Teymi stjórnarandstöðumannsins rússneska Alexeis Navalnís sendi frá sér myndband hinn 19. janúar þar sem því er haldið fram að forsetinn Valdimír Pútín eigi 175 milljarða króna leynihöll við Svartahafið. Þá kemur fram að höllin hafi verið byggð fyrir illa fengið fé.
Navalní sneri aftur til Rússlands 17. janúar síðastliðinn en rússneska lögreglan handtók hann við komuna til landsins. Hann hefur verið úrskurðaður í 30 daga gæsluvarðhald. Navalní hafði dvalið í Þýskalandi síðan í ágúst þegar eitrað var fyrir honum en hann telur rússnesk stjórnvöld hafa staðið að baki eitruninni.
Pútín hefur haldið höllinni leyndri en myndbandið af henni hefur vakið mikla athygli. Horft hefur verið á myndbandið yfir 55 milljón sinnum á YouTube þegar þetta er skrifað. Þar segir Navalní að bandamenn Pútíns hafi borgað fyrir byggingu hallarinnar. Bandamenn Pútíns eru meðal annars olíuforstjórar og milljarðamæringar.
Í myndbandinu eru bæði sýndar myndir af höllinni og þrívíðar teikningar af henni. Þar má finna sundlaug, leikhús, spilavíti og nektardansklúbb. Höllin stendur um 18 kílómetra frá ferðamannastaðnum Gelendzhik.