„Ég hef unnið harðari stríð en þetta“

Guðrún Ólöf Gunnarsdóttir lítur framtíðina björtum augum þrátt fyrir erfið veikindi að undanförnu. Hún er með það markmið að ganga á hælaskóm aftur og að geta gengið án stuðnings en hún missti hægri fótinn vegna æxlis í fyrra. 

Guðrún tekur á móti blaðamanni með bros á vör í fallega húsinu sínu á Seltjarnarnesi. Heimilið ber þess merki að Guðrún er mikill fagurkeri, þó hún staðhæfi að verkefnin á liðnu ári hafi breytt því hvernig hún forgangsraðar í lífinu.

„Ég hef alltaf elskað fallegan fatnað og vandaðan húsbúnað en ég hugsa lítið út í það núna, heldur eru það litlu augnablikin í lífinu sem skipta hvað mestu máli og að vera með fjölskyldunni,“ segir hún og útskýrir hvernig alvarleg veikindi geta breytt afstöðu manns til lífsins.

„Ég vil ekki vera sú sem vorkennir sjálfri sér. Ég reyni því í hvert skipti sem ég fer að hugsa eitthvað neikvætt, að gera hluti sem fær mér frið og aðeins nær markmiðum mínum. Það þarf ekki að vera flókið. Stundum tek ég nokkrar armbeyjur og stundum fer ég bara að prjóna. Eymd og volæði fá ekki að búa í höfðinu á mér. Lífið er alls konar og við lendum öll í einhverju. Það var ekkert sem ég gat gert við þessum veikindum mínum og það eru allir boðnir og búnir að veita mér stuðning. Svo eru til alls konar sjúkdómar, og sumir ekki eins heppnir og ég með stuðning. Ég reyni að hafa það hugfast í bataferlinu.“

„Er þetta ekki maðurinn hennar Guðrúnar bara?“

Það er erfitt að setja sig í spor Guðrúnar sem lýsir sér sem orkumiklum einstaklingi sem hefur alltaf haft eitthvað fyrir stafni.

„Nú þarf ég að taka á mínum stóra til að geta ryksugað heima hjá mér. Ég er í dásamlegri vinnu og á yndislega fjölskyldu og það er það sem ég reyni að einbeita mér að.“

Guðrún er keramiker að mennt og starfar nú á fjármálasviði Icelandair-hótelanna tvo og hálfan dag vikunnar. Hún og unnusti hennar, Kristján Carnell Brooks, eiga samanlagt sex börn. Kristján á tvo drengi sem búa aðra hvora viku á heimilinu, önnur dóttir Guðrúnar er með þeim alla daga og svo deila yngri tvö börnin heimili með henni og föður sínum.

„Svo á ég dásamlegan elsta son sem er fluttur að heiman og kominn með konu og barn. Ég á orðið þrjú barnabörn sem ég elska öll jafnmikið.“

Sambönd og góð samskipti er eitthvað sem Guðrún setur ofar öllu öðru í dag og færist fallegt bros yfir allt andlitið þegar talið berst að ástarsambandinu hennar.

„Ég var í hjónabandi í tæp tuttugu ár hér áður og á einstaklega gott samband við fyrrverandi mann minn og barnsföður. Ég hafði verið á lausu um tíma og var alls ekki á höttunum á eftir manni þegar örlögin gripu í taumana og við Kristján fórum á fyrsta stefnumótið okkar, þá meira sem vinir en fólk í leit að sambandi,“ segir hún og rifjar upp örlagaríkt kvöld á fimmtudegi með vinkonum sínum úr gamla saumaklúbbnum.

