Eitt verðmætasta hús landsins, Hrólfsskálavör 2, sem lengi var í eigu Helgu Gísladóttur kennda við Víði og 10–11 er komið í eigu Kotasælu ehf. Kotasæla ehf. keypti húsið formlega 9. júní síðastliðinn.
Kotasæla ehf. er í eigu Skúla Mogensen, forstjóra WOW air, en félagið heldur utan um jarðirnar Hvamm og Hvammsvík sem keyptar voru af Orkuveitu Reykjavíkur eftir útboð 2011.
Smartland hefur fjallað nokkuð ítarlega um húsið að Hrólfsskálavör 2 en það er hannað af Steve Christer og Margréti Harðardóttur á Studio Granda en verk þeirra eru löngu orðin landsþekkt. Þau hafa sópað að sér hönnunarverðlaunum til dæmis fyrir hönnun Ráðhúss Reykjavíkur, Hæstarétt Íslands og Hafnarhús Listasafns Reykjavíkur.
Húsið er á tveimur hæðum og stendur á sjávarlóð á þessum eftirsótta stað á Seltjarnarnesi. Búið er að ganga frá lóðinni að utan en þar er meðal annars heitur pottur, gufubaðstofa og fleira sem nútímafólk með kröfur þarf að hafa.