„Alltaf tilefni til að hafa gaman af lífinu og klæða sig upp“

Edda Konráðsdóttir er mikil smekkmanneskja og þykir gaman að pæla …
Edda Konráðsdóttir er mikil smekkmanneskja og þykir gaman að pæla í tísku. Samsett mynd

Edda Konráðsdóttir lifir og hrærist í nýsköpunarheiminum en hún er stofnandi og framkvæmdastjóri Iceland Innovation Week og rekur ásamt því eigið ráðgjafafyrirtæki. Edda er mikil smekkmanneskja þegar kemur að klæðaburði og þykir gaman að pæla í tísku, en sjálf segir hún fatastíl sinn vera mjög fljótandi og fara eftir bæði skapi og veðri. 

„Það gefst ekki mikill tími í áhugamál fyrir utan fyrirtækjareksturinn hjá mér, sem er klárlega mitt helsta áhugamál, en ég myndi segja að sá tími fari oftast í að pæla í tísku og mataruppskriftum samhliða því að eyða tíma með fjölskyldu og vinum,“ segir Edda. 

Fyrir utan fyrirtækjareksturinn eru helstu áhugamál Eddu tíska, matargerð og …
Fyrir utan fyrirtækjareksturinn eru helstu áhugamál Eddu tíska, matargerð og gæðastundir með fjölskyldu og vinum.

Síðustu tíu ár hefur Edda starfað innan nýsköpunar- og frumkvöðlaheimsins í bland við skapandi greinar. „Ég starfaði í fataversluninni JÖR frá því að hún opnaði í tvö ár og uni mér mjög vel þar í miklum tískugír. Ég starfaði svo hjá KLAK Icelandic Startups árin 2015-2019 þar sem ég kolféll fyrir nýsköpunarheiminum og fékk löngunina til að byggja upp mitt eigið fyrirtæki,“ útskýrir hún. 

„Mér finnst skemmtilegast að vinna að verkefnum þar sem nýsköpun og skapandi greinar blandast saman,“ bætir hún við. 

Edda rekur eigið ráðgjafafyrirtæki með áherslu á viðskiptaþróun og viðburðastjórnun …
Edda rekur eigið ráðgjafafyrirtæki með áherslu á viðskiptaþróun og viðburðastjórnun fyrir frumkvöðla og listafólk. Ljósmynd/Elísabet Blöndal

Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum þínum?

„Ég myndi segja að hann sé mjög fljótandi eftir skapi og veðri, en rauði þráðurinn er vönduð efni, víð snið og stílhreint „business“ lúkk poppað upp.“

Hvernig klæðir þú þig dagsdaglega?

„Klassískt fyrir mig væri hvít skyrta og „oversized“ blazer-jakki við „boots“ og litríkan lítinn hálsklút.“

Edda er hrifin af fallegum yfirhöfnum.
Edda er hrifin af fallegum yfirhöfnum.

En þegar þú ert að fara eitthvað fínt?

„Ég á ekki mikið af fötum sem ég myndi bara nota fínt. Mér finnst í raun alltaf vera tilefni til að hafa gaman af lífinu og klæða sig upp fínt, þó það sé bara í vinnuna á mánudagsmorgni. Ég elska að eiga nokkrar sérstakar flíkur í skápnum sem standa út og ég get klætt bæði upp og niður.“

Fyrir hverju fellur þú oftast?

„Góðum yfirhöfnum.“

Bestu fatakaupin?

„Loðjakki sem ég keypti notaðan og hefur fylgt mér í mörg ár. Stundum hvílir hann í geymslunni í einhver ár í dvala og dúkkar svo aftur upp í umferð hjá mér.“

Þessi fallegi loðjakki eru bestu fatakaup Eddu.
Þessi fallegi loðjakki eru bestu fatakaup Eddu.

Verstu fatakaupin?

„Í hvert sinn sem ég kaupi mér einhverskonar „sumarföt“ í æsing í sólarlandaferðum. Eitthvað þröngt og mynstrað sem ég nota aldrei.“

Áttu þér uppáhaldsmerki?

„Þau merki sem ég heillast mikið af og skoða reglulega fyrir innblástur eru Nanushka, GANNI, KALDA, Stine Goya og skartgripamerkið Justine Clenquet.“

Edda á nokkur eftirlætismerki.
Edda á nokkur eftirlætismerki.

En uppáhaldsbúðir til að versla í?

„Hérna heima er Andrá uppáhalds ásamt hringrásarbúðunum Spúútnik, Hringekjan, Verzlanahöllin og fleiri. Svo finnst mér æði að komast í góðar „vintage“ búðir erlendis og gramsa eftir gersemum.“

Hvað er efst á óskalistanum?