„Ég á alveg hreint dásamlegar vinkonur. Nokkrar af okkur höfðum gengið í gegnum skilnað og ein hafði verið aðeins lengur á lausu en við hinar. Stelpurnar voru eitthvað að tala um vænlega karlmenn fyrir hana, á meðan ég var í hrókasamræðum við vinkonu mína. Ég var að hlusta með öðru eyranu, þegar talið berst skyndilega að Kristjáni, manni í vinnu einnar okkar. Hann var þá nýkominn úr sambandi. Hún sýnir stelpunum mynd af honum og einhver spyr: Er þetta ekki maðurinn hennar Guðrúnar bara?“

Hún segist hafa litið á myndina af honum og strax kannast við svipinn á honum.

Sendi unnustanum vinabeiðni um miðja nótt

Það var svo sem ekkert fleira sem gerðist næstu daga nema hvað að Kristján fær vinabeiðni senda úr tölvunni hennar Guðrúnar um miðja nótt helgina á eftir.

„Þetta atvikaðist þannig að ein af saumaklúbbs-vinkonum mínum var í heimsókn hjá mér og þar sem ég er alltaf með tölvuna mína og Facebook opna á borðinu, þá ákveður hún að taka málin í sínar hendur á minni síðu. Í fyrstu fannst mér þetta mjög sniðugt þangað til það heyrðist hvorki fugl né fiskur frá honum, þarna daginn eftir. Þá fóru að renna á mig tvær grímur.

Seinna um kvöldið samþykkir hann vinabeiðni mína og svo fæ ég afskaplega fallegt og hlýlegt bréf frá honum í kjölfarið. Ég man að ég horfði á bréfið og hugsaði með mér hvað þetta væri vandaður og fallegur maður. Ég held að klukkan hafi verið langt gengin þrjú aðfaranótt mánudagsins þegar við hættum að tala saman á Messenger.

Við náðum strax vel saman en spjallið var meira á vinanótum en í daðri. Við héldum svo sambandi út vikuna eða þar til hann býður mér að hitta sig í mat á föstudagskvöldið.

Við vildum ekki setja neinn stimpil á þennan hitting og alls ekki að kalla samveruna okkar stefnumót. Við vorum meira svona tveir vinir að spjalla um lífið og tilveruna.“

Guðrún útskýrir hvernig ástin hafi vaxið upp úr þessum dýrmæta vinskap í byrjun.

Nýtti tímann til að koma sér í gott form

Rekja má upphaf veikinda Guðrúnar til þess tíma sem hún og Kristján höfðu nýlokið við að gera upp nýja draumahúsið sitt.

„Í raun má rekja upphafið til ársins 2019 þegar ég fór í aðgerð á liðþófa á vinstri fæti. Það var svo í apríl árið 2020 sem ég fór í sams konar aðgerð á hægri fæti. Í eftirlitsskoðun í september það sama ár virtist allt eins og það átti að vera á báðum fótum.“

Það var lán í óláni að Guðrún var frá vinnu vegna kórónuveirunnar og gat þá nýtt allan sinn tíma í að koma sér í form aftur til að geta gengið eðlilega og gott betur en það.

„Ég ákvað að vera með barnabarnið mitt nokkra daga vikunnar og að fara með það út í vagn og út að ganga eins mikið og ég gat.

Seinna fór ég út að skokka og fann ekki fyrir neinu heldur leið mér bara mjög vel.“

Það var svo um jólin sem Guðrún fór að finna fyrir miklum verk í hægri fætinum.

„Mér leið eins og ég væri með teygju spennta yfir lærið og síðan var ég með verk sem leiddi niður sköflunginn, alla leið í ristina.

Ég hafði ekki hugmynd um hvað þetta gæti verið annað en örvefur vegna aðgerðarinnar á hnénu.“

Guðrún fann fyrir þrýstingi í fætinum við slökun á kvöldin svo var hún einnig farin að hrasa og misstíga sig.

„Ég hélt ég væri bara orðin svona klaufsk þar til einn daginn að ég var úti að ganga á Laugaveginum með barnabarnið mitt, þá dett ég með vagninn og hryn beint á andlitið. Sem betur fer var barnið vel bundið og varið í vagninum, og varð ekki meint af þessu. Ég vissi strax að eitthvað var ekki eins og það átti að vera í fætinum.“

Með brjóskmyndandi æxli á stærð við egg undir hnéskelinni

Guðrún fór til læknis í júní árið 2021 og var strax send í myndatöku þar sem í ljós kom að hún var komin með chondrasarcoma, brjóskmyndandi æxli á stærð við egg undir hnéskelinni á hægri fæti.

