Margir draga úr félagslegri virkni vegna grindarbotnseinkenna

Þorgerður er einn fremsti sérfræðingur landsins á sviði kvensjúkdóma- og …
Þorgerður er einn fremsti sérfræðingur landsins á sviði kvensjúkdóma- og fæðingarsjúkraþjálfunar. Ljósmynd/Gunnar V. Andrésson

Þorgerður Sigurðardóttir er sterk, metnaðargjörn og ákveðin kona. Hún er sjúkraþjálfari og einn helsti sérfræðingur landsins þegar kemur að kvensjúkdóma- og fæðingarsjúkraþjálfun, en bæði konur og menn leita sér aðstoðar hjá henni. 

Þorgerður er fædd og uppalin í Stykkishólmi, þeim mikla körfuboltabæ, en býr í dag í Árbænum ásamt eiginmanni sínum, Kristjáni Má Unnarssyni fréttamanni. Hjónin eiga fjögur uppkomin börn og góðan slatta af barnabörnum. 

„Mikil starfsframtíð í faginu“

Þorgerður segist alltaf hafa vitað að hún myndi starfa innan heilbrigðisgeirans. „Hugurinn leitaði frá upphafi beint í heilbrigðistengt nám. Móðir mín heitin var ljósmóðir, en hún tók á móti börnum, sinnti mæðravernd og ungbarnaeftirliti í Stykkishólmi. Var það stór og eðlilegur hluti af lífi mínu á uppvaxtarárunum og hefur sennilega mótað mig í þessa átt,“ segir Þorgerður, jafnan kölluð Tobba. 

Þorgerður ásamt eiginmanni sínum, Kristjáni Má Unnarssyni fréttamanni.
Þorgerður ásamt eiginmanni sínum, Kristjáni Má Unnarssyni fréttamanni. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hafði leitt hugann að lyfjafræði og læknisfræði en það var mágur minn, sem er starfandi læknir, sem benti mér á að það væri mikill skortur á sjúkraþjálfurum og því mikil starfsframtíð í faginu. Hann nefndi þetta við mig um svipað leyti og ég var að klára menntaskóla,“ útskýrir hún. Orð hans höfðu mikil áhrif en Þorgerður endaði á að sækja um í sjúkraþjálfunarfræði stuttu síðar. Hún lauk BS-prófi í sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands árið 1985. 

Hefur margt breyst innan starfsstéttinnar á þessum árum sem þú hefur verið starfandi?

„Já, margt hefur breyst. Þegar ég útskrifaðist var stétt sjúkraþjálfara frekar fámenn og fáar stofur starfandi utan heilbrigðisstofnana. Í dag hefur starfssvið sjúkraþjálfara víkkað mikið með bættri menntun og auknum rannsóknum á fjölbreyttum sviðum endurhæfingar og þjálfunar. 

Sóknarfærin eru mörg og þörf er á þekkingu sjúkraþjálfara. Þekking okkar spannar vítt svið enda eru sjúkraþjálfarar farnir að starfa víða í samfélaginu. Sérhæfing er alltaf að aukast sem ætti að gefa almenningi markvissari þjónustu.“

„Það sem er erfiðast er oft og tíðum líka mest gefandi“

Aðspurð segist hún brenna fyrir starfi sínu, en hún er einn þriggja eigenda Táps sjúkraþjálfunar í Kópavogi og starfar einnig sem stundakennari við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. 

„Starfið hefur gefið mér mikið og kennt mér margt enda er ég stöðugt að læra af fólkinu í kringum mig, samstarfsfólki, skjólstæðingum og nemendum. Starfið hefur einnig kennt mér þá mikilvægu lexíu að ég get ekki hjálpað öllum. Það er mikilvægt að vera auðmjúkur og vísa fólki annað ef að geta eða þekking manns þrýtur,“ segir Þorgerður.

Hvað er erfiðast við starfið?

„Það sem er erfiðast er oft og tíðum líka mest gefandi. Ég er að mæta einstaklingum sem eru oft að glíma við kvilla og eða einkenni sem hafa mikil áhrif á lífsgæði og andlega líðan. Það getur reynst mörgum erfitt að byrja ferlið sem er að leita sér hjálpar. Ef maður getur miðlað og stutt fólk til bættra lífsgæða er það mikils virði.“

Þorgerður ásamt nemendum.
Þorgerður ásamt nemendum. Ljósmynd/Aðsend

Algjör tilviljun

Þorgerður segist hafa leiðst út í sérmenntun, kvensjúkdóma- og fæðingarsjúkraþjálfun, fyrir algjöra tilviljun.

„Ég var ungur sjúkraþjálfari þegar ég fæ tilvísun frá heimilislækni í Kópavogi. Um var að ræða konu með greininguna þvagleki. Ég reyndi hvað best að undirbúa mig og það kom mér á óvart, jákvætt á óvart, hversu mikið sjúkraþjálfun bætti lífsgæði þessarar konu. 

Eftir þetta fór ég á fullt að leita mér frekari upplýsinga, en starfsþróun mín og vegferð hófst fyrir alvöru í Noregi þegar ég sótti námskeið,“ útskýrir Þorgerður. „Ég var einnig hvött áfram af læknum hérlendis. Þannig byrjaði þetta.“ Þorgerður lauk meistaragráðu í líf- og læknavísindum árið 2009 og hlaut sérfræðiviðurkenningu frá Landlæknisembættinu árið 2011. 

Hvað felst í meðgöngu- og fæðingarsjúkraþjálfun?

„Eins og í allri sjúkraþjálfun þá felst þetta í samtali einstaklings og fagmanns. Verkefnin innan sérsviðs míns eru mjög fjölbreytt, en þau geta verið tengd verkjum, eins og endómetríósu og öðrum heilkennum, ofspennuvandamálum, taugavandamálum, þvagleka, sigi, eins og blöðru- og legsigi og hægða- og loftleka. 

Grindarbotnsvandamál eru oft hluti af víðtækari einkennum, en það þarf alltaf að passa að líta á manneskjuna í heild en ekki bara lítinn part af henni,“ segir Þorgerður. 

Aðspurð segir Þorgerður að margar konur byrji að upplifa einkenni frá grindarbotni í kringum breytingarskeið. „Það er mikið í húfi og mikilvægt að styðja konur á þessum tíma, ekki síður en í kringum meðgöngu og fæðingu.

Til mín leita einstaklingar á öllum aldri og það er ekki hægt að segja að aldur sé eðlileg skýring á vandamálum og þess vegna ástæðulaust að leita sér aðstoður. Það er aldrei of seint að koma og ræða við lækni eða sjúkraþjálfara. Það er oftast þess virði. Þvagleki er til að mynda algengur en aldrei eðlilegur. Hann er alltaf merki um að eitthvað sé ekki eins og það á að vera.“

Hvað er mikilvægt að gera til að halda líkamanum í góðu standi á meðgöngutímabilinu?

„Að halda sér í góðu formi, eins og hver og ein getur er afar mikilvægt, hreyfa sig reglulega. Hreyfing getur unnið gegn mörgum meðgöngutengdum kvillum. Það hefur einnig sýnt sig að grindarbotnsæfingar sporna gegn þvagleka á meðgöngu, hafa góð áhrif á fæðingarferlið og hjálpa til við endurheimt eftir fæðingu.“

„Mörgum finnst pínlegt að heyra talað um slík mál“

Þorgerður er ein fárra sjúkraþjálfara á landinu sem lokið hafa doktorsprófi. Hún lauk doktorsnámi árið 2020 en rannsóknarefni hennar sneri að heilsu kvenna og áhrifum fæðingar á grindarbotn.

Þorgerður varði doktorsverkefni sitt árið 2020.
Þorgerður varði doktorsverkefni sitt árið 2020. Ljósmynd/Aðsend

Af hverju kaustu að ljúka doktorsprófi?