„Leðurjakki frá Nanushka sem ég hef haft augastað á í góðan tíma. Ég heillast líka af öllu skartinu frá Justine Clenquet sem fæst í Yeoman.“

Efst á óskalista Eddu er leðurjakki frá Nanushka sem er …
Efst á óskalista Eddu er leðurjakki frá Nanushka sem er eitt af uppáhaldsmerkjum hennar.

Varð heilluð af nýsköpun og stofnaði eigið fyrirtæki

Árið 2019 byrjaði Edda að vinna sjálfstætt og í kjölfarið varð Iceland Innovation Week til sem er hátíð sem fagnar nýsköpun í allri sinni mynd. Hún hélt fyrstu hátíðina árið 2020, en fyrirtækið hefur vaxið á síðustu árum og starfa nú sjö einstaklingar í teyminu sem rekur hátíðina.

„Það sem hefur komið mér og fyrirtækinu á þann stað sem við erum á í dag er 100% mottóið sem ég og Melkorka meðstofnandinn minn höfum tileinkað okkur frá degi eitt – og það er að hafa gaman af hlutunum og taka okkur ekki of alvarlega. Það er rauði þráðurinn í því sem við gerum, andinn í teyminu okkar er yndislegur og það er í alvöru alltaf gaman í vinnunni,“ segir Edda.

Edda, Áslaug Arna, Karitas Ósk og Guðfinna Birta á Tech …
Edda, Áslaug Arna, Karitas Ósk og Guðfinna Birta á Tech BBQ í Danmörku.

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Við fjölskyldan vöknum klukkan sjö og komum okkur af stað. Strákurinn okkar fer til dagmömmu samferða pabba sínum í vinnu og ég fer labbandi á mína skrifstofu. Ég myndi segja að morgungangan niður Laugaveginn sé mín morgunrútína og hugleiðsla. Þegar ég mæti á skrifstofuna fæ ég mér svo morgunmat og einn góðan kaffibolla.“

Uppáhaldsmorgunmatur?

„Ég er hörð grautarkona. Hvort sem það er hafragrautur eða chia-grautur með hnetusmjöri, bláberjum og granóla. Sem algjört spari fáum við stelpurnar á skrifstofunni okkur stundum kleinu úr Sandholti eða BakaBaka í morgunmat.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Eyða tíma með fjölskyldunni er númer eitt, tvö og þrjú. Við eigum lítinn rúmlega eins árs snáða sem gerir lífið svo geggjað og ég elska að gera hversdagslega hluti með honum.“

Hvert er besta ráð sem þú hefur fengið?

„Hafa gaman og alltaf treysta á innsæið.“

Besta ráð sem Edda hefur fengið er að treysta innsæinu …
Besta ráð sem Edda hefur fengið er að treysta innsæinu og hafa gaman.

Hvernig leggst árið 2024 í þig?

„Mjög vel, það er gjörsamlega brjálað að gera og stefnir í stærstu og flottustu hátíð frá upphafi Iceland Innovation Week í maí.“

Í ár fer Iceland Innovation Week hátíðin fram dagana 13.-17. maí. maí 2024. „Í gegnum heila viku verða á dagskrá fjöldinn allur af opnum viðburðum sem hægt er að mæta á endurgjaldslaust, allt frá fimm kílómetra hlaupi með sprotafyrirtækinu Driftline, yfir í sjósund með sprotafyrirtækinu Leviosa, „happy hour“ viðburði og opin hús hjá hinum ýmsu nýsköpunarfyrirtækjum svo öll ættu að finna eitthvað við sitt hæfi,“ segir Edda. 

„Þessu til viðbótar setjum við á svið tveggja daga prógram inni í Kolaportinu dagana 15. og 16. maí sem þarf að kaupa miða á. Þar fáum við á svið um 70 heimsklassa fyrirlesara allstaðar að, bæði hér að heiman og frá Evrópu og Bandaríkjunum, sem munu deila allskyns þekkingu á sviðinu. Seinni dagurinn er tileinkaður loftslagsmálum en þá setjum við á svið loftslagsleikhúsið okkar „Ok, bye“ þar sem við blöndum saman listafólki, tónlistarfólki og dönsurum við sérfræðinga í loftslagsmálum og hringrásarlausnum á svið. Það er alveg einstök upplifun,“ bætir hún við. 

„Ég hvet öll til að kynna sér hátíðina hvort sem …
„Ég hvet öll til að kynna sér hátíðina hvort sem viðkomandi tengist nýsköpun á einhvern hátt eða ekki.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál