Sara Pálsdóttir er nýjasti gesturinn í hlaðvarpsþættinum, Normið. Sara er dáleiðari og lögmaður og ræddi um kvíða, rætur kvíðans og lausnina í þættinum. Hún segir að heilbrigt hugarfar skipti máli þegar kvíðinn sé annars vegar.
„Í þættinum var farið yfir þrjár meginrætur kvíðans, það er að elska ekki sjálfan sig skilyrðislaust, neikvæð orka og svo neikvæð forrit í undirmeðvitundinni. Við tókum létta æfingu með hlustendum sem fólst í því að eyða einni af meginrótum kvíðans og tókum skrefið að ákveða að elska sjálf okkur skilyrðislaust og á fallegan og heilbrigðan máta. Þáttastjórnendur fundu vel hina heilbrigðu breytingu sem varð innra með þeim þegar þær tóku þetta skref og jákvæðu orkuna sem því fylgdi,“ segir Sara og bætir við:
„Við ræddum um hvernig það að elska ekki sjálfan sig skilyrðislaust einkennist meðal annars af kvíða, þunglyndi, meðvirkni, neikvæðu sjálfsniðurrifi, átökum í nánum samskiptum, neikvæðum hugsunum og fleira og fleira. Ef þú tengir við eitthvað af þessu er gríðarlega mikilvægt fyrir þig að hlusta og gera þessa æfingu með okkur! Með því ertu að stíga eitthvað kröftugasta og öflugasta skref í átt að bata og frelsi sem unnt er að stíga.Við ræddum um það hvernig kvíðinn virkar og að varast lygar kvíðans (kvíðinn er lygari) og hver er lausnin við kvíða, þ.e. formúlan til að fá algert frelsi frá óheilbrigðum kvíða. Þá fórum við afar vel yfir hvað felst í heilbrigðu hugarfari og hvernig hugsanir okkar stýra líðan okkar, heilsu og lífi. Hvernig lykillinn að góðu heilbrigði og frelsi frá kvíða er að eyða rótum kvíðans og læra að stýra hugsunum sínum og líðan sinni,“ segir hún.
Þú getur hlustað á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is.