„Það var svo þann 24. júlí klukkan 12:00 sem ég fæ þær gleðifregnir frá Icelandair-hótelunum að nú væri kominn tími fyrir mig að mæta aftur í vinnuna.“

Þetta reyndist örlagaríkur dagur því seinna fékk hún símtal frá lækninum sínum.

„Hann hringdi í mig um miðjan daginn þar sem hann biður mig um að velja aðgerðardag, innan sjö daga, eða ekki seinna en 1. júlí. Hann átti erfitt með að koma sér beint að efninu og vildi hitta mig í eigin persónu. Ég bað hann að segja mér strax hvað væri í gangi og hann taldi einhverjar líkur á að til að bjarga lífi mínu þyrfti að fjarlægja af mér fótinn. Ég spurði hversu miklar líkurnar væru og hann taldi þær 100%.“

Á þessum tíma var krabbameinið búið að dreifa sér bæði í bein og vöðva, fyrir ofan hné og neðan.

Upplifði tímann eftir aðgerðina sem algjört helvíti Það var áfall fyrir Guðrúnu að heyra hvað væri að gerast í fætinum.

„Ég er þakklát fyrir að hafa ekki fengið neinn tíma til að hugsa, því ég hefði ekki viljað vita út í hvað ég var að fara.“

Eftir aðgerðina sem gekk vel átti Guðrún að vera eina viku á spítalanum. Sá tími teygði sig yfir í tvær vikur og var það vegna verkja sem erfitt reyndist að eiga við.

„Ég upplifði þetta tímabil sem algjört helvíti. Ég hef í rauninni aldrei upplifað neitt í líkingu við þetta. Verkjalyfin virkuðu ekki og mér leið alveg eins og ég gæti bara verið á paratabs. Mig var farið að dagdreyma um eitthvað sterkt í æð, í raun allt nema þetta.“

Hún segir það að fæða barn barnaleik miðað við að láta taka af sér fótinn.

„Fóturinn var tekinn 10 cm fyrir ofan hné og eru aðalverkirnir ekki verkir í beininu sem sagað er af, heldur svokallaðir draugaverkir sem ná niður fótinn sem ekki er lengur til staðar.

Ég var farin að sjá sýnir þar sem mér fannst maður standa við rúmið mitt með stóran hníf að stinga mig í ristina. Þetta var alveg hreint stórfurðulegt, en er vel þekkt og rannsakað innan vísindanna.“

Guðrún segir miklu máli skipta hvort fólk nær að halda fætinum fyrir ofan hné eða neðan.

„Ég vildi að ég hefði getað haldið hnénu, því þá væri auðveldara fyrir mig að fara út að hlaupa aftur.

Hluti af batanum er að aðlagast breyttum aðstæðum, sætta sig við það sem orðið er og að tala við fólk sem hefur farið í gegnum það sama en þessi veikindi eru ekki það erfiðasta sem ég hef farið í gegnum. Heldur það að fylgjast með nánum ættingja veikjast og það var lítið sem ekkert sem ég gat gert. Ég hef því unnið harðari stríð en þetta.“

Þegar töfrar koma inn í samskiptin

Guðrún er á því að hún hafi fengið baráttugleði og aukið þol á lífsleiðinni með því að upplifa eitt og annað.

„Ég er búin að læra það að ég vil stjórna mínu lífi sjálf og gera það með ákveðinni reisn. Ég vil vera fyrirmynd fyrir mig og börnin mín, það á við þegar vel gengur og líka illa.

Ég drekk lítið sem ekkert áfengi, reyni að hreyfa mig, að borða hollt og hugsa heilbrigðar hugsanir.

Svo má ekki gleyma því sem mestu máli skiptir sem er að deila lífinu með þeim sem maður elskar mest.“

Hvernig stóð makinn þinn með þér í þessu öllu?

„Það er erfitt að setja það í orðum en hann færði sig nær mér í veikindunum. Við tölum alltaf mjög opinskátt um hlutina og ef eitthvað bjátar á hjá okkur, þá ræðum við það.

Ég er að eðlisfari mjög jákvæð og hress persóna en svo get ég auðvitað orðið pirruð eins og aðrir þegar ég finn til. En ég kynntist nýrri hlið á makanum mínum sem ég hafði ekki upplifað áður. Ég varð eiginlega bara meira ástfangin af Kristjáni. Þetta gerðist á spítalanum, þegar ég þurfti mest á honum að halda.

Hann bjó sem dæmi til excel-skjal fyrir hjúkrunarfræðingana, á tússtöflu, til að halda utan um lyfin og hvenær ég ætti að fá þau. Ég var alveg hætt að muna hvað var hvað því ég var orðin rænulaus af verkjum. Kristján var með mér með verkjateyminu að finna út úr málunum, ég veit ekki hvernig ég get lýst þessu öðruvísi en að segja að hann steig bara fast inn í ferlið mér sem er eitt af því fallegasta sem ég hef upplifað. Ást er sýnd með verknaði og er ekki endalausar játningar, knús og kel og svo ekkert meira. Ást er þegar maður upplifir sig elskaðan þegar maður er hvað viðkæmastur. Það býr til dýpra samband fólks á milli og auðvitað vakna alls konar tilfinningar innra með manni því tengt. Ég get ekki stjórnað því hvernig annað fólk bregst við því að ég veikist, ég get einungis tekið ábyrgð á mér, svo þegar fólk kemur manni á óvart og gerir meira en maður gæti hugsað sér að það geri fyrir mann, þá koma einhverjir töfrar inn í samskiptin.“

Lætur daginn verða góðan

Guðrún stefnir að því að lifa góð þrjátíu ár í viðbót.

„Ég viðurkenni alveg að ég elska enn þá falleg föt og að hafa fínt í kringum mig en ég er ekki eins upptekin af því og oft áður. Ég er meira fyrir nánd og góð tengsl. Við parið eyðum kvöldunum saman þar sem við borðum góðan mat og spilum. Svo verjum við meiri tíma með börnunum.“

Áttu ráð fyrir þá sem eru að ná sér eftir veikindi?

,,Já bara þegar þér líður eins og þú sért fangi eigin hugsana eða ef þér líður illa, þá skaltu bara leyfa þér að fara að gera eitthvað jákvætt. Besta leiðin út úr neikvæðri tilfinningu er að gera eitthvað jákvætt! Það er mín upplifun. Bara ein armbeygja á gólfinu truflar hugsunina og hugsanir koma og fara. Ég veit að það er stundum erfiðara að gera þetta en að segja og ég á líka mína erfiðu daga. En hugurinn er eins og vöðvi, eftir því sem maður gerir hlutina oftar þeim mun sterkari verður hann. Ég bara ríf mig stundum upp og segi: Ég er farin í bíltúr og fer þá að rúnta um skemmtilega staði. Ég geng í Smáralind til að halda mér í formi. Í raun hef ég aldrei hreyft mig eins mikið og nú. Það eru ekki til hindranir sem stoppa okkur í þessu lífi. Ég vakna á morgnana og hugsa: þetta verður góður dagur. Ég bara læt daginn verða góðan. Að sjálfsögðu eru þeir misgóðir en ég er alla veganna að halda með því góða.“

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

,,Ég hef settt mér það markmið að ég ætla að halda áfram að spila golf. Svo ætla ég að geta gengið á hælaskóm og án þess að nota staf. Ég er búin að fá fyrirtækið Össur með mér í lið. Ætli við lifum ekki drauminn þegar við leyfum okkur að hugsa stórt?“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda