég að hafa hollan og góðan mat í flestum máltíðum. Það hefur bara svo mikið með næringu, orkuflæði og getu til að lifa aktífu lífi að gera. Ruslfæði kemur í veg fyrir að hægt sé að æfa jafn vel og líða jafn vel.“

Hvað ertu að borða á venjulegum degi?

„Ég borða 4-6 máltíðir á dag. Ég byrja daginn yfirleitt á hafragraut með próteini og berjum og borða þetta fyrir æfingar. Eftir æfingu fæ ég mér hádegismat. Gjarnan kjúkling, hrísgrjón og grænmeti eða eitthvað þannig. Um miðjan dag þá er það ýmislegt. Stundum bara egg eða skyr. Stundum próteinpönnukökur. Stundum boost. Bara það sem mér dettur í hug eða langar í þann daginn. Kvöldmaturinn er gjarnan eitthvað sem við fjölskyldan eldum saman. Bara hefðbundinn heimilismatur nema ögn meiri áhersla á hollustu. Ef ég er svöng um kvöldið þá fæ ég mér próteinsjeik, eggjahvítur, ávexti eða eitthvað sem fyllir upp í.“

Er eitthvað sem þú myndir aldrei borða?

„Hrossakjöt. Ég bara get ekki borðað það. Mér hefur alltaf þótt vænt um hesta og ég bara fæ mig ekki í það.“

Ertu svona sjeikatýpa eða finnst þér betra að fá alvöru mat?

„Allan daginn vil ég frekar alvöru mat. Sjeik er heppilegur þegar ég hef lítinn tíma eða vantar bara eitthvað sem fyllir hratt upp í, annars reyni ég að borða alvöru mat í flest mál.“

Þegar talið berst að sælgætisáti játar Kristbjörg að hún sé töluvert fyrir sætindi.

„Ég er algjör nammigrís og súkkulaðifíkill. Ég reyni bara að hafa jafnvægi þannig að þegar ég borða nammi þá taki ég hollustuna á móti. Ég tek til dæmis aldrei marga nammidaga í röð,“ segir hún.

Það er eiginlega ekki hægt að taka viðtal við Kristbjörgu nema spyrja hana örlítið út í sitt daglega líf og hvernig rútínan sé hjá henni.

„Venjulegur dagur snýst mikið um hann Óliver son okkar Arons. Hann er reyndar byrjaður í leikskóla núna þrisvar í viku og þá fer dagsplanið aðeins að breytast. En annars byrja dagarnir á því að við vöknum saman, fáum okkur morgunmat. Svo fer ég alltaf í ræktina um 10-leytið á morgnana og æfi í ca. 1-2 klukkutíma. Svo er það hádegismatur og eftir hádegismat þá hefur Óliver yfirleitt tekið lúrinn sinn og þá vinn ég í mínum verkefnum. Svo kemur Aron heim í eftirmiðdaginn og þá eigum við góða fjölskyldustund. Við förum í labbitúr eða gerum eitthvað skemmtilegt. Svo eldum við kvöldmat saman og eyðum svo kvöldinu saman í afslöppun,“ segir hún.

Hvað skiptir þig mestu máli í lífinu?

„Strákarnir mínir.“

Hvernig þarf lífið að vera til þess að þú sért hamingjusöm?

„Það þarf bara að vera nákvæmlega eins og það er!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda