Svolítið nískur með dýran smekk

Daníel Freyr Atlason hjá Döðlum.
Daníel Freyr Atlason hjá Döðlum. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Í grunninn er hugmyndin bakvið ODDSSON fengin úr listaheiminum. Að taka há- og lágmenningu og troða þeim saman. Bara nýta fegurðina í öfgunum og skilja á sama tíma allt miðjumoð og meginstrauma eftir ósnert,” segir Daníel Freyr Atlason hjá Döðlum sem eru höfundar hugmyndar og hönnunar á ODDSSON. 

ODDSSON er nýtt glæsilegt hostel og hótel í gamla JL-húsinu við Hringbraut. Þar er einnig jógasalur, kaffihús, bar og ítalskur veitingastaður með karaoke-herbergi. 

„Þessi hugmynd (e. concept) hefur oft leitt af sér ansi skemmtileg og frumleg listaverk þannig okkur fannst tilvalið að máta það á gististað og sjá hvað myndi gerast. Þessi einfalda en sterka hugmynd gaf okkur því ekki eingöngu frelsi til að gera allt öðruvísi gististað en við eigum að venjast heldur líka mjög sterkan áttavita í hönnunarferlinu. Það skiptir okkur miklu máli að enginn komi inn á ODDSSON og geti líkt staðnum við einhvern annan.

Strax frá fyrsta hitting hafa eigendurnir, Margrét Ásgeirsdóttir og Arnar Gunnlaugsson, haft óbilandi trú á hugmyndinni. Ástríða þeirra hefur verið forsenda metnaðarins bakvið verkefnið og að hlutirnir hafa verið teknir alla leið. Þessi kraftur þeirra hefur því einkennt verkefnið frá fyrsta degi og mun hann vonandi halda áfram að vaxa og dafna með verkefninu,” segir hann.

Sófinn í miðjunni er hannaður af Takahama, brúni stóllinn upp …
Sófinn í miðjunni er hannaður af Takahama, brúni stóllinn upp við gardínurnar er frá Pierre Paulin og líka blái sófinn til hægri og blái stóllinn upp við gluggann. Svarti leðursófinn er frá Michel Ducaroy, veggljósið er hannað af Döðlum og túrkislitaði stóllinn fremst til hægri er frá Augusto Bozzi. Ljósmynd/Ari Magg

Daníel Freyr segir að hugmyndin hafi stýrt öllu og því sé rándýr svíta við hliðina á ódýru koju-herbergi. Bæði herbergin státa af mögnuðu útsýni. Á fyrstu hæðinni er svo veitingastaðurinn Bazaar og inni á honum er hljóðeinangrað karaoke-herbergi sem ætti að vera himnasending fyrir tónelskandi fólk.

Þegar komið er inn á Bazaar tekur við blá heillandi litapalletta. Stutt er í gullið, kirsuberjavið og fyrir gluggunum eru sægrænar flauelsgardínur. Þeir sem hafa áhuga á húsgögnum fá hland fyrir hjartað við að koma þarna inn. Svo fallegt og heillandi er umhverfið.

„Við hikum því ekki við að blanda okkar eigin sérhönnuðu húsgögnum við afar sjaldgæf meistarastykki úr hönnunarheiminum. Í ODDSSON myndaðist einnig hamingjusamt hjónaband milli iðnaðararkitektúrs og hráleika hinnar sögufrægu byggingar JL-hússins annars vegar, og fagurfræði Daðla, hins vegar. Ég hef alltaf haft „veikan blett“ fyrir húsgögnum sem finnast á verkstæðum, þessi sem smiðirnir sjóða saman sjálfir fyrir verkstæðið sitt. Heiðarleiki, einfaldleiki og hráleikinn er þar einkennandi og auðvelt er að koma auga á að við erum undir áhrifum þess.

Afgreiðsluborðið og ljósin á veggjunum eru hönnuð af Döðlum. Sófarnir …
Afgreiðsluborðið og ljósin á veggjunum eru hönnuð af Döðlum. Sófarnir eru frá Mario Bellini. Ljósmynd/Ari Magg


Við viljum einnig að ODDSSON sé staðurinn fyrir húsgagnaunnendur. Við höfum lagt mikla vinnu í að búa til myndarlegt safn hönnunar þar sem má finna demanta frá hönnuðum á borð við: Pierre Jeanneret, Augusto Bozzi, Pierre Paulin, Pierre Chapo, Mario Bellini, Tobia Scarpa, Alessandro Becci, Paul Evans, Ettore Sottsass, Mario Botta, Alessandro Mendini, Gerrit Rietveld, Eero Saarinen, Luigi Caccia Dominioni, DeSede, Gervan, Milo Baughman, Michel Ducaroy, Maison Jansen og Tomasso Barbi … bara til að nefna nokkuð marga. Ég grínast stundum með að þetta sé staður fyrir fólk eins og mig - nískt með mjög dýran smekk,” segir hann og hlær.

Afgreiðsluborðið er hannað af Döðlum og líka veggljósið. Blái stóllinn …
Afgreiðsluborðið er hannað af Döðlum og líka veggljósið. Blái stóllinn er eftir Gerrit Riietveld, lampinn eftir Medini og listaverkið eftir Kristján Guðmundsson. Ljósmynd/Ari Magg

Á ODDSSON er mikið lagt upp úr íslenskri hönnun og að húsmunir og húsgögn séu framleidd á Íslandi.

„Það skipti okkur og eigendurna einnig miklu máli að fá tækifæri til að taka þátt í íslenskri hönnun og íslenskri framleiðslu. Það hentar einkar vel fyrir stað eins og ODDSSON þar sem viðskiptavinir stoppa í raun í stuttan tíma á leið sinni út á land eða aftur heim. Þeir vilja því fá menninguna beint í æð og því mjög skemmtilegt að geta sýnt þeim upprunalega hönnun á gististaðnum sjálfum.

Gott dæmi um upprunalega hugmynd sem hækkar þjónustustigið á praktískan máta kallast Lost Luggage Program þar sem óheppnir ferðalangar sem hafa lent í því að fá ekki farangurinn sinn hafa tækifæri til að fá lánuð föt frá íslenskum hönnuðum. Markmiðið þar er ekki aðeins að tryggja að týnd taska þýði ekki ónýtt frí heldur er það einnig skemmtileg leið til að hefja samtal milli íslenskra hönnuða og alþjóðlegra gesta,” segir Daníel Freyr.

Sófinn er eftir Ubald Klug for De Sede.
Sófinn er eftir Ubald Klug for De Sede. Ljósmynd/Ari Magg

ODDSSON prýða mörg listaverk eftir Kristján Guðmunds, Steingrím Eyfjörð og Steinunni Þórarins. Auk þess er ODDSSON að gera ilm í samstarfi við Andreu Maack, myndskreytingar með Skúla Árnasyni og ljósmyndir og video með Magnúsi Unnari og Önnu Maggý. 

„Ferlið var ekki alltaf auðvelt. Eins og hjá svo mörgum Íslendingum þá þurftum við að fara okkar eigin leiðir. Döðlur eru ekki góðar að fara eftir reglum og venjum og trúum við stundum að við getum allt. Fyrir vikið var lærdómskúrvan nokkuð brött. Við lærðum ansi fljótt að það er alls ekkert einfalt að hanna einfalda hluti. Fæðing verkefnisins tók mun lengri tíma en við bjuggumst við upphaflega og heimsóknir á verkstæði borgarinnar urðu ansi margar. Það kom því í ljós að markmiðið að halda sem mest af framleiðslunni hérlendis var ekki aðeins gott til að styrkja íslenskan iðnað og hönnun heldur einnig einkar hagkvæmt fyrir nýliða eins og okkur. Við vorum líka dugleg við að fá til liðs við okkur afar hæfileikaríkt fólk eins og Stáss Arkítekta, Jakob Jakobs, DK Húsgagn, Hall Árnason, Baldur Kárason, Steve Roberts og félaga, Grétar Árnason, Jens málara, Gunna rafvirkja, Eika hjá Lumex og Atla Hermannsson föður minn auk allra hinna sem ég er óvart að gleyma,” segir hann. 

Ljósmynd/Ari Magg

Daníel Freyr er mikill stemningsmaður og hugsaði ODDSSON svolítið eins og lítið partí sem myndaðist á flugvelli þar sem business class fólk hitti bakpokaferðalanga.

„Það er sama áhersla þar og allstaðar annarstaðar í hugmyndinni. Við viljum að staðurinn sé vettvangur fyrir ólíka hópa að mætast. Þótt ótrúlegt megi virðast þá var fyrirmyndin lítið partí sem myndaðist á flugvelli þar sem business class fólk og interail ferðalangar enduðu saman á einu stóru borði með mér og Herði og þar myndaðist mögnuð stemmning. Í minningu var það í það minnsta virkilega skemmtilegt. Þetta verður því vonandi staður fyrir ný tengsl, nýjar hugmyndir og taumlausa gleði.“

Ljósmynd/Ari Magg


Daníel Freyr hefur ástríðu fyrir húsgögnum og fór óhefðbundna leið við að finna þau fyrir staðinn.

