Dóra Júlía Agnarsdóttir plötusnúður og umsjónarmaður Ljósa punktsins á K100 býr í fallegri íbúð í Hlíðunum. Hún festi kaup á íbúðinni fyrir um tveimur árum og hefur síðan þá búið ein. Hún segir að það hafi verið töluverð viðbrigði að búa ein en áður hafði hún búið með kærasta. Fyrst um sinn var hún með gesti allan sólarhringinn en svo hafi hún náð áttum og er farin að una sér betur þótt hún játi að hún verði alveg einmana stundum.
„Auðvitað verður maður stundum einmana þótt mér finnist gaman að vera með sjálfri mér,“ segir Dóra Júlía í Heimilislífi.
Heimili Dóru Júlíu er mjög bleikt og inniheldur það marga heillandi hluti sem hressa svo sannarlega upp á tilveruna. Hún er mikið fyrir skemmtilega lampa sem gefa ævintýralega lýsingu. Sjálf er hún ekki handlagin en er svo heppin að eiga móður sem borar í veggi og veigrar sér ekki við neitt.