Leikkonan Edda Björg Eyjólfsdóttir býr ásamt eiginmanni sínum, Stefáni Magnússyni tónlistarmanni, í einstöku húsi í Skerjafirði. Hún er gestur þáttarins Heimilislífs á Smartlandi.
„Mig langaði að mála eldhúsið í grábeislituðum tón og fann þennan lit í itölsku línunni hennar Rutar Kára hjá Sérefni. Við máluðum loftið líka og erum mjög ánægð með þetta, liturinn heldur vel utan um rýmið, allt er mun dekkra og gaman að nota fallega lampa og kertaljós til að lýsa. Stemningin er svolítið eins og í gömlu málverki – smá svona Caravaggio-fílingur,“ segir Edda Björg.
Innréttingin í eldhúsinu er úr IKEA en þau máluðu hurðirnar í möttum svörtum lit frá Lady Pure Color sem fæst í Húsasmiðjunni.
„Ég pæli mikið í málningu og litum, sömuleiðis mála ég líka mikið með málningu frá Slippfélaginu, liturinn í stofunni er frá þeim. Ég væri alveg til í að prófa liti frá Farrow and Ball.“
Næsta verkefni hjá Eddu og Stefáni er að breyta hurðunum á innréttingunni en hana langar að hafa allar hurðir jafnstórar eða í stærðinni 40x60.
„Gamla stykkið í eldhúsinu kemur úr Haraldarbúð, en það var aðalverslunin á sínum tíma frá 1915-1960 og var til húsa í sögufrægu húsi við Austurstræti 22. Þetta stykki hefur verið partur af afgreiðsluborði og staðið í miðri búð því það er með panel að aftan og því hægt að ganga í kringum það. Það er gaman að blanda smá sögu við þetta allt saman.“
Spurð um húsgögnin sem prýða heimilið segir hún að þau hjónin hafi safnað húsgögnum í gegnum tíðina og hún sé hrifin af klassískri hönnun.
„Ég held mikið upp á Finn Juhl og er aðeins búin að eignast eftir hann, Poet-sófann og skenk. Mér finnast húsgögnin hans einstaklega falleg, hreinasta listaverk. Síðan er sófaborðið frá Noguchi og hægindastóllinn frá Eames, ég á fleiri stóla frá þeim góðu hjónum. Mér þykir alveg rosalega gaman að eignast fallegan stól og lampa og óskalistinn er langur,“ segir hún og bætir við:
„Húsgögnin koma oft til okkar eins og kærir vinir og verða hluti af fjölskyldunni, eins og Poet-sófinn en það er einstaklega þægilegt að sitja tvö saman í þessum sófa, hann er hannaður fyrir par og er einstaklega þægilegur. Síðan er hægindastóllinn líka dásamlegur. Loftljósin keypti ég í NY; þetta er Bubble lamp, George Nelson og lampinn á skenknum er Snoopy frá Flos og fæst í Lumex, hann er æði, mikið augnayndi þessi elska.“
Hægt er að horfa á þáttinn á www.smartland.is