„Í mínu tilviki var það einfaldlega einhver innri þrá sem ýtti á mig. Við hjónin tókum góðan tíma í að koma fjórum börnum til manns áður en ég byrjaði þessa vegferð, fyrst í meistaranámi og síðar doktorsnámi.

Ég hafði lengi verið stundakennari við Háskóla Íslands ásamt því að vera leiðbeinandi nema á grunnstigi og meistarastigi. Þar vakna upp rannsóknarspurningar,“ útskýrir hún. „Ég mæli samt sem áður með að fólk klári nám fyrr á ævinni þó svo ég hafi ekki látið það stoppa mig að vera ekki lengur unglingur,“ segir Þorgerður og hlær. 

Þann 14. desember 2020 varði hún doktorsverkefni sitt, Grindarbotnseinkenni eftir fæðingu og snemmíhlutun með sjúkraþjálfun. Rannsóknarverkefnið var vissulega gefandi en jafnframt krefjandi verkefni. „Meginmarkmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni grindarbotnseinkenna og vanlíðanar sem þau valda frumbyrjun á fyrstu mánuðum eftir fæðingu, ásamt því að rannsaka hvort tengsl fyndust milli grindarbotnseinkenna og fæðingartengdra þátta,“ útskýrir hún. 

„Vandamál sem tengjast grindarbotni eru með algengustu heilsufarskvillum sem konur glíma við, samt er lítið fjallað um þau mál. Mörgum finnst pínlegt að heyra talað um slík mál, en það er ekki hægt að stinga höfðinu í sandinn þegar kemur að ákveðnum líkamshluta. Ég hef til dæmis aldrei heyrt að einhver skammist sín fyrir að leita sér aðstoðar vegna hnévandamála eða tognunar í öxl. 

Tölur úr doktorsrannsókn minni sýndu að í kjölfar fæðingar fundu tæplega 50% kvenna fyrir þvagleka, 60% þeirra glímdu við einhvers konar veikleikaeinkenni frá endaþarmi, tæplega 30% fundu fyrir sigi og af þeim sem voru aftur orðnar virkar í kynlífi fundu 66% fyrir verkjum við samfarir. Sem betur fer verða margar konur skárri af grindarbotnseinkennum þegar líður frá fæðingunni og þessar tölur lækka eitthvað en þær hafa samt meiri líkur á áframhaldandi einkennum en þær sem ekki finna fyrir kvillum frá grindarbotni í kringum meðgöngu og fæðingu.“

Eru margir sem sækja sér sjúkraþjálfunar vegna grindarbotnsmála?

„Já, sem betur fjölgar þeim sem sætta sig ekki við að glíma við erfið einkenni sem hafa mikil áhrif á lífsgæði. Margir, bæði konur og karlar, draga úr félagslegri virkni og almennri hreyfingu vegna grindarbotnseinkenna. Vandamál frá grindarbotni auka líkur á andlegri vanlíðan, eins og kvíða og depurð, og stuðla oft að einangrun þeirra sem þjást. Við getum sagt með sanni að þau séu lýðheilsuvandamál sem geta undið upp á sig.

Smávægilegur þvagleki getur orsakað að viðkomandi hættir í leikfimi, að ganga á fjöll og treystir sér ekki í leikhús eða fjölskylduboð, svo að dæmi séu tekin. Þau sem glíma við verkjavandamál í grindarbotni forðast oft kynlíf sem getur haft áhrif í nánum samböndum.

Sérhæfðir sjúkraþjálfarar, kynfræðingar og læknar geta oft og tíðum veitt hjálp í slíkum tilvikum. Það eru alltaf fleiri og fleiri að leita sér aðstoðar en samt sem áður eru of margir einstaklingar með grindarbotnsvandamál sem ræða ekki málin við sína nánustu og hvað þá heilbrigðisstarfsmenn. Þetta þarf að breytast,“ segir Þorgerður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda