„Í síðasta pistil mínum á Smartland fjallaði ég almennt um streitu, áhrif hennar og orsakir og hvernig við getum framleitt streituástand með hugsunum okkar einum saman. Vísindin hafa sýnt að streita veikir og jafnvel slekkur á ónæmiskerfinu okkar með þeim afleiðingum að við getum orðið veik. Við erum einfaldlega ekki byggð til að þola langtíma streituástand,“ segir Sara Pálsdóttir dáleiðari í sínum nýjasta pistli:
Einkenni viðvarandi streitu geta m.a. verið pirringur, geðlægð, finnast maður vera að missa tökin, ráða ekki við neitt, einbeitingarerfiðleikar, lágt sjálfsmat, einmanaleiki, forðunarhegðun, orkuleysi, höfuðverkir, hraður hjartsláttur, svefnleysi, viðkomandi nær sér í allar umgangspestir, eyrnasuð, sífelldar áhyggjur, neikvæðni o.fl.
Það eru lítil takmörk fyrir því hvaða sjúkdómum streita getur valdið, allt frá krónískum verkjavandamálum, síþreytu, kvíða, þunglyndi, hjartasjúkdómum, meltingarvandamálum, háum blóðþrýstingi, húðvandamálum og jafnvel krabbameini.
Ég tek það fram að ég er ekki læknir en vísindin hafa sýnt fram á þetta og hver sem er getur sótt upplýsingar um þetta á netinu. Það er gríðarlega mikilvægt að við séum meðvituð um þetta og lærum aðferðir við að draga úr streitu í lífi okkar.
Hvers vegna getur verið svona erfitt að koma sér út úr streituástandi? Stór hluti vandans er sá að fólk festist í neikvæðu hugsanamynstri, jafnvel ómeðvitað. Þessar hugsanir tengjast oft einhverju sem gerðist í fortíðinni, t.d. áfalli eða erfiðu tímabili sem vakti hjá okkur sterkar neikvæðar tilfinningar eins og kvíða, áhyggjur, særindi eða reiði. Þegar við förum að hugsa þessar hugsanir endurvekjum við þessar neikvæðu tilfinningar og undirmeðvitundin okkar gerir ekki greinarmun á ímyndun eða raunveruleika. Niðurstaðan er sú að hugur okkur túlkar hugsanirnar og tilfinningarnar þannig að áfallið eða erfiða lífsreynslan sé að gerast þá og þegar, aftur og aftur. Þessar neikvæðu hugsanir viðhalda svo streituástandinu.
Og þannig lifum við í fortíðinni. Streitan rænir okkur lífsgæðum. Gerir okkur ókleift að vera við sjálf eða vera eins og við viljum vera, lifa því lífi sem við viljum lifa.
Við mótum sjálf okkur og líf okkar með hugsunum, tilfinningum og hegðun. Okkur líður eins og við hugsum og við hegðum okkur í samræmi við hugsanir okkar og tilfinningar. „Ég er ekki í skapi til að fara í ræktina núna“, „ég er ekki í stuði til að fara í bíó með vinunum“, „ég er engan veginn að nenna að fara í vinnuna í dag“, „ég er ekki að meika neitt“, „ég er að drepast í bakinu/höfuðverk“, o.s.frv.
Hvað er til ráða? Það er ekki endilega raunhæft að minnka streituvalda með því að fara niður í 50% starf eða hætta að hugsa um veikt, aldrað foreldri. Góð byrjun er að setjast niður, loka augunum og draga djúpt inn andann. Gefa líkama þínum og huga skipanir um að slaka á og hægja á hugsununum. Mjög gott og einfalt að byrja með því að fara á youtube.com og finna stutta, leidda hugleiðslu (guided meditation), t.d. um jákvæðar hugsanir. Þetta getur verið erfitt í fyrstu, en æfingin skapar meistarann. Þú þarft ekki að fara á hugleiðslunámskeið eða æfa þig í 10 ár, bara byrja smátt. Til dæmis 5 mínútur á hverjum degi.
Smátt og smátt lengist tíminn og maður fer að hafa meiri stjórn á huganum, fer að taka betur eftir því hvað maður er að hugsa, og fer að geta breytt því. Maður fer að hugsa skýrar og meira í núinu og um framtíðina, fremur en um fortíðina. Með slökuninni kemur betri andleg og líkamleg líðan. Breytingar koma með endurtekningu, það þarf æfingu til að breyta neikvæðum hugsunum í jákvæðar hugsanir, rétt eins og maður þarf að æfa sig í ræktinni til að fá kúlurass.
Önnur leið sem er mjög áhrifarík er dáleiðsla eða sjálfsdáleiðsla. Þá fer maður í enn dýpri slökun og hefur beinan aðgang að undirmeðvitundinni og allar breytingar verða hraðari og auðveldari. Þar er hægt að skipta út óhjálplegum „forritum“ í hjálpleg. Hin djúpa slökun kemur manni í ástand sem er þveröfugt við streitu og hjálpar heilanum og líkamanum að vinna betur saman. Ónæmiskerfið styrkist. Ég mun fjalla sérstaklega um undirmeðvitundina og forritin í henni í fleiri pistlum hér á Smartlandi og hvet ykkur til að fylgjast með.
Byrjaðu strax. Ekki gefast upp. Það hafa allir 5 mínútur. Gefðu þér þessa gjöf og gerðu slökun og hugleiðslu að jafn sjálfsögðum hlut og að bursta tennurnar á morgnanna. Áhrifin eru skjótvirkari, jákvæðari og meiri en þú heldur.