Hildur Gunnlaugsdóttir arkitekt fylgir hjartanu þegar kemur að því að gera fallegt í kringum sig. Hún býr ásamt unnusta sínum og þremur börnum í íbúðinni. Þegar þau byrjuðu saman átti hann eitt barn og hún eitt, en á síðasta ári eignuðust þau barn saman. Stundum eru þau fimm í heimili og stundum bara þrjú.
Þegar Hildur var ólétt tóku þau eldhúsið í gegn og á því tímabili kastaði hún stöðugt upp. Hún segir að henni hafi verið svo óglatt á þessu tímabili að henni hafi fundist allt ógeðslegt, nema bleikt, grátt og speglar. Innréttingin er frá IKEA og segir Hildur það hentugt því þá sé alltaf hægt að skipta um fronta á innréttingunni án þess að það kosti of mikið.