Hildur Gunnlaugsdóttir, arkítekt og umhverfisfræðingur, býr í fallegri íbúð á besta stað í Reykjavík. Smartland heimsótti hana.
Nostrar þú mikið við heimilið? Ég flutti inn í íbúðina núna rétt fyrir síðustu jól en þá var ég búin að eyða tveimur mánuðum í að rífa, pússa, mála eða flísaleggja alla fleti þannig að ég missti eiginlega allan kraft eftir að ég flutti inn. Síðan þá hefur litlum tíma verið varið í að nostra við íbúðina. Ég þarf að fara að taka stigaganginn (sem ég deili með nágrannakonu minni) í gegn sem og garðinn sem er ekki sjón að sjá núna. Ég læt mig dreyma um fallegt hvítt grindverk og viðhaldslaus beð. Ég er þó mjög mikið fyrir það að breyta hlutum og vesenast. Ég bjó til dæmis um daginn til lampa úr kertastjaka sem mér fannst verða mun skemmtilegri sem lampi. Með hækkandi sól er gaman að skipta ullarteppum og gærum út fyrir litrík kerti og lifandi blóm – skelli mér í það á næstunni.
Hvað gerir heimili heimilislegt?
Að hafa hluti sem manni þykir vænt um í kringum sig og skipuleggja heimilið svolítið út frá því. Mér finnst agalegt þegar fólk er með einhverja mjög ákveðnar tískusveiflur í gangi heima hjá sér og það hefur ekki pláss fyrir uppáhalds kertastjakana frá ömmu eða annað álíka.
Mér finnst líka vond tilhugsun að eyða um efni fram í innréttingar eða til þess að kaupa húsgögn. Yfirleitt eru þetta ekki hlutir sem þú getur falið inni í skáp heldur hefur þú þetta alltaf fyrir þér alla daga.
Uppáhaldsarkitekt?
Japanska arkitektastofan Sanaa er í algjöru uppáhaldi hjá mér. Allt sem þau gera er svo hreinlegt og einfalt með fallegum línum. Ef ég ætti að velja íslenskan arkitekt til þess að hanna heimilið mitt þá yrði Inga Sigurjóns hjá Studiohring fyrir valinu, veit um fáa sem eru jafn smekklegir og vandvirkir. Svo er pabbi líka arkitekt þannig að ég get nú ekki annað en sagt að hann sé líka uppáhaldsarkitektinn minn en hann er líka mjög klár!
Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn heima?
Eldhúsið eða borðkrókurinn þar. Mér finnst svo gaman að sitja þar og borða með dóttur minni sem er 2 ára. Þar sitjum við og lesum saman helgarblöðin og spjöllum um ævintýri mörgæsarinnar Pingu. Ég lenti reyndar sjálf í smá ævintýri með loftljósið sem er yfir borðinu en ég spreyjaði það úti í garði í janúar í hálfgerðum snjóbyl en það fauk yfir í næsta garð á meðan það átti að vera að þorna. Fyrstu kynni nágrannanna af mér voru því ég úti á náttslopp með spreybrúsa á lofti að elta loftljós.
Er gæludýr á heimilinu?
Við erum ekki með nein dýr en mig langar mikið til þess að gefa dóttur minni gæludýr en nenni hvorki að fara með það út að ganga né hafa illa lyktandi búr eða kattarkassa. Það er svo sem nóg af köttum í hverfinu sem hún getur heilsað upp á.
Hver er uppáhaldshluturinn þinn?
Ég á tvo uppáhaldshluti á heimilinu en sá fyrri er barnastóllinn sem ég átti sjálf sem barn. Mamma lét pússa hann upp og lakka áður en sú litla kom í heiminn, ekki skemmir fyrir að hann er frá finnska hönnunarfyrirtækinu Artek og er afskaplega smart. Hinn hluturinn er sófinn minn en hann keyptu amma mín og afi í Kaupmannahöfn þegar afi var í námi í kringum 1950. Ég lét bólstra hann fyrir tveimur árum.
Eldarðu mikið heima?
Ég elda ekki mikið. Mér leiðist hræðilega að elda og ber eldhúsið þess merki. Ég var ekki að eyða miklu púðri í eldhúsið heldur reif ég niður alla efri skápa, en þeir voru allir misbreiðir sem fór mjög fyrir brjóstið á mér! Ég málaði síðan bara neðri skápana, bæsaða eldhúsbekkinn með svörtu bæsi og málaði yfir flísarnar – það er sem sagt ekkert nýtt inni í eldhúsi. Það væri samt gaman að geta skipt út eldhúsgræjum fljótlega en það er í hreinskilni sagt aðallega út af útlitslegum ástæðum.
Áttu þér uppáhaldseldhúsáhald? Nei.
Ertu dugleg að taka til og henda því sem þú notar ekki?
Já og nei. Ég er dugleg að skipta út en hendi sjaldan. Mér finnst mjög gaman að fara í geymsluna og finna allskonar dóterí sem ég hef verið búin að gleyma. Ég næ yfirleitt að nota allt aftur, annaðhvort breyti ég því eða finn því nýjan stað. Ég er með herbergi í kjallaranum sem frænka mín sem býr í London ætlar að búa í sumar og ég gat nánast fyllt það með hlutum sem ég fann í geymslunni, sjónvarpsbekkur sem ég föndraði fyrir nokkrum árum kom til dæmis að góðum notum sem sófaborð.
Er mikið drasl í geymslunni?
Alveg hræðilega. Ég deili geymslu með nágrannakonu minni og kvíð því hræðilega að hún eigi erindi í geymsluna og sjái draslið mitt. Ég er síðan með háaloft yfir allri íbúðinni minni sem ég gæti fyllt af drasli en ég forðast það að fara þangað upp. Ég veit ekki hvort þetta er draugahræðsla hjá mér en mér finnst ég stundum heyra einhver hljóð þarna uppi.
Finnst þér gaman að fá gesti heim?
Það er ótrúlega gaman að fá gesti og ég fæ mjög oft gesti. Ég var með Eurovision partý um daginn og þá fylltist litla íbúðin af skemmtilegu fólki.
Hvað ertu með uppi á veggjum?
Ég er ekki með mikið uppi á veggjum en mér finnst hver nagli í nýpússaða og nýmálaða veggi stór ákvörðun. Ég er með allskyns platta yfir eldhúsborðinu en ég hef unun af því að finna nýja sniðuga platta. Skemmtilegustu plattarnir eru þeir sem eru að halda uppá einhvern merkan áfanga eins og 50 ára afmæli hraðfrystihúss eða annað álíka. Ég hálf vorkenni umkomulausum plöttum sem ég finn í Kolaportinu eða á fornsölu sem eitt sinn voru hengdir upp með stolti. Síðan gaf systir mín mér skemmtilega mynd í afmælisgjöf um daginn, sú mynd er inni í stofu. Myndin er af skilti af leiktæki í Tívolíinu í Kaupmannahöfn. Leiktæki þetta var í miklu uppáhaldi hjá mér sem barni og ég fór með hana Soffíu Dóru mína þangað í fyrra og henni þótti fátt skemmtilegra en að sitja í litlu bílunum og það var mikil sorg þegar ferðinni lauk – í hvert skipti…
Hvernig er draumaheimilið þitt?
Draumaheimilið mitt er með fallegum stórum gluggum sem horfa yfir birkiskóg sem skermar af fyrir sólinni á sumrin og hleypir birtunni í gegnum berar greinar að vetri til. Það er mikil lofthæð, stórt barnaherbergi, húshjálp og myndarlegur maður með borvél og hamar á lofti. Draumaheimilið er miðsvæðis þannig að það er stutt að fara á kaffihús að hitta vinkonur eða niður í bæ að heimsækja endurnar.
Áttu einhver ómissandi húsráð?
Ekki beint húsráð en ég mæli eindregið gegn því að mála flísar þótt ég hafi sjálf gert það inni í eldhúsi. Ég hef nokkrum sinnum gert það, alltaf með góðum ráðum frá málningarverslun með réttum grunni og allt það, en þetta þolir ekki neitt. Ég get mælt með því að bæsa. Ég elska bæs. Ég notaði grátt bæs á gólfin hjá mér en þau voru illa farin og þrátt fyrir að pússa þau upp þá náðust ekki allar skemmdir úr gólfinu. Með gráa bæsinu kom rustik blær og þá pössuðu skemmdirnar bara vel við.