„Flest öll ef ekki öll húsgögnin sem við erum með eru ekki til út í búð. Við erum búin að vera ansi dugleg í að leita uppi áhugaverð og sjaldgæf eintök á uppboðum víðsvegar um heim. Mikið af þeim koma frá miðríkjum Bandaríkjanna, Flórída og Ítalíu. Þetta var ekkert grín enda búið að taka mig 2 ár að finna þetta allt saman.

Þarna eru til dæmis stólar eftir Pierre Jeannaret sem voru hannaðir fyrir Punjab háskólann í Chandigarh á Indlandi árið 1955. Þú getur farið í heimsókn til Kanye West eða farið á safn í Stokkhólmi til að setjast í svoleiðis stóla já eða komið og fengið þér drykk eða borðað á Bazaar Oddsson. Það eru fáir, ef einhverjir staðir í heiminum sem eru með eins glæsilegt safn af húsgögnum frá síðustu öld og af því erum við augljóslega mjög stolt. 

Einnig hefur okkur alltaf fundist svo ótrúlega svalt að koma inn á staði með sérhönnuð húsgögn - húsgögn sem eru bara gerð fyrir þennan stað. Því fannst okkur tilvalið að hanna töluvert af okkar eigin húsgögnum og blanda þeim við klassísk meistaraverk,” segir hann.

Bláir tónar njóta sín vel.
Bláir tónar njóta sín vel. Ljósmynd/Ari Magg

Inni á ODDSSON er mögnuð litapalletta. Á Bazaar eru bláir tónir, túrkís og grænn marmari í aðalhlutverki. Litapallettan kemur úr bíómyndum.

„Það er auðvelt að sjá litasamsetningar úr Wes Anderson bíómyndum í ODDSSON, eins horfðum við á Regnhlífarnar frá Cherbourg og In The Mood For Love. Við sækjum líka innblástur í arkítektana Le Corbusier og Ettore Sottsass og listamennina Dan Flavin, Donald Judd og Ólaf Elíasson,” segir hann.

Skrifborðið, skápurinn og borðið er hannað af Döðlum.
Skrifborðið, skápurinn og borðið er hannað af Döðlum. Ljósmynd/Ari Magg

Daníel Freyr starfrækir Döðlur sem er hönnunar og hugmyndafyrirtæki með besta vini sínum sem heitir Hörður. Döðlur varð til þegar Daníel og Hörður sameinuðu krafta sína undir nafninu Döðlur. 

„Upphaflega var þetta lélegur einkahúmor sem við settum á reikning fyrir lítið verkefni sem við vorum að rukka. Síðan einhverra hluta vegna festist það. Hjá okkur starfa Benedikt Hauksson og fyrrverandi kærasta mín Berglind Sunna Stefánsdóttir  sem skipuleggjendur, Helga Kjerúlf sem er einnig fyrrverandi kærasta mín er ritstjóri. Svo stýrir Valur Þorsteinsson hönnuðunum Viktori Weisshappel og Guðmundi Péturssyni frænda mínum. Friðrik Snær sér um framleiðsluna og æskuvinkona mín Þórhildur Ýr sér um fjármálin. Ég er að djóka með að Berglind og Helga séu fyrrverandi kærustur mínar og einnig með að Guðmundur sé frændi minn. Þórhildur er samt æskuvinkona mín. En okkur líður vel og finnst gaman að vinna saman,“ segir hann og hlær sig máttlausan.  

Ljósið á veggnum er frá Flos.
Ljósið á veggnum er frá Flos. Ljósmynd/Ari Magg
Bleikir vaskar mæta túrkíslituðum flísum.
Bleikir vaskar mæta túrkíslituðum flísum. Ljósmynd/Ari Magg
Ljósmynd/Ari Magg
Ljósmynd/Ari Magg
Ljósmynd/Ari Magg
Ljósmynd/Ari Magg
Ljósmynd/Ari Magg
Ljósmynd/Ari Magg
Ljósmynd/Ari Magg
Ljósmynd/Ari Magg
Döðlur hanna ekki bara hótel heldur að skrifa, ljósmynda og …
Döðlur hanna ekki bara hótel heldur að skrifa, ljósmynda og leikstýra auglýsingum. Döðlur hanna líka varning fyrir fyrirtæki, gefa út tímarit og hanna ásynd fyrirtækja svo eitthvað sé nefnt. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda