Lærir að gera upp gömul hönnunar húsgögn

Berglind Rafnsdóttir er nemi í húsgagnabólstrun.Hér má sjá hana með …
Berglind Rafnsdóttir er nemi í húsgagnabólstrun.Hér má sjá hana með stól sem hún bólstrað

Undanfarna mánuði hefur Berglind Rafnsdóttir dvalið í Danmörku þar sem hún hefur lært húsgagnabólstrun af Dönum. Berglind lítur á bólstrun sem list og segir það að fá að gefa gömlum húsgögnum nýtt líf gríðarlega gefandi.

Berglind er nemi í Tækniskólanum en er í skiptinámi við skólann Skive College. Hún segir ekki hægt að klára húsgagnabólstrun nema að fara í Skive og klára þar stóran hluta af verklega náminu.

„Hér í Skive er lögð áhersla á iðnaðarbólstrun og við fáum að vinna með hefðbundna uppbyggingu á bólstrun. Við vinnum með leður sem áklæði, bindum upp fjaðrir í setu í hægindastól með háu baki, lærum að gera djúpheftingar og margt fleira,“ segir Berglind um námið í Danmörku.

Bólstrun er búin að vera undirliggjandi áhugi hjá Berglindi í langan tíma. „Ég leitaði út um allt á sínum tíma að bólstrunarnámskeiðum og var það einungis boðið í Tækniskólanum. Ég skráði mig á námskeið í október 2018 og þá kviknaði áhuginn og ég sá strax að þetta væri eitthvað fyrir mig. Ég sá strax fyrir mér fegurðina í þessari atvinnugrein, að taka að mér gömul húsgögn og fá að sjá hvernig þau voru bundin og byggð upp að innan á gamlan máta. Þvílík fegurð og list í þessu öllu saman. Að fá að læra það sjálf, að binda og byggja stóla og sófa upp og gefa þeim nýtt líf er algjört listaverk.“

Í heimi ofgnóttar og sóunar þar sem sífellt er talað um mikilvægi þess að huga að umhverfinu er fag húsgagnabólstrara að koma sterkt inn aftur. „Að endurbólstra húsgögn getur verið hagkvæmara og umhverfisvænni kostur fyrir þá sem vilja uppfæra og varðveita húsgögnin sín. Hins vegar er mikilvægt að hugsa um að fara með húsgögnin til þeirra sem eru með þekkingu og kunnáttu til að bólstra húsgögn á réttan hátt,“ segir Berglind.

Berglind hefur meðal annars lært að reikna út hversu mikið …
Berglind hefur meðal annars lært að reikna út hversu mikið áklæði á að vera á einum stól og búa til snið. Ljósmynd/Aðsend

Lærði að flétta setur í gamla gullmola

Hefur þú alltaf verið flink í höndunum?

„Flink og ekki flink, það hefur alltaf verið mikill áhugi á að læra allt sem tengist handavinnu, sauma og fleira. En á yngri árum fannst mér erfitt að sitja kyrr þannig að þá hentaði þetta mér ekki vel en ég lærði og reyndi ávallt. Í dag er þetta bara æfing sem skapar meistarann og að skapa eitthvað lifir sterkt í mér.“

Áður fyrr fékk Berglind útrás fyrir sköpunarkraftinn í hreyfingu en hún er menntaður dansari. Hún segir þessar tvær greinar eiga ýmislegt sameiginlegt. „Dansinn lifir sterkt í mér og mér fannst dansinn læðast inn með bólstruninni á þann hátt hvernig ég sé hlutina þróast og byggjast upp. Dansinn er list og fyrir mér er bólstrun list. Fegurðin að sjá gamlan stól með fallega sögu og jafnvel nýjan stól þar sem húsgagnið fær tækifæri til að blómstra heima hjá fólki. Fyrir mér er þetta eins og góður spunadans inni í stúdiói sem þróast hægt og rólega að fallegu dansverki. Þolinmæði, gleði og áhugi er mikilvægt í báðum fögunum.“

Á vinnustofunni í Skive í Danmörku.
Á vinnustofunni í Skive í Danmörku. Ljósmynd/Aðsend

Hefur eitthvað komið skemmtilega á óvart við námið?

„Það hefur margt skemmtilegt gerst. Við erum að hanna okkar eigið barnahúsgagn núna sem er í vinnslu og svo erum við að vinna mikið í teikniforritinu autocad, teikna stól frá grunni, teikna og reikna út hversu mikið áklæði á að vera á einum stól, búa til snið og verðleggja og fleira. Maður fær tækifæri til að fara á verkstæði sem var mjög lærdómsríkt og skemmtilegt að fá innsýn í danskt bólstrunarverkstæði og fá tækifæri til að vera kringum flott hönnunarhúsgögn.“

Í verknáminu í Danmörku hefur Berglind meðal annars ofið ný sæti í klassíska danska hönnunarstóla. „Ég fór í verknám á verkstæðið Balderus í Hadsten á Jótlandi. Þau eru sérfræðingar í að vefa ný sæti í klassíska hönnunarstóla. Ég fékk þann heiður að flétta nýja setu í Hans Wegner-stóla. Það er nú meira en að segja það að flétta svona stóla, þeir sögðu við mig máltækið: „Stóll númer 20“,“ segir Berglind og útskýrir setninguna á þann hátt að á stól 20 er bólstrarinn kominn með góð tök á fléttunni.

Sessa í Y-stóllinn eftir Hans J. Wegner í vinnslu.
Sessa í Y-stóllinn eftir Hans J. Wegner í vinnslu.

„Það er gaman að segja frá því að þetta kallast umslagsflétta og sést á tvennum vinsælum stólum frá fjórða áratug síðustu aldar. Stóllinn J39 frá Borge Mogensen er með þykkri pappírssnúru og svo er það Y-stóllinn frá Hans Wegner og þar er fléttað með fínni óreimaðri pappírssnúru. Eftir umslagsfléttuna fékk ég einnig að læra að flétta „flat weave“ og það kemur frá hönnuðinum N.O Møller. Þar er gert eins og köflótt mynstur og er kölluð ofin flétta og er mjög slitsterk. Þvílík list sem ég fékk að læra og upplifa á þessu verkstæði. Núna er ég að halda mig við að flétta og ná góðum tökum og vinna mig upp í stól númer 20.“

Berglind lærði að flétta sæti í klassíska stóla. Klassísk húsgögn …
Berglind lærði að flétta sæti í klassíska stóla. Klassísk húsgögn endast lengi og þá sérstaklega ef þau fá góða meðhöndlun hjá fagfólki. Ljósmynd/Aðsend

Eiginmaðurinn er heima með börnin

Námið úti er 20 vikur og á meðan bíður fjölskyldan heima á Íslandi. Berglind játar að það hafi verið stórt stökk að fara út. „Ég vissi fyrir fram að ég yrði að fara út til að klára námið og fannst það spennandi en að sjálfsögðu þegar það kom að því þá varð ég stressuð. Ég og maðurinn minn ræddum þetta fram og til baka, hver væri besta leiðin fyrir okkur og börnin því þetta er ein önn sem er langur tími frá fjölskyldunni og öllum skyldum sínum heima. En þetta er búið að ganga ótrúlega vel, maðurinn minn er algjör hetja að sjá um allt heimilið og börnin og ég bjóst nú ekki við neinu öðru en auðvitað var erfitt fyrir mig að reyna ekki að skipta mér af aðstæðunum heima, þurfti oft að stoppa sjálfa mig, en fjarlægðin gerir fjöllin blá.“

Ertu með drauma fyrir framtíðina?

„Stofna fyrirtæki og blómstra í bólstruninni, síðan mögulega fara að vinna með húsgagnahönnuðum og skapa og búa til skemmtilega hluti. Síðan auðvitað halda áfram að tengja bólstrunina og dansinn saman og hafa gaman af því sem ég er að gera því það skiptir mig mestu máli.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál